Erlendir listamenn

Listamenn sem fram koma í atvinnuskyni til skemmtunar hér á landi skulu greiða tekjuskatt af tekjum fyrir þau störf.  Með tekjum í þessu sambandi teljast hvers konar hlunnindi, þó ekki gisting og flutningur að og frá landinu hafi viðtakandi eigi greitt hann sjálfur. Ekki skiptir máli hvort aðili kemur fram á eigin vegum eða í nafni annars eða hvort greiðslan er frá innlendum eða erlendum aðila

Tekjuskattshlutfallið er 20% og eiga einstaklingar ekki rétt á persónuafslætti.

Sá sem fram kemur í atvinnuskyni til skemmtunar eða keppni án ákveðinna launa eða þóknunar, en nýtur þess í stað afraksturs af slíkri starfsemi, skal þó greiða 15% tekjuskatt af heildartekjum af slíku starfi án nokkurs frádráttar.

Einstaklingar skulu til viðbótar við tekjuskatt greiða útsvar af tekjum sínum í samræmi við ákvæði laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Staðgreiðsluskylda

Tekjur sem erlendir listamenn fá greiddar vegna skemmtunar hér á landi eru staðgreiðsluskyldar. Þeim sem inna af hendi greiðslur til erlendra listamanna ber því skylda til að halda eftir staðgreiðslu af þessum tekjum og skila til ríkissjóðs.  Greiðendur skulu gera grein fyrir tekjum og skattgreiðslum erlendra listamanna í rafrænum skilum til ríkisskattstjóra.

Réttlega afdregin og innborguð staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars þessara aðila er fullnaðargreiðsla nefndra gjalda hér á landi og fer ekki fram frekari ákvörðun eða álagning nema jafnframt sé að ræða skattskyldu vegna fastrar starfsstöðvar hér á landi.

Athygli er vakin á því að uppgjörstímabil skv. lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda er almanaksmánuðurinn og gjalddagi vegna liðins mánaðar er fyrsti virki dagur næsta mánaðar og eindagi 14 dögum síðar.

Ábyrgð á skattgreiðslum

Þeir sem greiða aðilum sem ekki eru heimilisfastir hér á landi endurgjald fyrir starfsemi eða þjónustu sem innt er af hendi hér á landi bera ábyrgð á sköttum viðtakanda vegna þessara greiðslna. Með ábyrgð er hér átt við sjálfskuldarábyrgð. Fjármálaráðherra er heimilt að krefjast þess að aðilar, sem fá greiðslur fyrir þjónustu eða starfsemi innta af hendi hér á landi, setji tryggingu fyrir væntanlegum sköttum sínum og gjöldum, svo og fyrir skattgreiðslum annarra aðila sem þeir eru ábyrgir fyrir.

Áhrif tvísköttunarsamninga

Meginreglan í þeim tvísköttunarsamningum sem Ísland hefur gert er sú, að skattleggja má listamann sem er heimilisfastur í samningsríki af tekjum, sem hann aflar í hinu samningsríkinu með persónulegum störfum sem listamaður, s.s. sem leikhús- eða kvikmyndaleikari, listamaður í hljóðvarpi eða sjónvarpi eða tónlistarmaður, í því ríki þar sem starfið er innt af hendi.

Utan þessa falla gestafyrirlesarar og aðstoðarlið ýmis konar, t.d. kvikmyndatökumenn, framleiðendur, leikstjórar, stílistar, tæknilið o.s.frv.

Þegar tekjur af starfi listamanns renna ekki til listamannsins sjálfs heldur til annars aðila má skattleggja tekjurnar í því samningsríki þar sem starfsemin fer fram.

Virðisaukaskattur

Menningarstarfsemi

Starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg listastarfsemi er undanþegin virðisaukaskatti. Jafnframt er starfsemi safna og hliðstæð menningarstarfsemi undanþegin virðisaukaskatti. Sama gildir um aðgangseyri að tónleikum, íslenskum kvikmyndum, listdanssýningum, leiksýningum og leikhúsum ef þessar samkomur tengjast ekki á neinn hátt öðru skemmtanahaldi eða veitingastarfsemi.

Eftirfarandi fellur m.a. undir þessar undanþágur:

  1. Starfsemi rithöfunda, höfunda leikrita og kvikmyndahandrita, þ.e. sala á útgáfurétti, þýðing bókmenntaverka og kvikmynda, en önnur þýðingarstarfsemi er virðisaukaskattsskyld, t.d. þýðing leiðbeininga.
  2. Starfsemi tónskálda. Störf tónlistarmanna, þ.e.a.s. flutningur eigin tónlistar eða annarra. Starfsemi ferðadiskóteks.
  3. Vinna leikara, leikstjóra og höfunda leikmynda. Undanþágan nær almennt ekki til annarra sjálfstætt starfandi aðila sem koma að leiksýningum o.s.frv. svo sem ljósameistara, hljóðmeistara og klippara. Vinna leikara, dansara, fyrirsæta og annarra beint fyrir auglýsanda, þ.e.a.s. án milligöngu auglýsingastofu, telst vera sala á auglýsingaþjónustu og þar með virðisaukaskattsskyld.
  4. Aðgangseyrir að menningarstarfsemi af ýmsum toga, svo sem tónleikum, listdanssýningum, leiksýningum og leikhúsum, íslenskum kvikmyndum, listasöfnum, ljósmyndasýningum og náttúrugripasöfnum. Þó er aðgangseyrir ekki undanþeginn ef veitingar eru seldar eða framreiddar á meðan dagskrá samkomu stendur.
  5. Útlán bóka og önnur bókasafnsþjónusta.

Eftirfarandi er hins vegar á meðal þess sem ekki fellur undir undanþáguna og því virðisaukaskattsskylt:

  1. Sala vara, þ.m.t. bóka og geisladiska.
  2. Önnur þýðingarstarfsemi en þýðing bókmenntaverka og kvikmynda.
  3. Upptökustjórn, vinna ljósameistara, hljóðmeistara og klippara.
  4. Aðgangseyrir að dansleikjum, dáleiðslusýningum, fjölleikahúsum eða tívolí.
  5. Vinna leikara og fyrirsæta beint fyrir auglýsanda, þ.e.a.s. án milligöngu auglýsingastofu.
  6. Gerð og sala kvikmynda. Aðgangseyrir að erlendum kvikmyndum.  

Listaverk

Sala listamanna á eigin listaverkum sem falla undir vöruliði 9701 til 9703 í tollskrá er undanþegin virðisaukaskatti.

Eftirfarandi listaverk falla hér undir:

  1. Málverk, teikningar og pastelmyndir gerðar í höndum að öllu leyti, þó ekki:
    1. Uppdrættir og teikningar til notkunar í húsagerð, verkfræði, iðnaði, viðskiptum, landslagsfræði eða þess háttar handgerð frumverk;
    2. Handskrifaður texti.
    3. Ljósmyndir á ljósnæmum pappír og kalkipappírsafrit.
    4. Handmálaðir eða handskreyttir framleiddir hlutir.
  2. Klippimyndir og áþekk veggskreytispjöld.
  3. Frumverk af stungum, þrykki og steinprenti, þ.e. myndir sem þrykktar eru beint í svörtu og hvítu eða í lit með einni eða fleiri plötum sem listamaðurinn hefur gert að öllu leyti í höndunum, án tillits til þeirra aðferða eða efnis sem hann notar, þó ekki með neins konar vélrænum eða ljósvélrænum aðferðum.
  4. Frumverk af höggmyndum og myndastyttum, úr hvers konar efni. Til þessa flokks teljast ekki fjöldaframleiddar endurgerðir af listaverkum eða venjulegar handiðnaðarvörur sem hafa einkenni verslunarvöru, jafnvel þótt vörur þessar séu hannaðar eða búnar til af listamönnum.

Rammar um málverk, teikningar, pastelmyndir, klippimyndir eða áþekk veggskreytispjöld, stungur, þrykk eða steinprent skoðast sem hluti af þessum listaverkum, enda séu þeir að gerð og verðmæti í eðlilegu samræmi við þau.

Allt annað handverk er hins vegar virðisaukaskattsskylt, þ.e. sala á nytjalist hverrar tegundar sem er, t.d. sala á skálum, kertastjökum, vörum og öðrum leirlistmunum, hvers konar trévörum, textílvörum, s.s. púðum, fatnaði o.fl.

Skatt- og skráningarskylda

Virðisaukaskattsskyldir aðilar skulu ótilkvaddir tilkynna sig til skráningar á virðisaukaskattsskrá hjá ríkisskattstjóra eigi síðar en átta dögum áður en hin virðisaukaskattsskylda starfsemi hefst.

Þeir sem selja virðisaukaskattsskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 2.000.000 kr. á hverju 12 mánaða tímabili eru undanþegnir skyldu til að innheimta virðisaukaskatt (var 1.000.000 kr. til 1. janúar 2017). Þeir þurfa því ekki að láta skrá sig á virðisaukaskattsskrá.

Hafi erlendur aðili, sem hefur með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi hér á landi, ekki fasta starfsstöð á Íslandi þá hvílir skráningarskyldan á umboðsmanni hans eða öðrum innlendum aðila sem er í fyrirsvari fyrir hann.

Ýmsar upplýsingar

Útlendingastofnun sér um veitingu dvalarleyfa og vegabréfsáritana hér á landi.

Veiting atvinnuleyfa heyrir undir Vinnumálastofnun.

Þjóðskrá skráir aðsetur útlendinga sem koma til Íslands í atvinnuskyni og úthlutar þeim íslenska kennitölu.

Lögreglustjóri veitir skemmtanaleyfi.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Sala listamanna á eigin listaverkum - 2. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Skatthlutfall tekjuskatts - 3. tölul. 70. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skráningarskylda á grunnskrá virðisaukaskatts - 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Staðgreiðsla opinberra gjalda - lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda

Undanþága rithöfunda og tónskálda - 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Undanþegin menningarstarfsemi - 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Útsvar - IV. kafli laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga

Virðisaukaskattsskylda - 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Virðisaukaskattsskylda listamanna - 3. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Annað

Tvísköttunarsamningar

Lögregluvefurinn

Útlendingastofnun

Vinnumálastofnun

Þjóðskrá Íslands

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum