Stofna rekstur

Ríkisskattstjóri býður reglulega upp á námskeið sem eru sérstaklega ætluð þeim sem eru að hefja eigin atvinnurekstur. Farið er yfir hagnýt atriði sem varða skattskil í rekstri, svo sem skyldur launagreiðanda í staðgreiðslu, tekjuskráningu og reikningaútgáfu, rekstrarkostnað og skattframtalið, auk þess sem fjallað er um virðisaukaskattinn: útskatt og innskatt, skattskyldu, undanþágur, skattverð og fleira. 

Á síðunni Námskeið í boði er hægt að skrá sig á námskeið auk þess sem þar eru nánari lýsingar á þeim.

Tilkynningar- og skráningarskylda

Þeim sem hefja atvinnurekstur er skylt að tilkynna um það til ríkisskattstjóra. Rekstraraðilum er skylt að halda eftir staðgreiðslu af tekjum launamanna og af reiknuðum eigin launum (reiknuðu endurgjaldi) og skila til innheimtumanns ásamt tryggingagjaldi. Þeir eiga að tilkynna sig til launagreiðendaskrár eigi síðar en 8 dögum áður en starfsemi hefst. Þeir sem eru í virðisaukaskattsskyldri starfsemi þurfa sömuleiðis að tilkynna sig til skráningar hjá ríkisskattstjóra innan sömu tímamarka.

Sé um vörugjaldsskylda starfsemi að ræða skal tilkynning hafa borist til vörugjaldsskrár hjá ríkisskattstjóra 15 dögum fyrir upphaf rekstrarins. Um tilkynningarskyldu til fleiri skráa hjá skattyfirvöldum getur verið að ræða. Til dæmis þurfa þeir sem eru skilaskyldir vegna staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur að gæta þess að tilkynna sig til skráningar hjá ríkisskattstjóra.

Allar breytingar sem verða á rekstrinum eftir upphaf hans eru einnig tilkynningarskyldar (yfirleitt innan 8 daga frá því að breyting varð). Þannig er til dæmis mikilvægt að gæta þess að tilkynna um lok rekstrar. Sérstök eyðublöð eru til nota fyrir allar þessar tilkynningar; sjá kaflann um eyðublöð.

Hverjir eru atvinnurekendur?

Til atvinnurekenda teljast þeir sem stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi, sem í skilningi skattalaga felur í sér fjárhagslega áhættu og ábyrgð, er óháð öðrum og rekin í atvinnuskyni. Félög sem stofnuð eru með ágóða að leiðarljósi, svo sem hlutafélög og einkahlutafélög, eru rekstraraðilar.

Störf sem innt eru af hendi fyrir atvinnurekanda og á ábyrgð hans eru unnin af launþegum. Þá er það atvinnurekandans að standa skil á afdreginni staðgreiðslu, tryggingagjaldi og greiðslum í lífeyrissjóði og stéttarfélög. Atvinnurekandinn þarf einnig að standa skil á öðrum rekstrartengdum gjöldum og á virðisaukaskatti.

Þegar félag er stofnað er það tilkynnt til fyrirtækjaskrár, sem úthlutar nýjum lögaðilum kennitölum. Sjá nánari upplýsingar um stofnun félaga í atvinnurekstri.

Verktaki eða launþegi

Ekki eru alltaf skýr mörk á milli þess hverjir teljast vera launþegar og hverjir atvinnurekendur (verktakar). Hjá einstaklingi sem vinnur aðeins fyrir einn eða fáa ræðst það af eðli starfssambandsins við þann sem unnið er fyrir hvort viðkomandi telst vera verktaki (atvinnurekandi) eða launþegi. Ríkisskattstjóri getur skorið úr um það í skattalegu tilliti. Þannig getur ríkisskattstjóri til dæmis hafnað umsókn um virðisaukaskattsnúmer með vísan til þess að umsækjandi teljist launþegi þrátt fyrir samning um verktakagreiðslur. Einnig getur hann metið starfssambandið eftir á og fært skattskil úr skilum rekstraraðila í skil launþega með tilheyrandi endurákvörðun skatta auk viðurlaga.

Ítarefni

Eyðublöð

Fjársýsluskattur - tilkynning um skattskylda starfsemi - RSK 5.07

Könnun á starfssambandi, vegna tilkynningar til launagreiðendaskrár og virðisaukaskattsskrár - RSK 10.31

Tilkynning til launagreiðendaskrár og virðisaukaskattsskrár - RSK 5.02 

Tilkynning um afskráningu af launagreiðendaskrá og/eða virðisaukaskattsskrá - RSK 5.04 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum