Nýir í rekstri

Almennt

Eftirfarandi er almennt yfirlit yfir helstu atriðin sem þeir sem stunda atvinnurekstur þurfa að kunna skil á, ásamt tenglum á ítarefni. Rétt er að vekja athygli á því að í lok flestra kafla á vef ríkisskattstjóra er sérstakt ítarefni með tenglum á viðeigandi laga- og reglugerðarákvæði, eyðublöð og annað sem tengist umfjöllunarefni.

Umfjöllunin er fyrst og fremst miðuð við einstaklinga í eigin atvinnurekstri þó að vissulega eiga oftast sömu reglur við um atvinnurekstur í formi félaga. Mun víðtækari kröfur og formreglur gilda um atvinnurekstur í formi félaga og meiri kostnaður er við stofnun til slíks rekstrar.

Ríkisskattstjóri býður reglulega upp á námskeið sem eru sérstaklega ætluð þeim sem eru að hefja atvinnurekstur. Farið er yfir hagnýt atriði sem varða skattskil í rekstri. Má þar nefna skyldur launagreiðanda í staðgreiðslu, tekjuskráningu og reikningaútgáfu, rekstrarkostnað og skattframtalið. Auk þess er fjallað um virðisaukaskatt: útskatt og innskatt, skattskyldu, undanþágur, skattverð og fleira.

Námskeið í boði

Verktaka

Atvinnurekandi er sá sem stundar sjálfstæða starfsemi með reglubundnum hætti að nokkru umfangi og í þeim tilgangi að hagnast. Taki hann að sér, gegn endurgjaldi, að vinna eða annast um tiltekið verk fyrir annan aðila, verkkaupa, og ábyrgist árangur verksins telst hann verktaki. Verktakar geta bæði verið félög og menn. Atvinnurekandi (verktaki) sem hefur fólk í vinnu (starfsmenn/launamenn) kallast einnig vinnuveitandi og ber tilteknar skyldur sem slíkur eins og nánar er rakið hér á eftir.

Ekki eru alltaf skýr mörk á milli þess hverjir teljast vera launamenn og hverjir verktakar. Hjá einstaklingi sem vinnur aðeins fyrir einn eða fáa ræðst það af eðli starfssambandsins við þann sem unnið er fyrir hvort hann telst vera verktaki eða starfsmaður/launamaður. Ríkisskattstjóri getur skorið úr um það í skattalegu tilliti. Þannig getur ríkisskattstjóri til dæmis hafnað umsókn um virðisaukaskattsnúmer með vísan til þess að umsækjandi teljist starfsmaður þrátt fyrir samning um verktakagreiðslur. Einnig getur hann metið starfssambandið eftir á og fært skattskil úr skilum rekstraraðila í skil launamanns með tilheyrandi endurákvörðun skatta auk viðurlaga.

Munurinn á verktaka og starfsmanni/launamanni

Verktakar taka að sér að vinna ákveðið verk fyrir fyrirfram ákveðið verð fyrir verkkaupa. Þeir vinna verk á eigin ábyrgð. Starfsmenn/launamenn eru ráðnir til starfa hjá vinnuveitanda þar sem þeir vinna undir stjórn hans og á ábyrgð hans gegn greiðslu launa.

Réttindi, skyldur og ábyrgð verktaka og starfsmanna eru ólík. Hér er umfjöllun afmörkuð við skyldur gagnvart skattyfirvöldum.

Skoðum hvernig þetta lítur út þegar maður ræður sig til starfa hjá öðrum aðila, þ.e. er starfsmaður/launamaður.


Skattar og gjöld sem starfsmaður greiðir (í gegnum staðgreiðsluskil sem vinnuveitandi annast):

 • Tekjuskattur.
 • Útsvar.
 • Iðgjald í lífeyrissjóð.


Gjöld sem vinnuveitandi greiðir vegna starfsmanna (launatengd gjöld):

 • Tryggingagjald.
 • Mótframlag í lífeyrissjóð.
 • (Fjársýsluskattur – eftir atvikum)


Ábyrgð vinnuveitanda:

 • Að halda eftir og standa skil á framangreindum sköttum og gjöldum í staðgreiðsluskilum sem starfsmanni ber að greiða.
 • Að standa skil á launatengdum gjöldum.


Dæmi um annað sem vinnuveitandi ber ábyrgð á:

 • Að færa bókhald.
 • Að gæta þess að tekjuskráning sé fullnægjandi – útgáfa sölureikninga eða nota sjóðvél.
 • Að gera upp reksturinn og skila niðurstöðum með skattframtali og til þess gerðum fylgiskjölum.
 • Að skila launa- og verktakamiðum að loknu rekstrarári/staðgreiðsluári hafi laun verið greidd eða verktakagreiðslur inntar af hendi.
 • Að greiða tekjuskatt af rekstrarhagnaði.
 • Að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti ef starfsemin er virðisaukaskattsskyld.
 • Að innheimta og standa skil á gistináttaskatti ef starfsemin er gistináttaskattsskyld.


Vinnuveitendur þurfa að tilkynna sig inn á skrá hjá ríkisskattstjóra:

 • Launagreiðendaskrá: Vegna staðgreiðslu af tekjum starfsmanns ásamt tryggingagjaldi (og eftir atvikum fjársýsluskatti) og skil á launamiðum og launaframtali.
 • Virðisaukaskattsskrá: Ef starfsemi er virðisaukaskattsskyld.
 • Stofnskrá gistináttaskatts: Ef starfsemi er gistináttaskattsskyld.


Einstaklingur í sjálfstæðri starfsemi (verktaki) ber að reikna sér laun vegna þeirrar vinnu sem hann innir af hendi í rekstrinum. Sérstakar reglur gilda um þau lágmarkslaun sem honum ber að reikna sér. Reglurnar eru gefnar út á hverju ári þar sem fjárhæðir eru uppfærðar. Þar sem hann á að reikna sér laun ber honum að skrá sig á launagreiðendaskrá. Fer það svo eftir atvikum hvort hann eigi að skrá sig á aðrar skrár hjá ríkisskattstjóra.

Einstaklingur í sjálfstæðri starfsemi (verktaki) er að vissu leyti bæði í hlutverki vinnuveitanda og starfsmanns í skattalegu tilliti. Á það við óháð því hvort hann starfi einn í rekstrinum eða ekki. Þannig ber honum að greiða skatta af eigin launum, auk þess sem honum ber að greiða launatengd gjöld. Annað sem vinnuveitendur bera ábyrgð á samkvæmt yfirlitinu hér að framan er jafnframt á hans ábyrgð. Starfi aðrir við rekstur verktakans ber hann einnig að standa skil á áðurnefndum sköttum og gjöldum vegna launa þeirra.

Framangreindar reglur um laun í eigin rekstri eiga einnig við um einstakling sem starfar við atvinnurekstur sjálfstæðs félags (einkahlutafélags, sameignarfélags o.þ.h.) þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.

Nákvæmlega hvaða kröfur eru gerðar til verktaka hverju sinni ræðst af umfangi og eðli starfseminnar. Til dæmis hvort um er að ræða virðisaukaskattsskylda starfsemi og hvort standa beri skil á sköttum og gjöldum vegna reiknaðra launa í staðgreiðslu eða að tekjuári loknu.

Gerviverktaka

Það er grundvallarmunur á sambandi starfsmanna og vinnuveitenda annars vegar og verktaka og verkkaupa hins vegar. Réttindi, skyldur og ábyrgð verktaka og starfsmanna eru mismunandi og skattaleg meðferð tekna er að mörgu leyti ólík.

Það hvort samningur milli aðila er nefndur verktakasamningur eða vinnusamningur hefur ekki úrslitaáhrif um það hvort samningurinn feli í sér verktakasamning eða vinnusamning í raun. Hvað felst í samningi aðila ræðst af heildarmati á aðstæðum öllum. Ef nánari skoðun á samningi aðila og framkvæmd hans leiðir í ljós að í raun sé um að ræða vinnusamning þótt hann sé kallaður verktakasamningur er um gerviverktöku að ræða.

Ýmis atriði koma til skoðunar við mat á því um hvers konar samningssamband sé að ræða. Þau atriði hafa þó mismikið vægi. Samband aðila er skoðað með hliðsjón af samningnum og öllum kringumstæðum, m.a. framkvæmd samningsins. Hvert mál er því skoðað heildstætt þar sem sumt kann að benda til þess að um verktakasamband sé að ræða en annað til þess að um sé að ræða samband vinnuveitanda og starfsmanna/launamanna. Eftirfarandi eru dæmu um þau atriði sem skoðuð eru:

 • Innir viðkomandi verk af hendi fyrir einn aðila eða fleiri? – Verktakar taka að sér að vinna verk af tilteknum toga og bjóða almennt fram þjónustu sína á almennum markaði. Ef maður vinnur fyrir einn eða fáa bendir það frekar til þess að um vinnusamband sé að ræða en ekki verktakasamband.
 • Hver leggur til aðstöðu, verkfæri, efni? – Ef kaupandi þjónustu leggur til aðstöðu, verkfæri og efni, eru meiri líkur á því að um vinnusamning sé að ræða.
 • Er viðkomandi skyldur til að inna verk af hendi persónulega? – Verktakar taka að sér að inna ákveðið verk af hendi, en eru almennt ekki skyldugir til að inna verk af hendi persónulega þótt einhverjar undantekningar kunni að vera á því. Starfsmenn eru hins vegar skyldugir til að inna verk af hendi persónulega.
 • Hver ábyrgist árangur verks? – Verktakar ábyrgjast árangur þeirra verka sem þeir taka að sér. Vinnuveitendur ábyrgjast árangur verka sem starfsmenn þeirra inna af hendi.
 • Hver ber ábyrgð á tjóni? – Verktakar bera skaðabótaábyrgð valdi þeir tjóni við vinnu sína. Vinnuveitandi ber svokallaða vinnuveitandaábyrgð sem felur í sér að hann ber ábyrgð á tjóni sem starfsmaður hans veldur með saknæmum eða ólögmætum hætti á vinnutíma.
 • Hver hefur stjórnunarrétt, s.s. ákveður hvar, hvernig og hvenær vinnan er unnin? – Verktakar hafa mun meira sjálfdæmi um það en starfsmenn hvar, hvernig og hvenær verk er unnið.
 • Miðast greiðsla við árangur verks eða miðast greiðsla við tímaeiningu? – Almennt miðast greiðsla til verktaka við árangur verks en við tímaeiningu sé um launamann að ræða.

Í ýmsum úrskurðum yfirskattanefndar er fjallað um þau atriði sem koma til skoðunar þegar mat er lagt á það hvort samningur aðila teljist vinnusamningur eða verktakasamningur. Þar er að finna vísbendingar um vægi einstakra þátta sem nefnd eru hér að framan. Sem dæmi má nefna úrskurði nefndarinnar nr. 43/2016, 223/2013 og 41/2012.

Vefur yfirskattanefndar

Skattar manna í einstaklingsrekstri

Verktakar geta bæði verið félög (lögaðilar) og menn. Þegar menn eru verktakar er ýmist sagt að þeir séu í rekstri á eigin kennitölu, í einstaklingsrekstri, í eigin atvinnurekstri eða að þeir séu í sjálfstæðri starfsemi. Tekjur manna af sjálfstæðri starfsemi, þ.e. þegar reksturinn er ekki í félagi, eru skattlagðar með almennri skattprósentu á tekjur manna. Því er um að ræða sömu skatt- og útsvarsprósentu og vegna launa.

Rekstrarkostnaður

Þegar skattstofn er reiknaður er heimilt að færa rekstrarkostnað til frádráttar rekstrartekjum. Til rekstrarkostnaðar teljast bein útgjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Það á einnig við um það sem varið er til tryggingar og viðhalds á eignum sem bera arð í rekstrinum.

Almennur kostnaður vegna heimilis og fjölskyldu og annarra persónulegra þarfa er ekki frádráttarbær. Tilfallandi afnot af persónulegum munum skapar almennt ekki heimild til gjaldfærslu í rekstri. Sem dæmi má nefna að almennt er ekki fallist á gjaldfærslu kostnaðar vegna fatakaupa, enda hafa menn yfirleitt full persónuleg afnot af þeim. Á því eru þó undantekningar, t.d. vegna nauðsynlegs öryggis- og hlífðarfatnaðar.

Í fjölmörgum úrskurðum yfirskattanefndar er tekið á ýmsum álitaefnum varðandi rekstrarkostnað, þ.e. hvaða kostnað heimilt er að gjaldfæra og hvaða kostnað er ekki heimilt að gjaldfæra.

Af úrskurðum nefndarinnar er unnt að lesa hvaða sjónarmið almennt eru lögð til grundvallar mati á því hvort gjaldfærsla kostnaðar er heimil.

Vefur yfirskattanefndar

Tilkynningar til ríkisskattstjóra

Áður en rekstur hefst þarf að tilkynna um reksturinn til ríkisskattstjóra óháð því hvort hann er rekinn í félagi eða á kennitölu einstaklings (einstaklingsrekstur). Einnig þarf að tilkynna breytingar á rekstrinum eftir því sem við á sem og lok rekstrar.

Áður en rekstur hefst

Þeir sem eru að hefja atvinnurekstur verða, eftir atvikum, að skrá sig á eftirfarandi skrár hjá ríkisskattstjóra eigi síðar en 8 dögum áður en starfsemi hefst:

 

 • Launagreiðendaskrá: Rekstraraðilum er skylt að halda eftir og standa skil á staðgreiðslu af tekjum launamanna og af reiknuðum launum (reiknuðu endurgjaldi) ásamt tryggingagjaldi og eftir atvikum fjársýsluskatti.
 • Virðisaukaskattsskrá: Eingöngu þeir sem eru í virðisaukaskattsskyldri starfsemi eiga að tilkynna sig til skráningar.

Aðrar skrár:

 • Gistináttaskattsskrá: Þeir sem selja gistináttaeiningar eiga að tilkynna um starfsemi sína áður en hún hefst. Gistináttaeining er leiga á gistiaðstöðu í allt að einn sólarhring, þ.m.t. yfir nótt. Ekki á að leggja gistináttaskatt á sölu gistingar sem ekki ber virðisaukaskatt.
 • Fjármagnstekjuskattsskrá: Þeir sem eru skyldir til að halda eftir og skila staðgreiðslu skatts af vaxtatekjum þurfa að senda tilkynningu um það til ríkisskattstjóra. Félög með takmarkaða ábyrgð félagsmanna ber öllum að halda eftir og skila staðgreiðslu af arði og því ekki þörf á að tilkynna sig sérstaklega á skrá vegna arðgreiðslna. Ríkisskattstjóri setur félög á skrá við stofnun þeirra.

Rétt er að geta þess að þeir sem stunda atvinnurekstur og reikna sér laun eða greiða laun til starfsmanna/launamanna þurfa sjálfir að tilkynna starfsemina til viðeigandi lífeyrissjóðs og annast greiðslur.

Nánar um launagreiðendaskrá
Nánar um virðisaukaskattsskrá
Nánar um aðrar skrár
Tilkynning til launagreiðenda- og virðisaukaskattsskrár (RSK 5.02)

Ef til stendur að reka starfsemina í félagi t.d. einkahlutafélagi þarf að stofna félagið hjá fyrirtækjaskrá. Hægt er að ganga frá nýskráningu einkahlutafélaga rafrænt.

Leiðbeiningar um nýskráningu einkahlutafélaga og breytingar á skráningu

Unnt er að færa einstaklingsrekstur yfir í einkahlutafélag. Sérstakar reglur gilda þegar einkahlutafélag er stofnað með yfirtöku einstaklingsreksturs. Færa verður einstaklingsrekstur yfir í einkahlutafélag á fyrstu fjórum mánuðum ársins svo yfirfærslan hafi ekki í för með sér skattalegar afleiðingar.

Verklagsreglur um stofnun einkahlutafélags með yfirtöku einstaklingsreksturs

Á meðan á rekstri stendur

Tilkynna skal um breytingar á rekstri innan 8 daga frá því að breyting var gerð. Ef breytingar eru gerðar á virðisaukaskattsskyldri starfsemi eða hætt er við hana skal tilkynna um það til ríkisskattstjóra. Einnig ber að tilkynna breytingar á fjárhæð reiknaðra launa (reiknaðs endurgjalds) til launagreiðendaskrár. Sama eyðublað er notað og þegar aðilar tilkynna sig inn á launagreiðenda- og/eða virðisaukaskattsskrá.

Tilkynning til launagreiðenda- og virðisaukaskattsskrár (RSK 5.02)

Þegar starfsemi er í einkahlutafélagi ber að tilkynna ýmsar breytingar til fyrirtækjaskrár. Sem dæmi má nefna breytingar á nafni, lögheimili, stjórn, tilgangi, prókúruhafa og framkvæmdastjóra. Tilkynna verður um breytingar innan mánaðar frá ákvörðun. Sérstakar reglur gilda um hlutafjárhækkanir.

Leiðbeiningar um breytingar á skráningu einkahlutafélags

Í lok rekstrar

Tilkynna ber lok rekstrar til launagreiðendaskrár og eftir atvikum grunnskrá virðisaukaskatts innan 8 daga frá lokum rekstrar.

Tilkynning um lok starfsemi (RSK 5.04)

Ef starfsemin er rekin í einkahlutafélagi þarf einnig að tilkynna um slit á félaginu til fyrirtækjaskrár. Skuldlausum einkahlutafélögum er unnt að slíta á einfaldan hátt en í öðrum tilvikum þarf aðkomu skilanefnda. Vakin er athygli á því að auk upplýsinga í kafla um slit á einkahlutafélagi, sbr. tengil hér fyrir neðan, eru skilyrði þess að slit fari fram með einföldum hætti einnig rakin á bakhlið tilkynningar um slit á einkahlutafélagi (RSK 17.52).

Almennt um slit á einkahlutafélagi
Tilkynning um slit á einkahlutafélagi (RSK 17.52)

Haldið utan um fjármálin í rekstrinum

Færa skal bókhald reglulega og í samræmi við ákvæði laga um bókhald og virðisaukaskatt. Halda verður utan um allar upplýsingar um tekjur og gjöld. Tekjur skulu skráðar jafnóðum og þær verða til. Gefa skal út sölureikning við sérhverja afhendingu á vöru eða þjónustu þó greiðsla hafi ekki borist eða skrá söluna í sjóðvél jafnskjótt og hún fer fram. Fullfrágengið og fullnægjandi bókhald skal liggja til grundvallar framtalsskilum.

Eftir lok rekstrarárs eiga félög að útbúa og skila ársreikningi á grundvelli bókhaldsins. Einstaklingar þurfa að skila ársreikningum ásamt sérstöku rekstrarframtali með skattframtali sínu ef velta rekstrarársins fer yfir 20.000.000 kr.

Nánar um bókhald og tekjuskráningu
Hnappurinn (eingöngu fyrir örfélög)

Gagna- og framtalsskil og greiðsla skatts

Á yfirstandandi rekstrarári ber þeim sem stunda atvinnurekstur að standa skil á ýmsum sköttum og gjöldum. Sem dæmi má nefna virðisaukaskatt, staðgreiðslu skatts (útsvars- og tekjuskatts) og staðgreiðslu tryggingagjalds af launum og reiknuðum launum (reiknuðu endurgjaldi) og staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts vegna arðgreiðslna. Misjafnt er eftir tegund og umfangi starfsemi hverju á að skila og hversu oft.

Að liðnu rekstrarári ber að skila inn tilteknum gögnum vegna framtalsgerðar. Reksturinn er gerður upp með skilum á sérstakri rekstrarskýrslu með persónuframtali þeirra sem eru í einstaklingsrekstri og skattframtali lögaðila ef starfsemin er rekin í félagi.

Staðgreiðsla tekjuskatts og tryggingagjald

Þeir sem greiða laun til starfsmanna og reikna sér laun í rekstri (reiknað endurgjald) ber almennt að halda eftir og standa skil á staðgreiðslu tekjuskatts og tryggingagjalds. Launatímabil er að hámarki einn mánuður. Gjalddagi er 1. dagur næsta mánaðar á eftir launamánuði og eindagi 15. hvers mánaðar.

Ef endurgjald sem maður ber að reikna sér vegna starfs við sjálfstæða starfsemi sína er ekki hærra en 450.000 kr. miðað við heilt ár þarf ekki að skila staðgreiðslu. Þá ber ekki að halda eftir staðgreiðslu af reiknuðum launum barna launagreiðandans sem vinna við reksturinn. Gera skal grein fyrir umræddum launum á launaframtali, sem er hluti rekstrarskýrslu, og telja þau fram á skattframtali. Tekjuskattur og útsvar leggjast á við álagningu.

Séu launagreiðslur og reiknað endurgjald samanlagt ekki umfram 504.000 kr. á ári (að meðtöldu mótframlagi í lífeyrissjóð) er heimilt að skila staðgreiðslu tryggingagjalds einu sinni á ári eins og um uppgjör fyrir desember sé að ræða.

Mikilvægt er að skila skilagrein staðgreiðslu mánaðarlega þó að launagreiðslur liggi niðri tímabundið (núllskýrsla - setja “X“ í viðeigandi reit) því annars er ríkisskattstjóra skylt að áætla staðgreiðsluna.

Hægt er að standa skil á staðgreiðslu með rafrænum hætti.

Nánar um staðgreiðslu
Nánar um reiknuð laun (reiknað endurgjald)
Um rafræn skil á staðgreiðslu og tryggingagjaldi
Leiðbeiningar um rafræn skil á staðgreiðslu
Nánar um tryggingagjald, m.a. greiðslutímabil tryggingagjalds

Hafa ber í huga að halda ber eftir og standa skil á iðgjaldi í lífeyrissjóð af launum starfsmanna og reiknuðum launum (reiknuðu endurgjaldi). Þá ber að standa skil á mótframlagi launagreiðanda í lífeyrissjóð. Nánari upplýsingar um skil veita viðeigandi lífeyrissjóðir.

Skattadagatal

Uppgjör virðisaukaskatts

Þeir sem eru í virðisaukaskattsskyldum rekstri og með veltu umfram 2.000.000 kr. á hverju 12 mánaða tímabili ber að skrá sig á grunnskrá virðisaukaskatts. Þá ber þeim að gera upp virðisaukaskattinn eftir hvert uppgjörstímabil með rafrænni virðisaukaskattsskýrslu ásamt greiðslu virðisaukaskatts. Standa ber skil á virðisaukaskattsskýrslum þótt innheimtur virðisaukaskattur sé 0 kr. (núllskýrsla).

Almennt uppgjörstímabil eru tveir mánuðir. Önnur uppgjörstímabil eru ársskil, sérstök mánaðarskil, tímabundin uppgjörstímabil, auk þess sem sérreglur gilda um landbúnað. Sérstakar reglur gilda um hvert uppgjörstímabil fyrir sig.

Þótt almennt uppgjörstímabil séu tveir mánuðir er meginreglan sú að þeir sem hefja rekstur byrji á því að nota almanaksárið sem uppgjörstímabil. Þó ekki ef viðkomandi var áður í rekstri í sömu atvinnugrein og var þá í tveggja mánaða skilum. Þeir fara strax aftur í tveggja mánaða skil. Aðilar í ársskilum (með veltu undir 4.000.000 kr. innan almanaksárs) sem fara yfir veltumörkin ber að breyta skilamáta í tveggja mánaða skil. Er það gert með eyðublaði RSK 10.26 sem eingöngu er skilað á pappír. Ef ríkisskattstjóri færir aðila úr tveggja mánaða skilum í ársskil er honum tilkynnt um það.

Leiðréttingar á fjárhæðum í virðisaukaskattsskilum einstakra uppgjörstímabila eru gerðar rafrænt með eyðublaði RSK 10.03 fram að skilum skattframtals vegna viðkomandi rekstrarárs. Ef leiðrétta þarf fleiri en eitt uppgjörstímabil er hægt að gera það með leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts RSK 10.26 sem er á pappírsformi. Ef slík leiðrétting er gerð samhliða framtalsskilum er hægt að senda RSK 10.26 sem rafrænt fylgiblað framtals.

Nánari upplýsingar um uppgjör og skil
Leiðbeiningar um rafræn skil á virðisaukaskattsskýrslu og greiðslu virðisaukaskatts
Skattadagatal

Uppgjör gistináttaskatts

Uppgjörstímabil gistináttaskatts eru þau sömu og uppgjörstímabil virðisaukaskatts og skilin eru með sambærilegum hætti og skil á virðisaukaskatti.

Nánar um skil á gistináttaskatti
Skattadagatal

Uppgjör fjármagnstekjuskatts

Unnt er að standa skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts með rafrænum hætti vegna arðs og vaxtatekna.

Nánar um skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts
Skattadagatal

Framtalsskil og gagnaskil vegna framtalsgerðar

Gera þarf upp atvinnureksturinn að rekstrarári liðnu. Ef um einstaklingsrekstur er að ræða er sérstöku rekstraryfirliti eða rekstrarskýrslu skilað með persónuframtali. Reksturinn er ekki skattlagður sérstaklega, heldur eru niðurstöðutölur af rekstrarblöðum færðar á persónuframtalið og tekjur skattlagðar með öðrum tekjum viðkomandi.

 

 • Rekstraryfirlit RSK 4.10 - rekstrartekjur einstaklings undir 1.000.000 kr. (Nánari skilyrði hér fyrir neðan)
 • Rekstrarskýrsla RSK 4.11 - rekstrartekjur einstaklings á bilinu 1.000.000 kr. til 20.000.000 kr.
 • Skattframtal rekstraraðila RSK 1.04 - öll félög og einstaklingar með rekstrartekjur yfir 20.000.000 kr. 
 • Landbúnaðarskýrsla RSK 4.08 - skil bænda óháð fjárhæð rekstrartekna

 

Rekstraryfirlit 4.10 er eingöngu notað um mjög einfaldan rekstur. Eftirfarandi skilyrði verða að vera uppfyllt svo heimilt sé að skila rekstraryfirliti 4.10:

 

 • Rekstrartekjur fara ekki yfir 1.000.000 kr. á ári.
 • Ekki er um að ræða virðisaukaskattsskil.
 • Laun eru ekki greidd til annarra.
 • Aksturskostnaður er ekki gjaldfærður.
 • Fyrnanlegar eignir eru ekki notaðar í rekstrinum.

 

Auk þess að gera reksturinn upp sérstaklega ber að standa skil á ýmsum öðrum gögnum og upplýsingum til ríkisskattstjóra vegna framtalsgerðar á hverju ári. Þannig eiga þeir sem greiða laun að skila inn launamiðum og launaframtalshluta rekstrarskýrslu. Á launamiða er einnig gerð grein fyrir greiðslum til verktaka.

Til viðbótar framangreindu ber einkahlutafélögum að skila hlutafjármiðum yfir hluthafa félagsins.

Hægt er að skila launamiðum og hlutafjármiðum rafrænt á þjónustusíðu viðkomandi.

Nánar um framtalsskil
Gagnasöfn vegna skattframtals (RSK 2.XX)

Skil á ársreikningum

Einstaklingar þurfa að skila ársreikningum ásamt sérstöku rekstrarframtali með skattframtali sínu ef velta rekstrarársins fer yfir 20.000.000 kr.

Félög, s.s. einkahlutafélög, eiga að standa skil á ársreikningi til opinberrar birtingar til ársreikningaskrár. Athygli er vakin á því að auk þess að skila ársreikningi til ársreikningaskrár skal einnig skila ársreikningi með skattframtali. Í stað framanritaðs geta örfélög sem skilað hafa skattframtali valið að nota „hnappinn“ við skil á ársreikningi. Sé sú leið valin útbýr ríkisskattstjóri ársreikning félagsins sem byggir á innsendu skattframtali. Tiltekin skilyrði þurfa að vera uppfyllt svo sú leið sé fær.

Nánar um skil á ársreikningum
Nánar um rafræn skil á ársreikningum örfélaga (Hnappurinn)

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Lög nr. 3/2006 um ársreikninga

Lög nr. 145/1994 um bókhald

Lög nr. 138/1994 um einkahlutafélög

Lög nr. 165/2011 um fjársýsluskatt

Lög nr. 87/2011 um gistináttaskatt 

Reglur um reiknað endurgjald

Skattprósenta einkahlutafélaga – 1. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003,um tekjuskatt

Skattprósenta einkahlutafélaga - „Helstu tölur“ á rsk.is

Skattprósenta manna (einstaklingsrekstur) – 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skattprósenta manna (einstaklingsrekstur) - „Helstu tölur“ á rsk.is

VSK. - Skilyrði skráningar á virðisaukaskattsskrá – 5. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt 

VSK. - Undanþága ef velta undir fjárhæðarmörkum – 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

VSK. - Undanþegin starfsemi – 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

VSK. - Undanþegin velta – 12. og 12. gr. A laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

VSK. - Uppgjörstímabil virðisaukaskatts – 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

VSK. - Virðisaukaskattskyld starfsemi – 1. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Tryggingagjaldi skilað einu sinni á ári – 15. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald

Undanþága frá staðgreiðslu vegna reiknaðra launa – 8. tölul. 2.gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu

Undanþága frá staðgreiðslu vegna reiknaðra launa barna – 9. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu

Yfirfærsla einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag – 56. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Eyðublöð

Tilkynning til launagreiðendaskrár og virðisaukaskattsskrár - RSK 5.02
Tilkynning um afskráningu af launagreiðendaskrá og/eða virðisaukaskattsskrá - RSK 5.04

Annað

Framtalsleiðbeiningar – skattframtal einstaklinga

Framtalsleiðbeiningar – skattframtal lögaðila

Námskeið í boði

Orðsendingar

Rafræn skráning einkahlutafélaga

Skattadagatal

Vefur yfirskattanefndar

Virðisaukaskattur – leiðbeiningar RSK 11.19

Spurt og svarað

Hvað eru reiknuð laun (reiknað endurgjald)?

Þeir sem starfa við eigin atvinnurekstur eiga að reikna sér laun (reiknað endurgjald) fyrir þá vinnu. Er það sama hvort reksturinn er í formi einkarekstrar á eigin kennitölu einstaklings eða í formi sjálfstæðs félags (einkahlutafélags, sameignarfélags o.þ.h.) þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Ákveðnar reglur gilda um fjárhæð þeirra launa sem menn reikna sér, en viðmiðunarreglur eru gefnar út á hverju ári.

Nánar um reiknað endurgjald
Viðmiðunarfjárhæðir
Reglur um reiknað endurgjald (skattalagasafn) 

Hvað er staðgreiðsla?

Meginreglan er sú að allar tekjur eru skattskyldar nema þær séu sérstaklega undanþegnar. Árið sem tekjurnar verða til nefnist tekjuár (rekstrarár verði tekjurnar til í atvinnurekstri). Á næsta ári eftir lok tekjuársins/rekstrarársins er árið gert upp, þ.e. skattframtali er skilað og ríkisskattstjóri leggur skatta á skattskyldar tekjur viðkomandi (álagning skatta). Það ár nefnist álagningarár.

Á tekjuárinu/rekstrarárinu er haldin eftir staðgreiðsla skatta af tilteknum tekjum, s.s. reiknuðum launum, launum starfsmanna, sem er í raun bráðabirgðagreiðsla upp í álagningu skatta. Því má segja að um sé að ræða fyrirframgreiðslu skatts áður en eiginleg álagning fer fram. Þannig halda launagreiðendur eftir staðgreiðslu skatta af launum starfsmanna sinna jafnóðum og þeir greiða út launin og standa skil á skattinum til ríkissjóðs. Þeir sem reikna sér laun vegna eigin starfsemi ber jafnframt almennt að standa skil á staðgreiðslu skatta vegna þeirra launa. Við álagningu skatta er tekið tillit til þess skatts sem haldið var eftir í staðgreiðslu. Þar sem staðgreiðslu er haldið eftir á tekjuárinu/rekstrarárinu er oft talað um staðgreiðsluár.

 

Staðgreiðsla dregin af launum

Hvernig veit ég hvort ég eigi að innheimta virðisaukaskatt?

Meginreglan er sú að innheimta skuli virðisaukaskatt af öllum viðskiptum innan lands og af innflutningi vöru og þjónustu. Á því eru tilteknar undantekningar. Undantekningarnar eru af ýmsum toga:

 • Tiltekin starfsemi kann að vera undanþegin virðisaukaskatti. Þar sem starfsemin sjálf er undanþegin ber ekki að skrá sig á virðisaukaskattsskrá. Virðisaukaskattur (útskattur) er ekki innheimtur og ekki er hægt að fá virðisaukaskatt (innskatt) vegna kaupa á vörum og þjónustu endurgreiddan.
 • Ákveðin velta virðisaukaskattsskyldra aðila kann að vera undanþegin, þá helst þegar vara eða þjónusta er seld úr landi. Þar sem starfsemin er virðisaukaskattsskyld ber almennt að skrá starfsemina á virðisaukaskattsskrá. Virðisaukaskattur er innheimtur vegna viðskipta innanlands og skilað í ríkissjóð (útskattur). Innskattur vegna kaupa á vöru og þjónustu er færður á móti útskatti.
 • Ef heildartekjur af starfseminni á hverju 12 mánaða tímabili er undir tilteknum fjárhæðarmörkum er starfsemin undanþegin. Hægt er að sækja um að fara á virðisaukaskattsskrá þótt veltan sé undir fjárhæðarmörkum. Aðili er hins vegar ekki skráður á virðisaukaskattsskrá ef samanlagðar tekjur hans af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar. Þó á viðkomandi rétt á skráningu ef hann sýnir fram á að kaup á fjárfestingarvörum standi í beinu sambandi við sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu í atvinnuskyni á síðari tímabilum.

Oft er kostnaður hærri en tekjur í nýjum atvinnurekstri þannig að oft er skilyrði skráningar ekki uppfyllt. Samkvæmt framansögðu kann viðkomandi samt sem áður að eiga rétt á skráningu, þ.e. ef sýnt er fram á að líkur standi til þess að skilyrði skráningar verði uppfyllt á síðari tímabilum.

Almennt um VSK

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum