Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 002/2006

28.2.2006

Frádráttur vegna viðbótarlífeyrissparnaðar þegar launþega er ekki lengur skylt að greiða í lífeyrissjóð

28. febrúar 2006 T-Ákv. 06-002

Ríkisskattstjóri vísar til fyrirspurnar yðar,dagsettrar 3. október 2005, þar sem óskað var eftir svari við því hvort launþega sem lokið hefur skyldugreiðslu í lífeyrissjóð en greiðir þess í stað 8% af launum sínum sem iðgjöld í séreignarlífeyrissjóð sé heimilt að draga iðgjöldin frá tekjum sínum. Fyrirspurninni var svarað með bréfi ríkisskattstjóra dagsettu 28. nóvember 2005, auðkenndu T-ákv 05-006.

Að gefnu tilefni þykir rétt að afturkalla framangreint svarbréf ríkisskattstjóra og að veita eftirfarandi svar við hinu uppborna álitaefni.

Heimildir til frádráttur frá tekjum utan atvinnurekstrar byggja á ákvæðum 30. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Samkvæmt 4. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. má draga frá slíkum tekjum iðgjöld launþega til öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að hámarki 4% af iðgjaldsstofni. Að auki allt að 4% af iðgjaldsstofni samkvæmt ákvörðun sjóðfélaga vegna iðgjalda sem greidd eru til lífeyrissjóða eða til aðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrissréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, enda sé iðgjaldinu varið til aukningar lífeyrisréttinda eða lífeyrissparnaðar skv. II. kafla sömu laga. Skilyrði frádráttar er að iðgjöld séu greidd reglulega. Samsvarandi ákvæði um frádrátt vegna iðgjalda af reiknuðu endurgjaldi sjálfstætt starfandi manna er að finna í 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003.

Ákvæði um frádrátt lífeyrisiðgjalda frá tekjum manna utan atvinnurekstrar var lögtekið með 2. gr. laga nr. 30/1995, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með breytingalögunum var nýjum tölulið (5. tölul.) bætt við A-lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 og kveðið á um að frá tekjum manna, sem ekki væru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, mætti draga iðgjöld launþega sem greidd hefðu verið til lífeyrissjóða sem störfuðu samkvæmt lögum eða hlotið hefðu staðfestingu fjármálaráðuneytisins skv. 2. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, að hámarki 4% af heildarlaunum. Samsvarandi ákvæði var sett um frádráttarbærni lífeyrisiðgjalda af reiknuðu endurgjaldi sjálfstætt starfandi manna. Það ákvæði varð með lögum nr. 145/1995 að 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981.  Ákvæðum þessum um frádrátt lífeyrisiðgjalda var breytt með 2. gr. laga nr. 141/1997, um breyting á lögum nr. 75/1981. Með breytingunni voru heimildir til frádráttar vegna lífeyrisiðgjalda rýmkaðar til samræmis við niðurstöðu nefndar sem samdi frumvarp til nýrra laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. lög nr. 129/1997 um það efni. Í 2. gr. frumvarps sem lagt var fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997-1998, var gert ráð fyrir því að auk þá gildandi frádráttar vegna lífeyrisiðgjalda yrði heimilt að draga allt að 2% af heildarlaunum vegna iðgjalda sem greidd væru til lífeyrissjóða vegna skyldutryggingar lífeyrisréttinda eða til aðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, enda yrði iðgjaldinu alfarið varið til lífeyrissparnaðar skv. II. kafla sömu laga. Frumvarpið sætti breytingum í meðförum Alþingis, þannig að með lögum nr. 141/1997 var orðalag 5. og 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 fært til þess horfs sem enn gildir, ef frá er talinn hundraðshluti frádráttarins. Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis var gerð svofelld grein fyrir breytingunum (Alþt. 1997-98, A-deild, bls. 2402-2403):

Lögð er til sú breyting á 2. gr., sem lýtur að skattfrádrætti vegna lífeyrisiðgjalda, að ákvæði 5. og 6. tölul. A-liðar 30. gr. laganna verði skilgreind upp á nýtt. Gert er ráð fyrir að til viðbótar 4% af iðgjaldsstofni verði frádráttarbær frá skatti að auki allt að 2% af iðgjaldsstofni samkvæmt ákvörðun sjóðfélaga vegna iðgjalda sem greidd eru til lífeyrissjóða eða til aðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, enda sé iðgjaldinu varið til aukningar lífeyrisréttinda eða lífeyrissparnaðar skv. II. kafla sömu laga. Ákvæði 5. tölul. tekur til launþega en 6. tölul. til einstaklinga með eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.

Með 5. gr. laga nr. 86/2000, um breyting álögum nr. 75/1981, var hundraðshluti viðbótarfrádráttar samkvæmt 5. og 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 hækkaður úr 2% í 4% af iðgjaldsstofni.

Að virtu orðalagi ákvæðis 4. tölul. A-liðar 1.mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 og forsögu þess er ljóst að heimild samkvæmt 1. málslið ákvæðisins til að draga iðgjöld launþega til öflunar lífeyrisréttinda, samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, að hámarki 4% af iðgjaldsstofni er ekki einskorðuð við þau iðgjöld sem launþegum er skylt að inna af hendi vegna lágmarkstryggingaverndar. Sú frádráttarheimild tekur jafnframt til umsaminna iðgjalda samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997 til öflunar lífeyrisréttinda í séreign og viðbótartryggingaverndar í sameign.

Í umspurðu tilviki þegar fallin er niður skylda launþega til iðgjaldagreiðslna til lágmarkstryggingaverndar, en hann greiðir á grundvelli samnings samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997 iðgjöld í séreignarsjóð er nema 8% af heildarlaunum hans, veita iðgjaldagreiðslurnar honum fullan rétt til frádráttar frá skatttekjum samkvæmt 4. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003.

Ríkisskattstjóri.



Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum