Almenn skattskylda

Almenn skattskylda er einnig kölluð ótakmörkuð skattskylda. Almenn skattskylda byggir á tilteknum tengslum skattaðila við Ísland. Á þeim sem bera almenna skattskyldu á Íslandi hvílir skylda til að greiða skatt af öllum tekjum sínum óháð því hvar þeirra er aflað í heiminum og öllum eignum sínum óháð staðsetningu þeirra. Taka ber þó tillit til tvísköttunarsamninga sem ríkisstjórnin hefur gert við stjórnir annarra ríkja til að koma í veg fyrir tvísköttun á tekjur og eignir. Ákvæði slíkra samninga geta valdið því að tekjur, sem án slíkra samninga væru skattlagðar hér á landi, eru það ekki. Þær eru þó alltaf framtalsskyldar.

Á eftirtöldum einstaklingum hvílir almenn/ótakmörkuð skattskylda hér á landi:

  1. Þeim sem heimilisfastir eru hér á landi.
  2. Þeim sem heimilisfastir hafa verið hér á landi en flutt úr landi og fellt hafa niður heimilisfesti sitt hér, nema þeir sanni að þeir séu skattskyldir í öðru ríki á sama hátt og menn heimilisfastir þar og hafi fullnægt þeim skattskyldum sínum. Skattskylda þessi gildir þó aðeins í þrjú ár frá næstu áramótum eftir brottflutningsdag.
  3. Þeim sem dvelja hér á landi lengur en samtals 183 daga á sérhverju 12 mánaða tímabili, þar með talin eðlileg fjarvera héðan af landi vegna orlofs og þess háttar.
  4. Þeim sem eigi falla undir 1.–3. tölulið en starfa samtals lengur en 183 daga á sérhverju 12 mánaða tímabili, þar með talin eðlileg fjarvera frá starfi vegna orlofs og þess háttar, um borð í loftfari eða skipi sem skráð er hér á landi.

Ríkisskattstjóri hefur úrskurðarvald um hverjir skuli teljast heimilisfastir hér á landi samkvæmt þessari lagagrein. Við ákvörðun á heimilisfesti skal miðað við reglur laga um lögheimili, eftir því sem við á. Úrskurði ríkisskattstjóra má skjóta til dómstóla að stefndum ríkisskattstjóra vegna ráðherra.

Þeir sem dveljast erlendis við nám geta sótt um að halda hér á landi skattalegri heimilisfesti og haldið þannig öllum réttindum sem heimilisfesti hér á landi veitir samkvæmt lögunum og öðrum lögum um opinber gjöld. Nánari upplýsingar eru að finna í umfjöllun um námsmenn erlendis.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Almenn skattskylda einstaklinga (ótakmörkuð) – 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Heimild til að gera tvísköttunarsamninga – 119. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Lög um lögheimili – lög nr. 21/1990, um lögheimili

Skattprósentur – 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Annað

Námsmenn erlendis

Tvísköttunarsamningar
Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum