Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 009/2001

12.12.2001

Afturköllun bréfs. Blaðamenn og fjölmiðlafólk. Áskrift af fjölmiðlum og afnotagjald síma. Skattaleg viðhorf.

12. desember 2001 T-Ákv. 01-009 2001-10-0615

Ríkisskattstjóri hefur afturkallað bréf sitt, dags. 10. júlí 1995 til Blaðamannafélags Íslands. Í bréfinu var fjallað um skattaleg viðhorf varðandi ókeypis áskrift blaðamanna að fjölmiðlum og afnotagjald af síma og fram kom að ríkisskattstjóri taldi að ekki bæri að tekjufæra til skatts slík afnot fréttamanna sem hlunnindi þeirra eða launatekjur.

Samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt teljast til skattskyldra tekna endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Hér teljast til dæmis hvers konar biðlaun, starfslaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, eftirlaun, og lífeyrir, fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki.

Í samræmi við þetta ber blaðamönnum og fjölmiðlafólki almennt að standa skil á skatti vegna afnotagjalds síma sem vinnuveitandi greiðir og endurgjaldslausrar áskriftar af fjölmiðlum sem atvinnurekandi leggur til. Þetta á við um áskrift sem nýtist á heimili viðkomandi einstaklings. Blöð eða tímarit, sem eru til afnota og skoðunar á vinnustað, teljast ekki til skattskyldra hlunninda. Ekki skiptir máli hvort um er að ræða áskrift að fjölmiðlum í eigu vinnuveitanda eða aðra fjölmiðla.

Ríkisskattstjóri hefur sent fjölmiðlum bréf þess efnis að þeim sé skylt að halda eftir staðgreiðslu af þessum fríðindum í samræmi við lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Jafnframt var því beint til Blaðamannafélags Íslands að kynna félagsmönnum sínum, sem þiggja slík fríðindi starfs síns vegna, breyttan skilning ríkisskattstjóra á skattlagningu ofangreindra fríðinda. Þá var því komið á framfæri við Blaðamannafélag Íslands að ríkisskattstjóri liti svo á að áskrift að fjölmiðlum gæti ekki verið rekstrarkostnaður í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt nema hún sé talin starfsmanni til tekna. Útlagður kostnaður sjálfstætt starfandi fréttamanna vegna áskriftar að fjölmiðlum telst einungis frádráttarbær rekstarkostnaður í skilningi 31. gr. laga nr. 75/1981, sbr. ofanritað, að því marki sem ekki er um persónulegan kostnað að ræða.

Umrædd fríðindi koma því til skattlagningar sem laun í samræmi við 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum