Fyrirframgreiddir skattar

Fyrirframgreiðsla þinggjalda

Skattar og gjöld sem lagðir eru á lögaðila eru almennt greiddir fyrirfram. Þeir eru því greiddir áður en niðurstaða álagningar hvers árs liggur fyrir. Greiðslur er byggðar á niðurstöðu álagningar frá fyrra ári og ganga upp í álagningu skatta á yfirstandandi ári.

Fyrirframgreiðslur eru 68% af álagningu síðasta árs. Þær dreifast jafnt á 8 mánuði frá febrúar til september. Því ber að greiða 8,5% af álagningu síðasta árs á hverjum gjalddaga.

Fyrirframgreiddir skattar og gjöld eru:

  • Tekjuskattur
  • Jöfnunargjald alþjónustu (NB. fellur niður frá og með gjaldári 2024)
  • Sérstakur fjársýsluskattur
  • Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki

Sameiginlega eru þessir skattar og gjöld gjarnan nefndir þinggjöld.

Hafi skattar fyrra árs verið áætlaðir tekur fyrirframgreiðslan mið af því. Ef framtali er skilað í stað áætlunar verður fyrirframgreiðslan leiðrétt sjálfkrafa við afgreiðslu framtals.

Hægt er að nálgast áætlun um fyrirframgreiðslu lögaðila á þjónustuvef Skattsins, undir Samskipti > Framtal og álagning. Þar undir Þinggjöld, skattheimtuseðill.

Greiðsla og innheimta

Gjalddagi er fyrsti dagur hvers mánaðar og eindagi er mánuði eftir gjalddaga. Ef ekki hefur verið greitt innan mánaðar frá gjalddaga reiknast dráttarvextir af fjárhæðinni. Upplýsingar um greiðslustöðu má finna á Ísland.is, hjá Skattinum eða Sýslumönnum utan höfuðborgarsvæðisins.

Sækja um lækkun

Hægt er að sækja um lækkun á fjárhæðum sem lögaðilum ber að greiða fyrirfram. Skilyrðið er að skattstofn hafi lækkað verulega milli ára. Einnig er hægt að sækja um lækkun hafi lögaðila verið slitið.

Skilyrði lækkunar eru eftirfarandi:

  • Skattstofnar eða gjaldstofnar verði a.m.k. 25% lægri en þeir voru árið á undan
  • Að álögð gjöld lækki um a.m.k. 100.000 kr.
  • Sýnt sé fram á lækkun með því að skila skattframtali og ársreikningi

Umsókn um lækkun skal senda á netfangið umsoknir@skatturinn.is. Umsóknarfrestur er til og með 31. maí.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Innheimtuaðilar - 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Gjalddagar - 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum