Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 001/2003

15.1.2003

Frískattkort

15. janúar 2003
T-Ákv. 03-001
2003-01-0206

Undanfarið hafa tilteknir starfsmenn [X…] óskað eftir útgáfu svokallaðs frískattkorts hjá embætti ríkisskattstjóra vegna tekna ársins 2003. Hingað til virðast slík kort hafa verið gefin út athugasemdalaust til þessara aðila, og hugsanlega fleiri í sömu stöðu, á þeirri forsendu að um hafi verið að ræða einstaklinga sem búsettir eru erlendis. Handhöfn frískattkorts veitir algera undanþágu frá staðgreiðslu opinberra gjalda á Íslandi.

Náin skoðun á íslenskum skattalögum og þeim samningum, sem íslenska ríkið hefur gert við erlend ríki til að koma í veg fyrir tvísköttun aðila sem búsettir eru erlendis en starfa utan heimilisfestarríkis, hefur leitt í ljós að útgáfa frískattkorta til flugliða, sem búsettir eru erlendis en starfa á vegum [X…] um borð í loftförum flugfélagsins, var oftast reist á röngum forsendum. Samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn Íslands eru loftför [X…] öll skráð hér á Íslandi. Þetta leiðir til þess að hver sá sem starfar um borð í slíku loftfari ber ýmist fulla eða takmarkaða skattskyldu hér á landi af tekjum sem af því starfi hljótast óháð búsetu sinni, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. og 1. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda jafngildir starf um borð í íslensku loftfari starfi sem leyst væri af hendi á íslenskri grund. Nánari afmörkun skattskyldunnar fer eftir því hvort dagafjöldi ferða viðkomandi starfsmanns fyrir [X…] fer fram úr 183 dögum á sérhverju tólf mánaða tímabili.

Þegar af framangreindri ástæðu liggur ljóst fyrir að ekki er unnt að veita umræddum starfsmönnum [X…] skattkort sem undanþiggur þá algerlega skyldu til að þola afdrátt staðgreiðslu opinberra gjalda á Íslandi. Þeir sem starfa um borð í íslensku loftfari bera hér skattskyldu og launagreiðanda ber að halda eftir tekjuskatti og útsvari launamanna og skila í staðgreiðslu í samræmi við ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, óháð búsetu viðkomandi. Það skal þó tekið fram að regla þessi gildir hvorki um Norðurlönd þar sem samkvæmt innbyrðis tvísköttunarsamningi Norðurlandanna er skattlagningarrétturinn í þessum tilvikum hjá búsetulandinu né um Þýskaland á sömu forsendum. Séu flugliðar þannig búsettir á hinum Norðurlöndunum eða Þýskalandi geta þeir fengið útgefið svonefnt frískattkort með skírskotun til ákvæða tvísköttunarsamninga þeirra sem nefndir voru.

Ríkisskattstjóri hefur í öðrum tilvikum, í stað frískattkorta, gefið nokkrum starfsmönnum [F…], sem starfa sem flugliðar fyrir félagið en eru búsettir erlendis, skattkort með eftirfarandi áletrun: Persónuafsláttur reiknast hlutfallslega miðað við ferðir í loftförum skráðum á Íslandi. Eins og orðalagið gefur til kynna veitir handhöfn slíks skattkorts persónuafslátt fyrir þá daga sem unnið er um borð í loftfari og þá daga sem unnt er að skilgreina sem ferðadaga á vegum félagsins, svo sem ef um er að ræða gistinætur að heiman meðan beðið er heimferðartíma. Það kemur í hlut launagreiðanda að reikna út persónuafslátt og halda til haga gögnum varðandi ferðir starfsmanna sem svona er háttað um. Er mikilvægt að gögn um þetta sé varðveitt með skipulegum hætti þar sem upplýsingum þessum þarf að skila til skattstjóra með vísan til 92. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, í ársbyrjun vegna ferða liðins árs.

Rísi frekari spurningar varðandi tilhögun og útreikning á staðgreiðslu opinberra gjalda mun embætti ríkisskattstjóra veita svör við fyrirspurnum sem kunna að vakna.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum