Launamiðar og launaframtal 2024

Hér er að finna ítarlegar leiðbeiningar um útfyllingu launamiða og launaframtals. Skil launamiða 2024 vegna launagreiðslna á árinu 2023 er svo til óbreytt frá fyrri árum, en skil fara fram með rafrænum hætti á þjónustuvef Skattsins eða beint úr tölvukerfum. Hugbúnaðarhús geta nálgast gagnaskilalýsingu á skatturinn.is. Á starfsstöðvum Skattsins eru pappírseyðublöð fáanleg.

Á launamiða 2015 og síðar falla brott upplýsingar um ráðningartíma og lögskráningardaga sjómanna.  Jafnframt fellur brott launamiðareitur nr. 210, Arður sem laun.  Áfram skal þó veita upplýsingar um launagreiðslur til sjómanna á fiskiskipum, í launamiðareit 05.

Frá og með tekjuárinu 2020 (launamiðar 2021 og síðar) skal færa höfundarréttargreiðslur til einstaklinga í nýja launamiðareiti nr. 230 og 231, í stað launamiðareits 056 áður!

Launamiði 2024

02 Vinnulaun

Til vinnulauna teljast allar tegundir launa eða þóknana, greidd eða ógreidd, sem launþegi fær fyrir starf sem hann innir af hendi á ábyrgð launagreiðanda. Til vinnulauna teljast ákvæðislaun, biðlaun, nefndarlaun, eftirlaun, launabætur, staðaruppbætur, orlofsfé og greiðslur fyrir ótekið orlof. Enn fremur verkfæragjald eða verkfærapeningar, fatapeningar, flutningspeningar eða greiðsla fargjalda milli heimilis og vinnustaðar, hvort sem framangreindar greiðslur eru reiknaðar sem hundraðshluti launa eða á annan hátt, landgöngufé, mistalningsfé, risnufé og endurskoðunarlaun kjörinna manna. Einnig skal hér færa fæðispeninga sem launþegi fékk greidda hjá vinnuveitanda sínum, þar með taldir fæðispeningar greiddir í orlofi eða veikindum og þegar skip er í heimahöfn. Metin fæðishlunnindi skal færa í reit 33 og bifreiðahlunnindi í reit 60, sbr. skýringar við þá reiti.
Styrki til líkamsræktar og heilsueflingar skal færa í launamiðareit 405.
Stjórnarlaun skal færa í launamiðareit 220.

05 Þar af laun vegna sjómennsku á fiskiskipum

Hér skal tilgreina laun vegna sjómennsku á fiskiskipum, sem innifalin eru í launum í reit 02.

63 Iðgjöld í séreignarsjóð

Í þennan reit skal færa iðgjald launamanns sem varið var til aukningar lífeyrisréttinda, en frádráttur vegna þess getur að hámarki numið 4% af launum ársins 2023. Gjaldið þarf að hafa verið greitt í lífeyrissjóð eða annan sjóð sem fellur undir 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997.

03, 08 Frádráttarbært iðgjald í lífeyrissjóð

Í 03 skal tilgreina lífeyrissjóðsiðgjald launþegans sjálfs, en í 08 númer sjóðsins samkvæmt lista yfir lífeyrissjóði.

06 Heildargreiðslur til verktaka, með virðisaukaskatti

Verktaki telst sá einstaklingur eða lögaðili sem samkvæmt samningi, skriflegum eða munnlegum, tekur að sér að vinna ákveðið verk eða inna af hendi ákveðna þjónustu gegn endurgjaldi. Hér undir fellur einnig aðkeyptur akstur og flutningskostnaður. Verktaki ber ábyrgð á verkinu og honum ber að standa skil á launatengdum gjöldum og öðrum kostnaði vegna starfsemi sinnar. Aðili sem hefur menn í þjónustu sinni og greiðir þeim laun (launagreiðandi) ber aftur á móti ábyrgð á vinnu þeirra. Gæta skal þess að færa í þennan reit ekki aðeins greidda fjárhæð á árinu heldur fulla útgjaldafjárhæð sem stofnað hefur verið til á árinu. (Það sem kann að vera ógreitt færist til skuldar á framtali greiðanda).

64 Númer sérsjóðs

Í þennan reit skal færa númer þess sjóðs sem viðbótariðgjald er greitt í. Á lista yfir lífeyrissjóði eru númer lífeyrissjóða.

19 Sjúkradagpeningar

Hér skal tilgreina greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga.

16 Ökutækjastyrkur

Allar greiðslur til launþega fyrir afnot af ökutæki hans skal færa í þennan reit, hvort sem þær miðast við fastákveðna fjárhæð á ári, ekna kílómetra, endurgreiðslu rekstrarkostnaðar eða greiðsla er ákvörðuð á annan hátt.

73 Þar af undanþegið staðgreiðslu (ökutækjastyrkur)

Hér skal færa þá fjárhæð ökutækjastyrks sem fellur ekki undir staðgreiðslu skatta, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 591/1987 um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu.

17 Dagpeningar

Hér skal tilgreina fjárhæð dagpeninga og annarra ferðapeninga greidda launþegum vegna ferða og námskeiða, svo og þjálfunar og eftirlitsstarfa á vegum vinnuveitanda.
Ferðapeninga sem launþegi hefur fengið endurgreidda hjá vinnuveitanda sínum skv. kostnaðarreikningum frá þriðja aðila skal ekki færa hér.

74 Þar af undanþegið staðgreiðslu (dagpeningar)

Hér skal færa þá fjárhæð dagpeninga sem fellur ekki undir staðgreiðslu skatta, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 591/1987 um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu.

60 Bifreiðahlunnindi

Hér skal færa fjárhæð bifreiðahlunninda sem metin hafa verið til tekna skv. auglýstu skattmati ríkisskattstjóra.

21 Greiðslur úr lífeyrissjóði

Hér skal færa greiðslur úr lífeyrissjóði. Eftirlaun frá launagreiðanda skal hinsvegar færa í reit 02.

27 Fatahlunnindi

Fatnaður sem launþegi fékk án endurgjalds.

28 Húsnæðishlunnindi

Húsnæði sem launþegi fékk án endurgjalds.
Húsnæðishlunnindi er 5% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis (þ.m.t. bílskúr) og lóðar, 31. des. 2022, margfaldað með gildistölu þess svæðis þar sem húsnæðið er, sbr. liður 2.8 í skattmati 2023.

33 Fæðishlunnindi

Hér skal færa fjárhæð metinna fæðishlunninda samkvæmt auglýstu skattmati ríkisskattstjóra.

70, og 71 Sundurliðun á staðgreiðslu

Í reit 70 skal færa samtölu úr sundurliðun á staðgreiðslu ársins samkvæmt skilagreinum RSK 5.06, þ.e. greiðslur sem staðgreiðsla hefur verið greidd af. Í reit 71 skal færa afdregna staðgreiðslu samtals, samkvæmt skilagreinum RSK 5.06.

Ýmsar greiðslur og hlunnindi í krónum talið

Á launamiða (jafnt á pappírsmiða sem á tölvutæku formi í LS-færslu) skal tilgreina tegund greiðslu með viðeigandi tölu (kóda) og fjárhæð:

04) Hlutabréf á undirverði (mismunur á gangverði og afhendingarverði).  Ath. Skila þarf reitum 211 og 212 með reit 04.
09) Styrkir til náms, rannsóknar- og vísindastarfa.
10) Lífeyrisgreiðslur úr séreignarsjóðum.
26) Skattfrjáls verðlaun, heiðurslaun og happdrættisvinningar.
32) Skattskyld verðlaun, heiðurslaun og happdrættisvinningar.
56) Endurgjald til höfunda eða rétthafa fyrir hvers konar hugverk, bókmenntir og listir eða listaverk, hvort sem um er að ræða greiðslu fyrir afnot eða kaup. Greiðslur fyrir einkaleyfi, framleiðslurétt, útgáfurétt og sérþekkingu.  Ath. Í launamiðareit 056 færast eingöngu svona greiðslur til lögaðila (félaga). Svona greiðslur til einstaklinga, aðrar en höfundarréttargreiðslur vegna síðari afnota höfundarverks (sem telja skal til fjármagnstekna), skal færa í launamiðareit 082 ásamt skýringu.  Fjármagnstekjuskattsskyldar höfundarréttargreiðslur til einstaklinga skal færa í launamiðareit 230 og staðgreiðslu af þeim í reit 231.
57) Verkfallsstyrkur.
58) Björgunarlaun.
59) Skaðabætur og sambærilegt bótafé greitt af launagreiðanda (t.d. vegna sjúkdóma, slysa, atvinnutaps eða launamissis).
61) Styrkir og styrktarfé (úr hvers konar sjóðum opinberra stofnana, félagasamtaka, stéttarfélaga eða annarra aðila sem ekki falla undir kóda 09 eða 405).
62) Félagsleg aðstoð (frá sveitarfélögum).
65) Leigutekjur.
67) Húsnæðisbætur / Sérstakur húsnæðisstuðningur.
69) Skattskyldar greiðslur tryggingafélaga.
72) Aðrar bætur og styrkir frá sveitarfélögum (sem ekki falla undir kóda 09, 59, 61 og 62).
89) Óskattskyldar greiðslur tryggingafélaga.
211) Nafnverð hlutabréfa á undirverði.  NB. Einnig þarf að skrá dagsetningu viðskiptanna.  Skilað með reit 04.
212) Kaupverð hlutabréfa á undirverði.  Skilað með reit 04.
220) Stjórnarlaun.
230) Fjármagnstekjuskattsskyldar höfundarréttargreiðslur (til einstaklinga).
231) Staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts af höfundarréttargreiðslum.
405) Styrkir til líkamsræktar og heilsueflingar (íþróttastyrkir).
410) Samgöngustyrkir.
145) Lífeyrisgreiðslur úr "sérstökum" séreignarsjóðum.
149) Frádráttur á móti styrkjum til náms, rannsóknar- og vísindastarfa, sem uppfylla skilyrði til frádráttar.

Á launamiða (jafnt á pappírsmiða sem á tölvutæku formi í LA-færslu) skal alltaf tilgreina greiðslu með viðeigandi tveggja stafa tölu (kóda), ásamt frjálsum texta sem skýrir eðli greiðslunnar, og fjárhæð:

11) Endurgreiddur útlagður kostnaður.
34) Önnur hlunnindi.
82) Aðrar skattskyldar greiðslur.
93) Aðrar skattfrjálsar greiðslur.

Skattmat vegna ýmissa greiðslna og hlunninda er birt hér á skatturinn.is í janúar ár hvert.

Launaframtal 2024

Á launaframtali er gerð grein fyrir greiddum launum og öðrum greiðslum til launþega, sem mynda stofn til tryggingagjalds.  Launaframtali er skilað með rafrænum hætti sem hluta af hefðbundnu skattframtali í rafrænum framtalsskilum (sjá nánar hér að neðan).  Skilafrestur launaframtals er því sá sami og hefðbundins skattframtals.  Gömlu pappírsútgáfu launaframtals, RSK 1.05, er því ekki skilað lengur!

Skattskyldir lögaðilar skila launaframtali sem hluta af skattframtali RSK 1.04.

Lögaðilar, sem undanþegnir eru skattskyldu skv. I. kafla laga nr. 90/2003, skulu skila launaframtali með rafrænum hætti á skattframtali RSK 1.06, hafi þeir greitt laun eða innt af hendi greiðslur sem mynda stofn til tryggingagjalds á árinu 2023.

Einstaklingar sem skila rafrænu skattframtali skila launaframtali sem hluta af samræmingarblaði RSK 4.05.

Hverjir skila launaframtali á pappír?

Þar sem launaframtalsskil eru hluti af rafrænum framtalsskilum rekstraraðila, er enginn sem skilar launaframtali á pappír!

Stofn til tryggingagjalds

Gjaldstofn tryggingagjalds er allar tegundir launa og þóknana, hverju nafni sem nefnast, óháð formi launagreiðslu. Hér er t.d. um að ræða laun í reit 02 á launamiða, bifreiðahlunnindi, fæðishlunnindi, alla ökutækjastyrki, almennt mótframlag í lífeyrissjóð og staðgreiðsluskylda dagpeninga.

Greiðslur eftirlauna og lífeyris úr samþykktum lífeyrissjóðum og frá Tryggingastofnun ríkisins mynda ekki stofn til tryggingagjalds.

Stofn til tryggingagjalds í staðgreiðslu skal sundurliða niður á mánuði.

Laun vegna fiskveiða

Hér skal færa laun sem greidd eru sjómönnum vegna fiskveiða. Þau mynda stofn til tryggingagjalds auk þess sem greiða ber 0,65% iðgjald vegna slysatryggingar sjómanna hjá Tryggingastofnun ríkisins. Hafi útgerðarmaður sagt upp þeirri tryggingu sér Skatturinn til þess að iðgjaldið bætist ekki við.

Launagreiðslur til erlendra starfsmanna

Tilgreina skal sérstaklega launagreiðslur til erlendra starfsmanna sem ekki eru tryggðir hér á landi samkvæmt ákvæðum reglugerðar EBE nr. 1408/71/EBE, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum sem flytjast á milli aðildarríkja.
Launagreiðandi skal hafa í vörslu sinni A1 vottorð vegna hlutaðeigandi starfsmanna.
Þessar greiðslur skal sundurliða niður á mánuði, en þær eru ekki innifaldar í stofni til almenns tryggingagjalds.

Stofn til tryggingagjalds utan staðgreiðslu

Í þessa reiti færast laun undanþegin staðgreiðslu og reiknað endurgjald barna. Reiknað endurgjald manns og maka hans við eigin atvinnurekstur kemur hins vegar ekki fram á launaframtali.

Hér skal ennfremur tilgreina tegund og fjárhæð hlunninda utan staðgreiðslu opinberra gjalda sem metin eru til tekna samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra og mynda stofn til tryggingagjalds.

Fjársýsluskattur

Þeir framteljendur sem skattskyldir eru til fjársýsluskatts skv. lögum nr. 165/2011 (vátryggingafélög og aðilar í fjármálastarfsemi og verðbréfaþjónustu) skulu gera grein fyrir stofni til fjársýsluskatts og sundurliðun hans eftir mánuðum á launaframtalinu.

Ítarefni

Orðsendingar til launagreiðenda.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum