Skráning á VSK-skrá

Sérhver skattskyldur aðili skal tilkynna ríkisskattstjóra um starfsemi sína eða atvinnurekstur til skráningar á virðisaukaskattsskrá, eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst.

Ríkisskattstjóri færir aðila á virðisaukaskattsskrá, úthlutar skráningarnúmeri (VSK-númeri) og gefur út staðfestingu á að skráning hafi átt sér stað. Breytingar sem verða á starfsemi fyrirtækis eftir skráningu skal tilkynna til ríkisskattstjóra eigi síðar en átta dögum eftir breytinguna. Sem dæmi um breytingu sem tilkynna þarf er ef fyrirtæki hefur starfsemi af öðru tagi en skráning hefur tekið til eða það hættir virðisaukaskattsskyldri starfsemi. Einnig er það breyting ef fyrirtæki er selt öðrum skráðum aðila. Þegar fyrirtæki er selt hættir starfsemi fyrri rekstraraðila og nýr tekur við.

Tilkynning um starfsemi

Sérhver skattskyldur aðili skal tilkynna um starfsemi sína eða atvinnurekstur til ríkisskattstjóra á sérstöku eyðublaði, RSK 5.02, eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst.

Eyðublaðið, sem hægt er að nálgast á vef ríkisskattstjóra, skal útfyllt eins og form þess gerir ráð fyrir og skal undirritað frumrit sent ríkisskattstjóra. Einnig er hægt að nálgast eyðublaðið á starfsstöðvum ríkisskattstjóra um allt land.

Gæta skal vel að útfyllingu eyðublaðsins, þ.e. gefa þarf upp allar umbeðnar upplýsingar. Kafli C er sérstaklega mikilvægur, en þar skal m.a. veita upplýsingar um virðisaukaskattsskylda starfsemi, undanþegna starfsemi ef við á, heimilisfang starfsstöðvar, áætlaðar tekjur fyrstu 12 mánuði rekstrar, áætluð gjöld við uppbyggingu fyrstu 12 mánuði rekstrar og tekjuskráningarform.

Tilkynning um lok starfsemi

Hætti aðili skráningarskyldri starfsemi, skal hann tilkynna ríkisskattstjóra um það á sérstöku eyðublaði, RSK 5.04, eigi síðar en átta dögum eftir að breyting átti sér stað. Ríkisskattstjóri skal þá úrskurða aðila út af skrá. Fari aðili út af skrá skal hann telja vörubirgðir, vélar, tæki og aðra rekstrarfjármuni til skattskyldrar veltu á því uppgjörstímabili er starfsemi lýkur. 

Fyrirfram skráning

Aðstæður geta verið með þeim hætti að aðili uppfylli ekki skráningarskilyrðið um að samanlagðar tekjur hans af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu séu að jafnaði hærri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar, þar með talið vegna kaupa varanlegra rekstrarfjármuna. Engu að síður er starfseminni ætlað að skila hagnaði á síðari stigum.

Slíkir aðilar sem stunda starfsemi á þróunar- eða undirbúningsstigi geta sótt um fyrirfram skráningu ef sýnt er fram á að kaup á fjárfestingarvöru standi í beinu sambandi við sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu í atvinnuskyni á síðari rekstrartímabilum.

Skilyrði slíkrar skráningar eru:

  • Að um sé að ræða atvinnustarfsemi, þ.e. starfsemi sem miði að rekstrarhagnaði eftir eðlilegan uppbyggingartíma.
  • Að fjárfesting aðila í varanlegum rekstrarfjármunum, þar með talið fasteignum og ræktun eða vörubirgðum, sé veruleg á sama tíma og eðlilegt sé vegna eðlis starfseminnar að hún skili ekki rekstrartekjum, en ekki er nægjanlegt að aðili hafi verulegan kostnað af virðisaukaskatti vegna almenns rekstrarkostnaðar.
  • Að fyrirsjáanlegt sé að starfsemin muni skila tekjum.

Slík fyrirfram skráning gildir í tólf mánuði, en aðili sem skráður hefur verið fyrirfram skráningu getur fengið skráningu í tólf mánuði til viðbótar hjá ríkisskattstjóra, þyki staðfest að forsendur skráningar séu óbreyttar frá því að aðili var skráður í upphafi. Þyki eðlilegt að starfsemin hafi ekki skilað tekjum innan þess tíma getur ríkisskattstjóri veitt aðila áframhaldandi skráningu til allt að tíu ára, mest tvö ár í senn.

Þeir sem óska slíkrar skráningar skulu senda ríkisskattstjóra, ásamt tilkynningu um skráningu (RSK 5.02), rekstraráætlun, greinargerð og önnur gögn um starfsemina til staðfestingar því að um eðlilega rekstraruppbyggingu verði að ræða. Ennfremur skal veita upplýsingar um fyrirhugaða fjármögnun verkefnisins á meðan á uppbyggingartíma stendur.

Afturvirk skráning

Í ákveðnum tilfellum geta aðilar fengið afturvirka skráningu, þ.e. ef aðila hefur verið synjað um skráningu en síðar kemur í ljós að hann uppfyllir skilyrðin eða setur fram tryggingu. Í slíkum tilvikum er ríkisskattstjóra heimilt að skrá aðila afturvirkt til þess dags sem telja verður upphafsdag rekstrar. Afturvirk skráning getur tekið til þess tíma sem liðinn er af yfirstandandi ári, þ.e. til 1. janúar yfirstandandi árs, ef umsókn berst ríkisskattstjóra eftir 15. mars. Ef sótt er um afturvirka skráningu fyrir 15. mars þá getur hún að auki tekið til alls síðasta árs. Skilyrði fyrir afturvirkri skráningu er að um sömu starfsemi sé að ræða og áður var tilkynnt um.

Sérstök skráning vegna byggingar atvinnuhúsnæðis til leigu eða sölu

Þeir sem byggja fasteign á eigin lóð eða leigulóð og selja hana til aðila sem skráður er samkvæmt lögum um virðisaukaskatt geta sótt um sérstaka skráningu til ríkisskattstjóra. Aðeins er hægt að fá sérstaka skráningu vegna byggingar atvinnuhúsnæðis.

Til að sækja um sérstaka skráningu þarf að senda inn skriflega umsókn þar sem eftirfarandi upplýsingar koma fram:

  1. Nafn, kennitala, símanúmer og netfang umsækjanda.
  2. Staðsetning og fermetrafjöldi húsnæðis.
  3. Upphafsdagur sérstakrar skráningar og hvenær áætlað er að byggingarframkvæmdum ljúki.
  4. Upplýsingar um byggingaraðila, þ.e. hvort eigin starfsmenn eða aðkeyptir verktakar muni sjá um bygginguna. Vakin er athygli á því að ef eigin starfsmenn byggja fasteignina ber byggingaraðila að reikna útskatt af starfseminni skv. reglugerð nr. 576/1989 um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi, með síðari breytingum.
  5. Hver áætluð nýting fasteignarinnar er eftir fermetrafjölda, svo sem hvort húsnæðið hafi verið selt eða leigt virðisaukaskattsskyldum aðila.
  6. Áætlaður byggingarkostnaður.

Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja með umsókn um sérstaka skráningu:

  • Skriflegur og fullgildur kaupsamningur byggingaraðila og skráðs aðila um fasteignina.
  • Yfirlýsing kaupanda um ætluð not hans á fasteigninni.
  • Yfirlýsing kaupanda um að hann skuldbindi sig til yfirtöku á kvöð um leiðréttingu innskatts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, ef breyting verður á notkun fasteignar sem hefði í för með sér breytingu á frádráttarrétti.

Framangreindum yfirlýsingum um ætluð not og yfirtöku á kvöð um leiðréttingu innskatts skal þinglýsa á viðkomandi fasteign.

Hafi byggingaraðili ekki gert samning um sölu atvinnurekstrarhúsnæðis í lok fyrsta uppgjörstímabils eftir að framkvæmdir hófust getur hann fengið heimild ríkisskattstjóra til sérstakrar skráningar, enda fallist ríkisskattstjóri á skýrslu aðila um að viðkomandi eign sé ætluð til nota fyrir atvinnurekstur skráðs aðila. Skilyrði fyrir slíkri skráningu er að byggingaraðili leggi fram tryggingu fyrir áætluðum virðisaukaskatti af byggingarkostnaði eignarinnar og skal hún vera í formi skilyrðislausrar sjálfskuldarábyrgðar banka.

Nánari upplýsingar um reglur varðandi kvöð um leiðréttingu innskatts

Frjáls skráning vegna útleigu atvinnuhúsnæðis

Sá sem í atvinnuskyni leigir fasteign eða hluta fasteignar getur sótt um frjálsa skráningu til ríkisskattstjóra. Frjáls skráning getur ekki tekið til húsnæðis sem nýtt er að öllu leyti eða að hluta sem íbúðarhúsnæði.

Til að sækja um frjálsa skráningu þarf að senda inn skriflega umsókn þar sem eftirfarandi upplýsingar koma fram:

  1. Nafn, kennitala, símanúmer og netfang umsækjanda.
  2. Staðsetning þeirrar fasteignar sem hin frjálsa skráning á að ná til.

Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja umsókn um frjálsa skráningu:

  • Skriflegur leigusamningur þar sem leigufjárhæð kemur fram.
  • Yfirlýsing leigutaka um að hann samþykki fyrir sína hönd frjálsa skráningu og þar með greiðslu virðisaukaskatts af leigugjaldi.
  • Vottorð um að yfirlýsingu leigutaka hafi verið þinglýst.
  • Staðfesting umsækjanda að hann hafi yfirráð yfir fasteigninni sem um ræðir. Ef umsækjandi er ekki eigandi þarf að liggja fyrir heimild til framleigu.

Frjáls skráning getur ekki verið til skemmri tíma en tveggja ára. Hafi fasteign ekki verið tekin í notkun við upphaf frjálsrar skráningar, t.d. ef hún er enn í byggingu, reiknast tveggja ára fresturinn að jafnaði frá þeim tíma þegar leigutaki tekur eignina í notkun. Ef um er að ræða nýbyggingu eða verulegar endurbætur á eign fyrir þann tíma er hægt að sækja um sérstaka skráningu vegna þeirra framkvæmda.

Leigusali, sem fær heimild til frjálsrar skráningar, skal innheimta útskatt af leigugjaldinu. Hann getur talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem fellur eftir skráninguna á kaup hans á vörum og skattskyldri þjónustu til nota við þá eign sem frjáls skráning tekur til. Verði breyting á notkun eignarinnar þannig að skilyrði fyrir skráningunni eru ekki lengur fyrir hendi skal leiðrétta innskattsfrádrátt, sbr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Tilkynna skal ríkisskattstjóra um breytingar á notkun fasteignar eigi síðar en átta dögum eftir að breyting hefur átt sér stað.

Samskráning hlutafélaga/einkahlutafélaga

Ríkisskattstjóri getur heimilað að tvö eða fleiri skráningarskyld hlutafélög og einkahlutafélög, verði samskráð. Skilyrði samskráningar eru að eigi minna en 90% hlutafjár í dótturfélögum sé í eigu móðurfélagsins sem óskar samskráningar eða annarra dótturfélaga sem einnig taka þátt í samskráningunni. Jafnframt hafi öll félögin sama reikningsár. Samskráning skal vera í nafni móðurfélagsins og skal að lágmarki standa í fimm ár. Ef samskráningu er slitið er ekki heimilt að fallast á slíka skráningu að nýju fyrr en að liðnum fimm árum frá því að fyrri samskráningu var slitið.

Umsókn um samskráningu skal beint til ríkisskattstjóra eigi síðar en átta dögum fyrir upphaf fyrsta reikningsárs sem samskráningu er ætlað að taka til. Breytingar á forsendum samskráningar, svo sem breytt eignarhald, skal tilkynna eigi síðar en átta dögum eftir að breyting á sér stað.

Skráning gjaldþrotabúa

Skiptastjóra ber að tilkynna ríkisskattstjóra sérstaklega ef skráður aðili er tekinn til gjaldþrotaskipta eigi síðar en átta dögum eftir að bú aðila er tekið til gjaldþrotaskipta. Í tilkynningu þarf að koma fram dagsetning úrskurðar um gjaldþrotaskipti og nafn og kennitala þess, sem fer með stjórn búsins. Almenn tilkynning í Lögbirtingablaði, um að aðili hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta eða að skiptum á búi hans sé lokið, er ekki nægjanleg.

Þrotabú skráðra aðila er skráningarskylt þótt starfsemi þess felist aðeins í sölu eða ráðstöfun eigna, auk hinna eiginlegu gjaldþrotaskipta.  Við skráningu þrotabús á virðisaukaskattsskrá er númeri hins gjaldþrota aðila lokað en þrotabúið fær sérstakt VSK-númer þó á kennitölu hins gjaldþrota aðila. Ef líklegt er talið að þrotamaður fái bú sitt afhent að nýja vegna þess að kröfur fáist greiddar eða tryggðar að fullu er hægt að óska eftir að VSK-númeri hans verði „fryst“ þannig að skráning verði felld niður tímabundið en ekki að fullu. Getur þrotamaður þá haldið áfram starfsemi sinni með sama VSK-númer, fái hann umráð yfir búi sínu að nýju. Ef einstaklingur heldur hins vegar áfram stafsemi, þrátt fyrir gjaldþrotið, er um nýja starfsemi að ræða í skilningi laganna og er aðila því skylt að tilkynna starfsemi sína á nýjan leik til skráningar.

Hafi hinn gjaldþrota aðili eingöngu haft með höndum starfsemi sem undanþegin er virðisaukaskatti er búið undanþegið skráningarskyldu og gildir það einnig um þá sem sérstaklega eru undanþegnir skráningarskyldu skv. lögum um virðisaukaskatt.

Aðilar undanþegnir skráningarskyldu

Eftirfarandi aðilar eru undanþegnir skattskyldu:

  • Aðilar sem eingöngu selja vöru eða þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti skv. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Vert er þó að nefna að slíkir aðilar geta orðið skráningarskyldir hafi þeir með höndum sölu á skattskyldum vörum eða þjónustu sem rekin sé í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Til dæmis ber íþróttafélagi ekki að skrá sig vegna íþróttastarfsemi sinnar, en það gæti orðið skráningarskylt vegna auglýsingasölu eða sælgætissölu svo dæmi sé tekið
  • Listamenn eru undanþegnir skattskyldu að því er varðar sölu þeirra á eigin listaverkum, enda falli listaverkin undir tollskrárnúmer 9701.1000 til 9703.0000 í tollskrá. Sama á við um uppboðshaldara að því er varðar sölu þessara verka á listmunauppboðum.
  • Þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir 2.000.000 kr. eða minna á hverju tólf mánaða tímabili frá því að starfsemin hefst (fjárhæðin var 1.000.000 kr. til 1. janúar 2017). Skylda til að tilkynna ríkisskattstjóra um starfsemi sína og innheimta og skila virðisaukaskatti stofnast frá þeim tíma þegar þessum aðilum mátti vera ljóst að sölutekjur af skattskyldri vöru og þjónustu verði 2.000.000 kr. eða meiri á tólf mánaða tímabili. Ekki er krafist greiðslu virðisaukaskatts af sölu sem á sér stað fyrir þetta tímamark, jafnframt má ekki telja til innskatts virðisaukaskatt sem greiddur er fyrir skráningu vegna kaupa á aðföngum til starfseminnar. Undanþága þessi er valkvæð þ.e. aðili sem sér fram á að selja vörur eða þjónustu fyrir lægri fjárhæð en 2.000.000 kr. á hverju 12 mánaða tímabili er heimilt að standa utan við virðisaukaskattsskrá eða fara strax inn á virðisaukaskattsskrá og nýta þar með þann virðisaukaskatt sem leggst á aðföng til starfseminnar, sem innskatt.
  • Skólamötuneyti, þ.e. hvað varðar fæðissölu til nemenda, enda eigi salan sér stað innan vébanda skólans sem liður í starfi hans. Undanþágan tekur ekki til aðfanga við reksturinn og veitir þannig mötuneytinu hvorki heimild til að kaupa hráefni og önnur aðföng án greiðslu virðisaukaskatts. Undanþágan tekur aðeins til rekstrar mötuneytis, en ekki til verslunarrekstrar þó að skólanemendur séu einu viðskiptavinir verslunarinnar, og er þá átt við sölu skólans á sælgæti og drykkjum. Með rekstri mötuneytis er átt við framreiðslu tilreiddrar matvöru.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Aðilar undanþegnir skráningarskyldu – 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Afturvirk skráning – 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Afturvirk skráning – 7. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila

Frjáls skráning – 6. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Frjáls skráning – 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt 

Frjáls skráning – reglugerð nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign

Fyrirfram skráning – 4. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila

Fyrirfram skráning – 5. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila

Lok starfsemi – 11. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Lok starfsemi – 8. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila

Gjaldþrotabú, skráning – 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Samskráning – 5. gr. a. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Sérstök skráning – 6. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Sérstök skráning – reglugerð nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign

Sérstök skráning – reglugerð nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi

Skattskyld eigin not – 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt 

Skattskyld eigin not – reglugerð nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana  

Skattskyldir aðilar – 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Skráningarskylda – 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Skráningarskylda – reglugerð nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila

Skráningarskylda – 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Undanþegin starfsemi – 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Eyðublöð

Tilkynning til virðisaukaskattsskrár/launagreiðendaskrár - RSK 5.02

Tilkynning um afskráningu af launagreiðendaskrá staðgreiðslu og/eða virðisaukaskattsskrá – RSK 5.04

Annað

Almennar leiðbeiningar um virðisaukaskatt - RSK 11.19

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum