Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 006/2010

19.8.2010

Staðgreiðsla skatta - dráttarvextir

19. ágúst 2010 T-Ákv. 10-006

Ríkisskattstjóri vísar til bréfs yðar er barst embættinu rafrænt þann 5. júlí 2010 þar sem settar eru fram spurningar er lúta að því hvort afdráttur staðgreiðslu af dráttarvöxtum skuli fara eftir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, eða 4. tölul. 1. mgr. sömu lagagreinar. Er þá tekið fram að verði niðurstaðan sú að ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 5. gr. eigi við þá skuli afdráttur fara fram þegar vextir eru greiddir út eða færðir eiganda til eignar á reikningi og væntanlega yrði þá skattaðilum skylt að skila skatti í staðgreiðslu þegar vextirnir falla til, óháð því hvort krafan hafi verið greidd eða ekki. Verði hins vegar litið svo á að staðgreiðsla skatta á dráttarvexti fari eftir 4. tölul. 1. mgr. 5. gr. þá skuli afdráttur fara fram þegar vaxtatekjur vegna dráttarvaxta eru færðar rétthafa til tekna og lausar honum til ráðstöfunar eða þegar þær eru greiddar út. Þá segir:

„Þetta ákvæði [4. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996] setur annað skilyrði, ekki er nóg að vaxtatekjurnar hafi verið færðar til tekna heldur þurfa þær einnig að vera lausar til ráðstöfunar. Í eðli sínu eru dráttarvextir ekki lausir til ráðstöfunar fyrr en þeir hafa verið greiddir út. Samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 5. gr. getur afdráttur því ekki farið fram fyrr en dráttarvextirnir hafa verið greiddir út og eru lausir til ráðstöfunar. Falli dráttarvextir undir þetta ákvæði myndu skattaðilar ekki þurfa að skila skatti í staðgreiðslu vegna dráttarvaxta af kröfum sem ekki hafa verið greiddar, og skilaskildir (sic) aðilar ekki þurfa að skila þeim skatti vegna hvers greiðslutímabils, sbr. 5. gr. heldur aðeins þegar krafan fæst greidd.“

Fram kemur að tilefni fyrirspurnarinnar séu breytingar á skatthlutfalli vaxtatekna 1. júlí 2009 annars vegar og 1. janúar 2010 hins vegar og eðlis dráttarvaxta sem dagvaxta. Er í dæmaskyni nefnd krafa sem stofnað hafi verið til á árinu 2007, en sem greidd er í dag með áföllnum dráttarvöxtum.

Settar eru fram eftirfarandi spurningar:

„Verði niðurstaðan að vaxtatekjur vegna dráttarvaxta falli undir 1. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996 ber skattaðilum að halda eftir skatti í staðgreiðslu vegna þessara vaxtatekna eftir áfellingartíma, þ.e. þegar dráttarvextir falla til jafnvel þótt krafan sé ógreidd? Ber þá skilaskyldum aðilum að gera skil á þessum skatti ársfjórðungslega, sbr. 5. gr., jafnvel þótt kröfurnar séu ógreiddar?

Verði niðurstaðan að vaxtatekjur vegna dráttarvaxta falli undir 4. tölul. 1. mgr. 5. mgr. laga nr. 94/1996 þá ber aðeins að halda eftir skatti í staðgreiðslu þegar krafan er greidd þar sem dráttarvextir eru aldrei lausir til ráðstöfunar fyrr en þeir hafa verið greiddir. Falli þetta undir 4. tölulið teljast þá vaxtatekjur vegna dráttarvaxta hafa fallið til (a) þegar vextirnir voru greiðslukræfir, eða (b) þegar vextirnir voru greiddir og afdráttur fór fram?

Ef svarið er (a) þegar vextirnir voru greiðslukræfir ber þá að miða við skatthlutfall fjármagnstekjuskatts eins og það var á þeim tíma þegar vextirnir voru greiðslukræfir, þ.e. féllu í gjalddaga? Þannig yrði haldið eftir dráttarvöxtum í þremur þrepum vegna kröfu sem borið hefur dráttarvexti frá 2007.

Ef svarið er (b) þegar vextirnir voru greiddir og afdráttur fór fram ber þá að halda eftir í staðgreiðslu flötum 18% skatti af öllum dráttarvöxtum vegna kröfu sem fæst greidd í dag og borið hefur dráttarvexti frá 2007 þar sem afdráttur fer fram þegar vextirnir eru greiddir og vaxtatekjurnar því taldar falla til við það tímamark, sbr. bráðabirgðaákvæði III?“

Í tilefni af fyrirspurninni tekur ríkisskattstjóri eftirfarandi fram:

Í fyrirspurnarbréfi er annars vegar vísað til skyldu skattaðila til að halda eftir og skila skatti í staðgreiðslu vegna dráttarvaxta af kröfum og hins vegar skilaskyldra aðila til að skila skattinum. Af því tilefni telur ríkisskattstjóri rétt að benda á að þrátt fyrir að allir þeir sem fái vaxtatekjur séu skyldir til að greiða af þeim skatt og sæta innheimtu í staðgreiðslu, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 94/1996, að undanskildum þeim sem upp eru taldir í 3. mgr. sömu lagagreinar, þá felur það ekki í sér að öllum þeim aðilum beri skylda til að halda eftir staðgreiðslu af vaxtatekjum og skila í ríkissjóð samkvæmt ákvæðum laganna. Þvert á móti hvílir sú skylda eingöngu á þeim skattaðilum sem skilaskyldir eru samkvæmt 3. gr. laganna. Sem dæmi má nefna að eigi lögaðili vaxtaberandi kröfu á hendur öðrum aðila, ber þeim lögaðila ekki að halda eftir staðgreiðslu skatta vegna vaxta af þeirri kröfu og skila í ríkissjóð, sé hann ekki skilaskyldur samkvæmt 3. gr. laganna, þótt skylda til að halda eftir skattinum og skila honum í ríkissjóð, vegna sömu kröfu, sé fyrir hendi sjái skilaskyldur aðili um innheimtu hennar fyrir hönd kröfueiganda.

Af fyrirspurninni verður helst ráðið að lagt sé til grundvallar að önnur sjónarmið eigi mögulega við þegar ákvarðað sé hvaða ákvæði rétt sé að byggja á við afdrátt staðgreiðslu skatts á dráttarvexti en við afdrátt staðgreiðslu á almenna samningsvexti. Dráttarvextir eru í ýmsu ólíkir almennum samningsvöxtum. Skýrist það af eðli þeirra sem dagvaxta sem skuldara er gert að greiða vegna greiðsludráttar, að hluta til að hvetja hann til lögmætra efnda, en einnig til að bæta kröfuhafa það tjón sem hann mögulega verður fyrir vegna vanefndanna. Þetta sérstaka eðli dráttarvaxta leiðir þó ekki til þess að sérstök sjónarmið séu lögð til grundvallar í skattalegu tilliti í þessu sambandi. Af þeim sökum fellst ríkisskattstjóri ekki á að byggja skuli á ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996, með þeim rökum einum að um dráttarvexti sé að ræða. Verður þvert á móti að líta til undirliggjandi kröfu hverju sinni þegar ákvarða skal á hvaða ákvæði skuli byggja afdráttarstofn með sama hætti og þegar um almenna vexti er að ræða.

Samkvæmt 1. málslið 1. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996, skal staðgreiðsla af vöxtum skv. 1.-3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna fara fram þegar vextir eru greiddir út eða færðir eiganda til eignar á reikningi, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. Að mati ríkisskattstjóra verður að skýra ákvæðið svo að eingöngu vextir samkvæmt 1. og 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna skuli sæta staðgreiðslu þegar þeir eru færðir eiganda til eignar á reikningi. Sé um að ræða vexti samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. verður ekki annað ráðið, með vísan til þess hvernig ákvæðið er sett fram, en að staðgreiðslan skuli eingöngu fara fram þegar vextir eru greiddir út. Skýrist þessi greinarmunur á staðgreiðsluskyldu vaxtanna að einhverju leyti þegar litið er til þess hvaða vaxtatekjur falla undir nefnda töluliði 1. mgr. 4. gr. laganna.

Undir 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. falla vextir af innstæðum í innlendur bönkum, sparisjóðum og innlánsdeildum samvinnufélaga, á póstgíróreikningum og orlofsfjárreikningum, svo og vextir af verðbréfum sem hliðstæðar reglur gilda um samkvæmt sérlögum. Ennfremur verðbætur á höfuðstól og vexti, verðbætur á inneignir og kröfur sem bera ekki vexti og happdrættisvinninga sem greiddir eru í stað vaxta. Í 2. tölul. eru tilgreindir vextir af stofnsjóðseign í gagnkvæmum vátrygginga- og ábyrgðarfélögum, kaupfélögum og öðrum samvinnufélögum, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Vaxtatekjur til staðgreiðslu samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1996, eru vextir hjá innlendum aðilum af sérhverjum öðrum innstæðum og inneignum en um getur í 1. og. 2. tölul., þar með taldir vextir af víxlum, verðbréfum og öllum öðrum kröfum sem bera vexti. Með vöxtum samkvæmt ákvæðinu teljast einnig verðbætur og happdrættisvinningar á sama hátt og um getur í 1. tölul. Af orðalagi fyrirspurnarinnar og þeirra forsendna sem þar eru settar fram verður, að mati ríkisskattstjóra, ekki annað ráðið en að vaxtaberandi kröfur sem í fyrirspurn greinir séu þess eðlis að þær falli almennt undir 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna. Samkvæmt því ber, eftir atvikum, að halda eftir staðgreiðslu skatta á vexti, þ.á.m. dráttarvexti, þegar krafan er greidd.

Við ákvörðun skatthlutfalls ber að miða við þann tíma er vaxtatekjurnar ber að telja til tekna. Þannig fer um skattlagningu samkvæmt þeim lögum sem í gildi eru á því tímamarki. Í sjö töluliðum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003, er að finna við hvaða tímamark skuli miða við ákvörðun vaxtatekna, en samkvæmt 2. tölul. þess ákvæðis skal telja vexti af kröfu til tekna þegar þeir eru greiddir eða greiðslukræfir. Samkvæmt því ber, við ákvörðun staðgreiðslu skatts á vexti af þeim kröfum, að miða við það skatthlutfall sem í gildi var er þeir urðu greiðslukræfir hafi þeir ekki verið greiddir. Á það við óháð því hvort um sé að ræða dráttarvexti eða almenna samningsvexti.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum