Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 002/2002

22.2.2002

Skattalega meðferð fjárgreiðslu vegna verðmæta eða

22. febrúar 2002 T-Ákv. 02-002 2002-02-0442

Ríkisskattstjóri móttók þann 12. febrúar 2002 fyrirspurn A, hdl.,dagsett sama dag.

Í fyrirspurn lögmannsins kemur fram að til meðferðar sé ágreiningsmál fyrir dómi sem varði lífeyrisréttindi hjóna við skilnað. Þá segir:

Meginreglan er sú að réttindi aðila í lífeyrissjóðum eru persónubundin og tilheyra þeim sem þau á og koma ekki til skipta við skilnað. Við skilnað er í vissum tilvikum heimilt að bæta bæta (sic) því hjóna sem ekki á réttindin það með fjárgreiðslu sbr. 2. mgr. 102. gr. hjskl.

Undirrituð rekur nú mál fyrir dómi þar sem gerð er krafa um fjárgreiðslu á grundvelli framangreinds ákvæðis. Lífeyrisréttindi umbj. míns hafa verið núvirðisreiknuð og eru talin að höfuðstólsverðmæti ca. 8.500.000. Gerð er krafa um að umbj. minn greiði gagnaðila (konunni) ca. 4.250.000 vegna þessa. Umbj. minn mun ekki hefja töku lífeyris fyrr en e. 15 ár og eru greiðslur úr lífeyrissjóði hans skattskyldar hjá honum við útborgun þeirra.

Verði umbj. minn dæmdur til að greiða konunni framangreinda fjárhæð er óskað eftir svari ríkisskattstjóra við því hvort um sé að ræða skattskyldar tekjur hjá konunni.

Af málavaxtalýsingu fyrirspurnarinnar verður ráðið að gagnaðili geri kröfu fyrir dómi um að honum verði dæmd fjárgreiðsla sem nemi helmingi af núvirðisreiknuðu höfuðstólsverðmæti lífeyrisréttinda umbjóðanda lögmannsins. Byggir krafa gagnaðila á ákvæði 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Lífeyrisréttindi mynda ekki skattskyldar tekjur í hendi þess sem á réttindin. Hins vegar mynda lífeyrisgreiðslur skattskyldar tekjur í hendi þess sem fær þær greiddar, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Við útborgun lífeyrisins mun umbjóðandi lögmannsins þannig sæta skattlagningu lífeyrisins.

Við skilnað er hjónum skylt að gera fjárskiptasamning og gilda um hann tilteknar lagareglur í hjúskaparlögum nr. 31/1993. Fjárskiptasamningur er persónulegur samningur milli hjóna um það hvernig tekjum og eignum, sem myndast hafa í hjónabandi, skuli skipt við skilnað. Aðeins er um skiptasamning að ræða en ekki afhendingu eigna sem jafnað verður við sölu, arftöku eða þess háttar. Eignir sem koma í hlut hvors maka um sig leiða því ekki til sérstakrar skattlagningar í hendi þess.

Skattyfirvöld líta svo á að lífeyrisréttindi sem myndast á hjúskapartíma séu hluti af heildareignum bús. Að því virtu telst fjárgreiðsla, sem ætlað er að bæta öðrum makanum það að lífeyrisréttindum sé haldið utan skipta, hluti af samkomulagi hjóna um það hvernig eignum búsins skuli skipt. Fjárgreiðslan myndar þannig ekki skattskyldar tekjur í hendi þess sem móttekur greiðsluna.

Tekið skal fram að svar embættisins við fyrirspurn þessari er ekki bindandi álit í skilningi laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum