Samsköttun félaga

Að ákveðnum skilyrðum uppfylltum er félögum heimiluð samsköttun. Eru helstu skilyrði fyrir slíkri samsköttun eftirfarandi:

  •  Móðurfélag þarf að eiga a.m.k. 90% hlutafjár í samsköttuðum dótturfélögum, beint eða í gegnum önnur dótturfélög sem taka þátt í samsköttuninni.
  • Öll félög í samsköttuninni þurfa að hafa sama reikningsár.
  • Eignarhald þarf að hafa varað allt reikningsárið, nema þegar um nýstofnuð dótturfélög er að ræða eða slit á dótturfélagi.

Umsókn um samsköttun

Móðurfélag skal sækja um samsköttun og þarf umsóknin að berast ríkisskattstjóra eigi síðar en þrjátíu dögum fyrir lok framtalsfrests vegna þess tekjuárs sem óskað er eftir að samsköttun hefjist.

 Félög sem taka þátt í samsköttun bera sameiginlega ótakmarkaða ábyrgð á skattgreiðslum vegna þess tíma sem samsköttun nær til.

Hversu lengi þarf samsköttun að vara?

Sé fallist á samsköttun þarf hún að vara að lágmarki í fimm ár. Sé henni slitið er ekki heimilt að fallast á hana að nýju fyrr en að fimm árum liðnum.

Nýting á rekstrartapi

Félag sem gengur í samsköttun og á yfirfæranlegt rekstrartap við upphaf samsköttunarinnar, getur ekki nýtt tapið fyrr en hagnaður hefur verið lækkaður með tapi annarra félag í samsköttun á samsköttunartímanum sjá leiðir A og B á eftir. Rekstrartap sem nýtist ekki við samsköttun ber að færa áfram hjá upprunafélagi. Nauðsynlegt er að láta yfirlit vegna samsköttunarfærslna fylgja skattframtali hvers félags.

Við samsköttun skal viðkomandi tekjuár (nýjasta tekjuár í uppgjöri) alltaf gert upp, áður en tekið er tillit til yfirfæranlegs taps frá fyrri árum, sbr. reglu A eða B á eftir.

Jöfnun hagnaðar og taps er hlutfallsleg fyrir hvert ár í samsköttun.

Tap hvers árs er nýtt í samræmi við hlutfallslegt vægi hagnaðar hvers og eins félags af samanlögðum hagnaði hinna samsköttuðu félaga í þeim tilvikum þar sem samanlagður hagnaður er hærri en tap.

Sé samanlagt tap hærra en hagnaður er hagnaður samtals nýttur í samræmi við hlutfallslegt vægi taps hvers og eins félags af samanlögðu tapi hjá hinum samsköttuðu félögum.

Þá er yfirfæranlegt tap félags sem stafar frá rekstri frá því fyrir samsköttun aðeins nýtanlegt í því félagi.

Framtalsgerð og útleiðsla á skattstofnum við samsköttun

Meginreglan er að tekjuskattur af sameiginlegum tekjuskattsstofni allra félaga sem taka þátt í samsköttun er lagður á móðurfélagið. Aðra skatta og gjöld, t.d. tryggingagjald, ber að leggja á hvert einstakt félag.

Við framtalsgerð og útleiðslu skattstofna ber hverju félagi að gera upp viðkomandi tekjuár og nýta þær skattalegu ráðstafanir sem það hefur heimild til m.t.t. afkomu og annarra atriða sem máli skipta.

Við útleiðslu skattstofna samkvæmt framangreindu koma tvær leiðir til greina, A eða B.

 Leið A:

1) Fyrst er gert upp nýjasta rekstrarárið. Hagnaði og tapi ársins jafnað saman hlutfallslega.

2) Samnýta hlutfallslega, fyrir hvert ár, elsta tap innan samsköttunartíma á móti eftirstöðvum hagnaðar.

3) Að lokum, sé enn um að ræða hagnað hjá einhverju félaganna og eigi það tap frá því áður en til samsköttunar var stofnað má það félag nýta sitt elsta tap á móti eftirstöðvum síns hagnaðar.

 Leið B:

1) Fyrst er gert upp nýjasta rekstrarárið. Hagnaði og tapi ársins jafnað saman hlutfallslega.

2) Ef einhver hinna samsköttuðu félaga eru enn með hagnað og eiga sjálf eldra tap innan samsköttunartímabilsins, þá má færa það tap til frádráttar eftirstöðvum hagnaðar sama félags.

3) Ef eitthvert félaganna í samsköttun er enn með hagnað og önnur félög innan samsköttunarhópsins eiga yfirfæranlegt tap innan samsköttunartímabilsins, er það tap samnýtt hlutfallslega á móti eftirstöðvum hagnaðar alls.

4) Að lokum, sé enn um að ræða hagnað hjá einhverju félaganna og eigi það tap frá því áður en til samsköttunar var stofnað má það félag nýta sitt elsta tap á móti eftirstöðvum síns hagnaðar.

Ítarefni

 Hvar finn ég reglurnar?

Samsköttun félaga - 55. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum