Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 005/2005

11.10.2005

Tekjufærsla frestaðs söluhagnaðar af sölu aflahlutdeildar.

11. október 2005
T-Ákv. 05-005

Ríkisskattstjóri móttók fyrirspurn yðar 29. desember 2004. Í fyrirspurninni er sett fram dæmi um félag sem selur aflaheimild á ári núll með söluhagnaði og fer fram á frestun um tvenn áramót. Á ári eitt er félagið rekið með tapi sem er umfram frestaðan söluhagnað. Farið þér fram á að ríkisskattstjóri svari því hvort félaginu sé heimilt að tekjufæra frestaðan söluhagnað til lækkunar á yfirfæranlegu tapi eða hvort félaginu sé skylt að fresta söluhagnaðinum um tvenn áramót þar sem óskað hafi verið eftir slíkum fresti óháð afkomu á ári eitt. Í framhaldi af þessu spyrjið þér hvort taka eigi tillit til álags ef söluhagnaðurinn er tekjufærður á ári eitt og við hvaða prósentu eigi þá að miða.

Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003, er eigi heimilt að fyrna stofnkostnað við kaup á réttindum sem ekki rýrna vegna notkunar. Til stofnkostnaðar samkvæmt ákvæði þessu telst m.a. keyptur réttur til nýtingar á náttúruauðæfum, svo sem kaup á varanlegri aflahlutdeild og sambærilegum réttindum. Í 3. mgr. lagagreinar þessarar er mælt svo fyrir að um hagnað vegna sölu á ófyrnanlegum réttindum samkvæmt 1. mgr. greinarinnar fari samkvæmt 5. og 6. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003.

Ákvæði 5. og 6. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, áður 5. og 6. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981, komu inn í lög nr. 75/1981 með 1. gr. laga nr. 118/1997, um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum. Í 5. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003, er mælt svo fyrir að hagnaður af sölu þeirra réttinda sem um ræðir í 48. gr. teljist að fullu til tekna á söluári og skipti ekki máli hve lengi skattaðili hafi átt hin seldu réttindi. Hagnaður af sölu teljist mismunur á söluverði annars vegar og kaupverði, eftir að frá hafi verið dregnar fengnar fyrningar og niðurfærsla samkvæmt 6. mgr. Þá er nánar kveðið á um ákvörðun hagnaðarins í málsgrein þessari. Í 6. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003 er mælt svo fyrir að á því ári sem skattskyldur hagnaður af sölu aflahlutdeildar eða sambærilegra réttinda í sjávarútvegi samkvæmt 5. mgr. færist til tekna sé skattaðila heimilt að færa niður stofnverð aflahlutdeildar, sem keypt hafi verið á tekjuárinu eða á síðustu 12 mánuðum áður en salan fór fram, um fjárhæð sem nemi hinum skattskylda söluhagnaði. Þá geti skattaðili farið fram á frestun skattlagningar söluhagnaðarins um tvenn áramót, enda kaupi hann aflahlutdeild í sjávarútvegi innan þess tíma og færi hana niður um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Sé aflahlutdeild ekki keypt innan tilskilins tíma samkvæmt málsgreininni teljist söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því að hann myndaðist, að viðbættu 10% álagi. Niðurfærsla eða frestun tekjufærslu samkvæmt málsgreininni sé því aðeins heimil að yfirfæranleg rekstrartöp hafi verið jöfnuð.

Sá hluti ákvæðis 6. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sem fjallar um frestun skattlagningar söluhagnaðar um tvenn áramót og tekjufærslu söluhagnaðarins á öðru ári frá því að hann myndaðist, að viðbættu 10% álagi, er efnislega samhljóða ákvæði 14. gr. laganna sem áður var 13. gr. laga nr. 75/1981. Í Handbók um tekjuskatt og eignarskatt, sem ríkisskattstjóri gaf út í mars 1996, er í kafla 3.8.8.2 gerð grein fyrir túlkun og skýringum ríkisskattstjóra á þeim álitaefnum sem á reynir í máli þessu varðandi frestun skattlagningar fyrnanlegra eigna. Þar segir m.a.:

Ef ekki er aflað … fyrnanlegra eigna innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn eða eftirstöðvar hans með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því hann myndaðist að viðbættu 10% álagi skv. 1. mgr. 13. gr. SL. Ekki [skiptir] máli varðandi beitingu álags þótt tap hafi verið á næstu tveimur árum á eftir söluári. Sé óskað eftir að söluhagnaðurinn sé skattlagður á fyrra ári frestsins þótt ekki hafi verið keyptar fyrnanlegar eignir skal fallast á það en 10% álag bætist við framreiknaðan söluhagnað.

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 422/2002 var staðfest að verklagsregla þessi rúmaðist innan orðalags 1. mgr. 13. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem eins og áður segir er að þessu leyti efnislega samhljóða ákvæði 6. mgr. 15. gr. núgildandi laga nr. 90/2003. Með hliðsjón af framangreindu og svo að samræmis gæti í skýringum á fyrrgreindum ákvæðum bæri að fallast á ósk félagsins um skattlagningu söluhagnaðar á fyrra ári frestsins en 10% álag myndi bætast við söluhagnaðinn. Engin heimild er til að nota aðra og lægri prósentu.

Beðist er velvirðingar þeim drætti sem orðið hefur á afgreiðslu fyrirspurnar þessarar.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum