Kæruleiðir

Ef skattaðili fellir sig ekki við niðurstöðu ríkisskattstjóra hefur hann um ýmsar leiðir að velja, jafnt innan stjórnsýslunnar sem utan hennar. 

Að uppfylltum skilyrðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, getur skattaðili skotið úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. 

Ef ákvörðun ríkisskattstjóra fellur utan gildissviðs laganna þá kann skattaðili að hafa það úrræði á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra ákvörðunina til æðra stjórnvalds, þ.e. fjármála- og efnahagsráðuneytisins. 

Þá er hægt að bera ágreining um skattskyldu og skatthæð (skattstofn) undir dómstóla. Þetta eru hinar hefðbundnu kæru- eða málskotsheimildir skattaðila. Skattaðili hefur loks þann kost að kvarta við Umboðsmann Alþingis ef hann telur að skattyfirvöld hafi beitt sig rangindum.

Kæruleið til yfirskattanefndar

Sætti skattaðili sig ekki við niðurstöðu úrskurðar ríkisskattstjóra um skattákvörðun eða skattstofna má skjóta úrskurðinum til yfirskattanefndar. Um yfirskattanefnd gilda lög nr. 30/1992, ásamt breytingalögum nr. 96/1998. Kærufrestur skattaðila til yfirskattanefndar er þrír mánuðir frá póstlagningu úrskurðar. Kæra þarf að vera skrifleg og henni skulu fylgja frumrit eða endurrit kærðs úrskurðar. Enn fremur skal koma fram í kærunni hvaða atriði í úrskurðinum sæta kæru og rökstuðningur fyrir kröfum. Kærunni þurfa að fylgja gögn sem ætluð eru til stuðnings kærunni. Kæra til yfirskattanefndar frestar  ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Yfirskattanefnd skal hafa lagt efnisúrskurð á allar kærur sex mánuðum eftir að henni berst umsögn og kröfugerð ríkisskattstjóra um ágreiningsefnið. Úrskurður nefndarinnar er lokaniðurstaða máls hjá skattyfirvöldum. Úrskurði nefndarinnar má bera undir dómstóla.

Almennar málskotsreglur stjórnsýslulaga

Einungis er hægt að kæra til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra um ákvörðun skatta, gjalda og skattstofna, þar með talin rekstrartöp og endurgreiðslur á virðisaukaskatti, t.d. vegna íbúðarhúsnæðis. Aðrar stjórnsýsluákvarðanir ríkisskattstjóra sæta venjulegri kærumeðferð skv. VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt stjórnsýslulögum er heimilt að kæra stjórnsýsluákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða fá henni breytt. Slík kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnsýsluákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, nema æðra stjórnvald telji aðstæður mæla með því eða lög mæli fyrir á annan veg.

Almennum málsmeðferðarreglum, svo sem andmælareglunni, rannsóknar­reglunni o.s.frv., verður ekki lýst hér, en um þær vísast til stjórnsýslulaga nr. 37 /1993 og rita sem um efnið fjalla. Þess skal þó getið að þessar reglur stjórnsýsluréttarins eiga að sjálfsögðu við um málsmeðferð skattyfirvalda og hefur reynt á þær í fjölmörgum málum fyrir yfirskattanefnd.

Almennt dómsmál

Ágreining um skattskyldu og skatthæð (skattstofn) má bera undir dómstóla. Dómstólar taka þá ákvörðun um skattskyldu og skattstofn aðila. Úrskurðir yfirskattanefndar um skattfjárhæðir eru fullnaðarúrskurðir, sem ekki verða undir dómstóla bornir.

Þá geta aðilar máls borið önnur ágreiningsefni sín við skattyfirvöld fyrir dómstóla, enda hafi kæruleiðir innan stjórnsýslunnar verið tæmdar, sbr. almennar reglur stjórnsýslulaga.

Eins og að framan er rakið, þá er aðgangur skattaðila að dómstólum landsins vegna ágreinings við skattyfirvöld takmarkaður umfram það sem almennt gerist.

Umboðsmaður Alþingis

Í lögum um umboðsmann Alþingis nr. 85/1997 kemur fram heimild umboðsmanns Alþingis til skoðunar á meðferð mála einstakra aðila hjá skattyfirvöldum. Aðilar geta óskað eftir þessu við umboðsmann Alþingis. Hlutverk umboðsmanns er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum nr. 85/1997 og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Hann skal gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að stjórnsýsla fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti. Umboðsmaður getur tekið mál til meðferðar eftir kvörtun eða að eigin frumkvæði. Kvörtun getur hver sá borið fram við umboðsmann sem telur stjórnvald hafa beitt sig rangindum. Kvörtun til umboðsmanns skal vera skrifleg og skal þar greint nafn og heimilisfang þess er kvartar. Öll tiltæk sönnunargögn um málsatvik skulu og fylgja kvörtun. Kvörtun skal bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ársfresturinn hefst þá frá þeim tíma.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Kærur til ríkisskattstjóra – 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Kæra til yfirskattanefndar – 100. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd

Umboðsmaður Alþingis - Lög nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis

Kæra til æðra stjórnvalds – VII. kafli stjórnsýslulaga nr. 37/1993

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum