Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 005/2011

18.3.2011

Skattaleg meðferð eftirgefinna rekstrarskulda

18. mars 2011
T-Ákv. 11-005

Meginregla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að því er varðar eftirgjöf rekstrarskulda er að fjárhæðina skuli færa að fullu til tekna í skattframtali þess rekstraraðila sem eftirgjafarinnar nýtur. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði XXXVI í lögum nr. 90/2003, sbr. lög nr. 104/2010, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (skattaleg meðferð á eftirgjöf skulda), er heimilt í stað fullrar tekjufærslu á eftirgjöf skulda sem tengjast atvinnurekstri að telja einungis til tekna ákveðið hlutfall eftirgjafarinnar, þó að tiltekinni hámarksfjárhæð og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Umræddu ákvæði var síðan breytt með 18. gr. laga nr. 165/2010, um breyting á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, og með 19. gr. þeirra laga var m.a. bætt við lög nr. 90/2003 nýju bráðabirgðaákvæði, sem varð XLIV, og varðaði nýtt heimildar- úrræði samhliða hinu fyrra, þ.e. að því er varðar árin 2010 og 2011, um skattalega meðferð á eftirgjöf skulda sem tengjast atvinnurekstri.

  1. Samkvæmt b.b.ákv. XXXVI í lögum nr. 90/2003, sbr. lög nr. 104/2010, er lögaðilum og þeim mönnum sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi heimilt, í stað þess að telja að fullu til tekna eftirgjöf skulda umfram rekstrartöp,
    • að tekjufæra einungis 50% af fengnum eftirstöðvum eftirgjafar skulda vegna rekstrar- og greiðsluerfiðleika á tekjuárunum 2009, 2010 og 2011 allt að samtals 50 millj. kr.,
    • og 75% af eftirgjöf umfram samtals 50 millj. kr. á framangreindu tímabili.
    • Skilyrði er að til skuldanna hafi verið stofnað í beinum tengslum við atvinnureksturinn.
    • Heimilt er að fyrna eignir, sem eru fyrnanlegar skv. 33. gr. laganna um fjárhæð sem nemur eftirstöðvum eftirgjafarinnar á því ári sem eftirgjöf er færð til tekna í skattframtali.
    • Ef fyrnanlegar eignir eru ekki fyrir hendi er heimilt að færa eftirgjöf skulda til tekna með jöfnum fjárhæðum í skattframtölum næstu þriggja ára frá og með því tekjuári sem skuld var gefin eftir.
    • Skilyrði fyrir takmörkun á tekjufærslu, fyrningu eða frestun á tekjufærslu er að rekstrartap ársins og yfirfæranlegt rekstrartap hafi verið jafnað, auk annarra skilyrða sem kveðið er á um í ákvæðinu.
  2. Í b.b.ákvæði XLIV í lögum nr. 90/2003, sbr. lög nr. 165/2010, segir að þrátt fyrir 1.–4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXVI í lögunum skuli þeim rekstraraðilum sem fá eftirgefnar skuldir vegna greiðsluerfiðleika á árunum 2010 og 2011,
    • vera heimilt í skattskilum sínum að færa á milli tekjuáranna 2010 til og með 2014 þann hluta eftirgjafarinnar sem er umfram yfirfæranlegt rekstrartap og rekstrartap ársins, fyrningar og niðurfærslu.
    • Skilyrði fyrir slíkri yfirfærslu er að skattaðili hafi á hverju viðkomandi tekjuári fyrnt að fullu að, teknu tilliti til niðurlagsverðs, allar fyrnanlegar eignir sínar og nýtt mögulegar hámarksniðurfærslur á viðskiptakröfum og vörubirgðum.
    • Þá er skilyrði að arði sé ekki úthlutað vegna tekjuáranna 2010 til og með 2014, auk annarra skilyrða sem kveðið er á um í ákvæðinu.
    • Standi eftir í árslok 2014 eftirgjöf skulda sem er hærri en 500 millj. kr. er skattaðila heimilt að færa það sem umfram er til tekna með jöfnum fjárhæðum á tekjuárunum 2015 til og með 2019.
    • Reynist eftirstöðvar eftirgjafar skulda, sbr. framanritað, aftur á móti lægri en 500 millj. kr. í lok árs 2014 kemur ekki til tekjufærslu af þeim sökum.
  3. Samkvæmt því sem rakið er að framan gildir b.b.ákv. XXXVI í lögum nr. 90/2003 hafi rekstrarskuld verið gefin eftir á rekstrarárinu 2009 og því heimilt að víkja frá meginreglunni um að slíka eftirgjöf beri að telja að fullu til skattskyldra rekstrartekna að uppfylltum þeim skilyrðum sem rakin eru í ákvæðinu.
  4. Hafi rekstrarskuld fyrst verið gefin eftir á rekstrarárinu 2010 eða verði slíkt raunin á rekstrarárinu 2011 telur ríkisskattstjóri að heimilt sé að byggja skattalega meðferð á b.b.ákv. XLIV í lögum nr. 90/2003 að uppfylltum þeim skilyrðum sem þar um ræðir en heimilt sé einnig að velja að byggja á eldra ákvæðinu, þ.e. b.b.ákv. XXXVI í sömu lögum. Sé síðari kosturinn valinn komi hann alfarið í stað þess fyrrnefnda. Þannig verði skattaleg meðferð á eftirgjöf rekstrarskuldar sem fram fer á rekstrarárunum 2010 eða 2011 annað hvort alfarið byggð á b.b.ákv. XXXVI eða b.b.ákv. XLIV en hvorki sé heimilt að beita báðum leiðum samtímis eða breyta meðferðinni á milli ára.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum