Sérstök vaxtaniðurgreiðsla

Til viðbótar við hefðbundnar vaxtabætur var við álagningu opinberra gjalda árin 2011 og 2012 greidd sérstök niðurgreiðsla vaxta sem nam 0,6% af skuldum vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Niðurgreiðslan gat hæst orðið 200.000 kr. hjá einhleypingi og 300.000 kr. hjá hjónum, sambúðarfólki og einstæðu foreldri hvort ár. Þá gat niðurgreiðslan að viðbættum vaxtabótum ekki orðið hærri en vaxtagjöld viðmiðunarársins vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota.

Vaxtaniðurgreiðslan taldist ekki til skattskyldra tekna.

Aðrar forsendur fyrir ákvörðun sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu

Ákvörðun um sérstaka vaxtaniðurgreiðslu var jafnframt byggð á neðangreindum atriðum.

Ótakmörkuð skattskylda hluta úr ári

Hámark sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu hjá þeim sem báru fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi hluta úr árunum 2011 eða 2012 ákvarðaðist í hlutfalli við dvalartíma þeirra á landinu á viðmiðunarárinu.

Hjá þeim sem skattskyldir voru hluta úr ári vegna brottflutnings á tekjuárinu var útreikningur miðaður við skuldastöðu eins og hún var fyrir brottflutning.

Íbúðarhúsnæði selt á viðmiðunarári

Hjá þeim sem seldu íbúðarhúsnæði annað hvort á árinu 2011 eða 2012 og keyptu ekki annað í staðinn voru útreikningar miðaðir við eftirstöðvar skulda á söludegi.

Skerðing miðað við hreina eign

Vaxtaniðurgreiðsla var skert miðað við hreina eign (eignir að frádregnum skuldum). Skerðing hjá einstaklingi byrjaði við nettóeign 10.000.000 kr. og féll niður þegar eignin náði 20.000.000 kr. Skerðing hjá hjónum, sambúðarfólki og einstæðum foreldrum byrjaði við nettóeign 15.000.000 kr. og féll niður þegar eignin náði 30.000.000 kr.

Áhrif tekna

Vaxtaniðurgreiðsla tók ekki mið af tekjum og engin skerðing var reiknuð á þeim grunni. 

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Um rétt til sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu  - Ákvæði til bráðabirgða XLII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt

Vaxtabætur -  B-liður 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum