Olíugjald

Greiða skal olíugjald af gas-, stein- og díselolíu sem nothæf er sem eldsneyti á ökutæki. Olíugjaldið er 75,40 kr. á hvern lítra af olíu og ofan á það leggst virðisaukaskattur.

Gjaldskyldir aðilar

Gjaldskyldir aðilar eru þeir sem framleiða eða stunda aðvinnslu olíu sem er gjaldskyld, þeir sem flytja inn, til endursölu eða eigin nota, olíu sem er gjaldskyld og þeir sem kaupa olíu innanlands til endursölu. Þeir sem kaupa eldsneytið bera hins vegar gjaldið jafnóðum við eldsneytiskaup.

Undanþága - lituð olía

Olía er undanþegin gjaldskyldu í eftirfarandi tilvikum þegar í hana hefur verið bætt litar- og merkiefnum:

  1. Til nota á skip og báta.
  2. Til húshitunar og hitunar almenningssundlauga.
  3. Til nota í iðnaði og á vinnuvélar.
  4. Til nota á dráttarvélar.
  5. Til raforkuframleiðslu.
  6. Til nota á ökutæki sem ætluð eru til sérstakra nota.
  7. Til nota á beltabifreiðar og námuökutæki sem eingöngu eru notuð utan vega eða á lokuðum vinnusvæðum.
  8. Til nota á bifreiðir í eigu björgunarsveita.

Litaða olíu má ekki nota sem eldsneyti í öðrum tilvikum. Komi í ljós að notuð sé lituð olía á ökutæki sem ekki hefur til þess heimild varðar það sektum samkvæmt eftirfarandi töflu:

Sektir eftir þyngd ökutækis:

Heildarþyngd ökutækis: Fjárhæð sektar:
0 – 3.500 kg 300.000 kr.
3.501 – 10.000 kg 750.000 kr.
10.001 – 15.000 kg 1.125.000 kr.
15.001 – 20.000 kg 1.500.000 kr.
20.001 kg og þyngri 1.875.000 kr.

Við ítrekuð brot er heimilt að tvöfalda sektarfjárhæð. Sé sekt greidd innan 14 daga lækkar hún um 20%.

Ökutæki í sérstökum notum

Nota má litaða olíu á eftirtalin ökutæki sem ætluð eru til sérstakra nota og hafa verið skráð sem slík í ökutækjaskrá og eru með varanlegum áföstum búnaði til þeirra nota, brenna að meginhluta til dísilolíu í kyrrstöðu og eru merkt með sérstökum skráningarmerkjum:

  1. Borkranabifreið sem ekki er ætluð til fólks- eða vöruflutninga enda skráð með jarðbor sem yfirbyggingu.
  2. Hreinsibifreið sem eingöngu er skráð með hreinsibúnað sem yfirbyggingu og er sérstaklega útbúin og hönnuð til hreinsunar á götum, holræsum, stíflulosunar, lagnahreinsunar, þ.m.t. þurrsugubifreið með sogdælu.
  3. Kranabifreið, sem ekki er ætluð til fólks- eða farmflutninga enda eingöngu skráð með krana sem yfirbyggingu og aðeins nýtt sem slík.
  4. Körfubifreið sem ekki er ætluð til fólks- eða farmflutninga enda eingöngu skráð með körfu sem yfirbyggingu og aðeins nýtt sem slík.
  5. Myndavélabifreið.
  6. Slökkvibifreið sem er dælubifreið.
  7. Steypubifreið sem skráð er með steyputunnu eða steypudælu sem yfirbyggingu.
  8. Úðunarbifreið sem skráð er með úðunarbúnað sem yfirbyggingu og sérstaklega er útbúin til úðunar á vegi eða við vegagerð.
  9. Vörubifreið með krana yfir 25 tonnmetra, með fastan pall og án nokkurs tengibúnaðar. Með föstum palli er átt við vörupall sem hvorki er lyftanlegur né verður fjarlægður tímabundið. Með tengibúnaði er átt við stól fyrir festivagn eða krók fyrir hengi- eða tengivagn.
  10. Mjólkurflutningabifreið sem skráð er með tank sem yfirbyggingu og án nokkurs tengibúnaðar og er sérstaklega útbúin og eingöngu notuð til að safna mjólk frá búum.
  11. Sérhæfðar afgreiðslubifreiðar sem eru sérútbúnar til að afgreiða eldsneyti á flugvélar og eru eingöngu notaðar á lokuðu svæði flugvallar.

Séu þessi ökutæki 5.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd er eigendum þeirra heimilt að skrá þau sem ökutæki til sérstakra nota og skal þá greiða af þeim sérstakt kílómetragjald. Eigendur bifreiða sem óska eftir skráningu til sérstakra nota skulu beina umsókn til skoðunarstöðva. Með umsókn skal fylgja álestur af ökumæli bifreiðarinnar.

Eftirvagnar dregnir af dráttarvélum, sem ekið er í almennri umferð, og eru 5.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd, skulu greiða sérstakt kílómetragjald. Áður en akstur hefst skal fara fram álestur af ökumæli eftirvagns hjá álestraraðila.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Gjaldskylda, fjárhæð og almennt um undanþágur - I. kafli laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald

Kæruheimild, eftirlit og refsiábyrgðir - III. kafli laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald

Skilyrði undanþágu um greiðslu olíugjalds - reglugerð nr. 274/2006, um skilyrði undanþágu frá greiðslu olíugjalds og um greiðslu sérstaks kílómetragjalds

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum