Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 003/2005

26.8.2005

Um gildistöku afnáms eignarskatts á félög sem hafa annað reikningsár

26. ágúst 2005
T-Ákv. 05-003

Ríkisskattstjóra hafa borist fyrirspurnir varðandi það hvernig skuli haga álagningu eignarskatts hjá félögum sem hafa annað reikningsár en almanaksárið með hliðsjón af afnámi eignarskatts skv. lögum nr. 129/2004. Ríkisskattstjóri hefur af því tilefni gefið eftirfarandi álit.

Með 17. gr. laga nr. 129/2004, m.a. um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, var felld niður 79. gr. þeirra laga. Samkvæmt gildistökuákvæði 4. mgr. 149. gr. fyrrnefndu breytingalaga tekur niðurfelling 79. gr. laga nr. 90/2003 gildi 31. desember 2005. Það þýðir að eignarskattur á félag sem er með almanaksárið sem reikningsár ákvarðast ekki í árslok 2005 og verður því eignarskattur álagður í síðasta sinn á gjaldárinu 2005 vegna eignaskattsstofns í lok ársins 2004.

Í verklagsreglum ríkisskattstjóra, sem gefnar voru út 31. mars 2004 um heimild til að miða tekjuskatt og eignarskatt félaga við annað reikningsár en almanaksárið, framtalsskil slíkra félaga og álagningu opinberra gjalda á þau svo og samsköttun samstæðna segir að:

þær skattareglur sem voru í gildi við lok reikningsárs þess gilda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts. Á þetta m.a. við um skatthlutfall og fyrningar.

Álagningu eignarskatts á félög sem hafa annað reikningsár en almanaksárið skal því haga þannig:

Eignarskattsstofn skal ákvarða við lok reikningsárs viðkomandi félags, sbr. 78. gr. laganna. Afnám eignarskatts tekur ekki gildi fyrr en 31. desember 2005 og tekur því ekki til ákvörðunar skatts á eignir miðað við stöðu þeirra fyrir þann tíma. Álagningu skal því hagað samkvæmt þeim eignarskattsstofni, er ákvarðast í lok reikningsárs sem hefst á árinu 2004 og lýkur á árinu 2005, á grundvelli þágildandi 79. gr. laga nr. 90/2003, hvort heldur sú álagning fer fram á árinu 2005 eða 2006, sbr. auglýsingu ríkisskattstjóra um fresti til að skila framtölum, sbr. 3. gr. auglýsingar nr. 5/2005. Álagning skal fara fram í samræmi við auglýsingu fjármálaráðherra, sbr. 1. gr. auglýsingar nr. 29/2005, sbr. og fyrrnefnt bréf ríkisskattstjóra, dags. 30. mars 2004.

Afnám eignarskatts skv. lögum nr. 129/2004, kemur þannig ekki til framkvæmda hjá þessum félögum fyrr en með skattskilum þeirra vegna reikningsárs sem hefst á árinu 2005 og lýkur á árinu 2006 en í lok þess reikningsárs hafa tekið gildi ákvæði 4. mgr. 149. gr. laga nr. 129/2004 um niðurfellingu 79. gr. laga nr. 90/2003 um ákvörðun eignarskattsstofns.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum