Námsmenn erlendis

Þeir sem dveljast erlendis við nám geta sótt um að halda hér á landi skattalegri heimilisfesti og haldið þannig öllum réttindum sem heimilisfesti hér á landi veitir. Í því felst að við skattlagningu er tekið tillit til þess skattafsláttar og bóta sem hann ætti rétt á ef lögheimili hans hefði verið hér allt árið. Tekjur og eignir erlendis hafa áhrif á skattlagninguna að teknu tilliti til ákvæða tvísköttunarsamninga og barnabætur og hliðstæðar greiðslur erlendis koma til lækkunar á barnabótum hér á landi.

Eingöngu þeir sem hafa verið búsettir hér síðustu fimm árin áður en nám erlendis hófst geta haldið hér skattalegri heimilisfesti. Einnig verður nám að hefjast innan þriggja mánaða frá flutningi.

Sækja þarf um árlega í skattframtali. Er það gert með því að haka í reit á forsíðu framtals og láta viðeigandi gögn fylgja. Berist gögn ekki er umsókn hafnað. Á framtali þarf að koma fram póstfang námsmannsins erlendis eða umboðsmanns hér á landi og síðasta lögheimili námsmanns hér á landi.

Gögn með umsókn

Eftirfarandi gögn verða að fylgja með umsókn:

 1. Staðfesting á skóla þar sem fram kemur:
  • hvaða nám er stundað á tekjuárinu og hve lengi
  • hvenær nám hófst
  • áætluð námslok
 2. Staðfesting erlendra skattyfirvalda um tekjur eða tekjuleysi námsmanns og maka hans, s.s.:
  • staðfest ljósrit af erlendum skattframtölum ef tekjur koma þar fram eða
  • skriflegt tekjuvottorð frá erlendum skattyfirvöldum eða
  • erlenda álagningarseðla eða staðfestingu á skattauppgjöri
 3. Staðfesting á barnabótum eða sambærilegum greiðslum, fengnum erlendis á tekjuárinu

Nám sem veitir rétt til að halda skattalegri heimilisfesti hér á landi

Til þess að nám geti veitt rétt til skattalegrar heimilisfesti hér á landi þótt það sé stundað erlendis þarf það að uppfylla ákveðin skilyrði.

 • Nám þarf að vera reglulegt og stundað við viðurkenndra erlenda menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á framhalds- eða háskólastigi
 • Námið þarf að vera fullt starf
 • Námstími erlendis má ekki vera skemmri en 6 mánuðir eða sem svarar til 624 klst. á ári, þó að undanskildu skiptinámi

Til náms í þessu sambandi telst starfsþjálfun, sérhæfing eða öflun sérfræðiréttinda, enda séu skilyrði þau sem sett eru að öðru leyti uppfyllt.

Skiptinám við erlenda háskóla telst vera nám sem getur orðið grundvöllur fyrir skattalegri heimilisfesti þótt námstími sé skemmri en 6 mánuðir, enda séu framangreind skilyrði uppfyllt og nemandi skráður í nám við íslenskan háskóla.

Nám í grunnskólum, menntaskólum eða sambærilegum menntastofnunum telst ekki til náms í þessu sambandi nema nám að loknum grunnskóla veiti formleg starfsréttindi eða heimild til að bera starfsheiti.

Fjarnám við íslenskan háskóla skapar ekki rétt til skattalegrar heimilisfesti þrátt fyrir búsetu erlendis.

Sé gerð krafa um einhvers konar fornám eða tungumálanámskeið áður en háskólanám hefst þá er unnt að sækja um að námið sé samþykkt sem nám sem veitir rétt til að halda hér skattalegri heimilisfesti.

Ákvörðun um skattalega heimilisfesti

Ríkisskattstjóri tekur ákvörðun um rétt námsmanns til að halda skattalegri heimilisfesti á Íslandi. Almennar reglur um kærur til skattyfirvalda gilda í þessum tilvikum. Ef ríkisskattstjóri fellst ekki á að veita skattalega heimilisfesti er skattlagning miðuð við takmarkaða skattskyldu, þ.e. námsmaðurinn er einungis skattlagður hafi hann haft tekjur hér á landi eftir að lögheimili hefur verið flutt frá landinu.

Fjölskylda námsmanns

Dvelji maki námsmannsins eða börn hans eldri en 16 ára einnig erlendis og dvöl þeirra er bein afleiðing af námi hans, geta þau einnig sótt um að halda hér á landi skattalegri heimilisfesti. Óvígð sambúð er lögð að jöfnu við hjúskap að því tilskildu að uppfyllt séu skilyrði skattalaga um samsköttun.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Réttindi og skyldur námsmanna erlendis - reglugerð nr. 648/1995, um réttindi og skyldur manna, sem dveljast erlendis við nám, skv. ákvæðum laga um opinber gjöld

Skattaleg heimilisfesti - 3. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skerðing vegna erlendra barnabóta - 5. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skilyrði fyrir samsköttun - 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum