Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 007/2001

25.10.2001

Skattlagning skaðabóta vegna líkamstjóns.

25. október 2001 T-Ákv. 01-007 2001-10-0535

Af gefnu tilefni telur ríkisskattstjóri rétt að fram komi hvernig skattalegri meðferð skaðabóta vegna líkamstjóns skuli hagað.

Skaðabætur teljast almennt til tekna, sbr. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og mynda einnig stofn til útsvars, sbr. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Bætur eru staðgreiðsluskyldar, sbr. 3. og 7. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og ber því að innheimta tekjuskatt og útsvar við staðgreiðslu, sbr. 2. gr. laga nr. 45/1987. Þó teljast bætur fyrir varanlega örorku og miska sem ákveðnar eru í einu lagi til greiðslu ekki til tekna, sbr. 2. tölul. 28. gr. laga nr. 75/1981 og mynda því hvorki stofn til tekjuskatts né útsvars.

Meginregla skattalaga er sú að tekjur skuli telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981. Skaðabætur eru óvissar tekjur allt þar til þær eru gerðar upp og ákveðnar hvort heldur er með dómi eða samið er um þær, en þá fellur jafnframt skaðabótakrafan í gjalddaga.

Við gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993 í júlíbyrjun 1993 varð lögbundið að umreikna skaðabætur vegna tjóns er varð eftir gildistöku laganna á tvenns konar hátt, sbr. 15. og 16. gr. laganna.

Annars vegar skulu fjárhæðir bóta vegna varanlegs miska, þjáningabóta og missis framfæranda breytast mánaðarlega í samræmi við lánskjaravísitölu sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna. Fjárhæðir bóta vegna varanlegrar örorku skyldu þó vera umreiknaðar miðað við breytingar á lánskjaravísitölu frá því að tjón varð og þar til bótafjárhæð var ákveðin, sbr. 2. mgr. 15. gr. Í athugasemdum við frumvarp til skaðabótalaga kom fram að umreiknun bóta vegna varanlegrar örorku væri ætlað að tryggja að bætur rýrnuðu ekki að verðgildi frá því að tjón varð þar til bótafjárhæð væri ákveðin með samningi eða dómi. Breytingar á skaðabótalögum, sem tóku gildi 1. maí 1999, leiddu til þess að frá og með gildistöku laganna skyldi umreikna bætur vegna varanlegrar örorku eins og bætur samkvæmt 1. mgr. 15. gr., þ.e. fjárhæð bóta vegna varanlegrar örorku skyldi ákveðin á grundvelli fjárhæða sem giltu þegar bótafjárhæð er ákveðin. Í athugasemdum við frumvarp til umræddra breytingarlaga segir að nú skuli reikna bætur fyrir varanlega örorku miðað við verðlag á þeim tíma þegar heilsufarslegt ástand tjónþola sé orðið stöðugt. Leiðrétting launaviðmiðunar skv. 1. mgr. 7. gr. laganna miðast við þann dag og því átti lokamálsliður 2. mgr. 15. gr. ekki lengur við. Samkvæmt því sem að framan greinir getur umreiknun fjárhæða sem kveðið er á um í 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ekki talist til vaxtatekna, enda er verið að framreikna grunnfjárhæðir sem kveðið er á um í lögunum. Eingöngu er verið að reikna út þann höfuðstól, sem miða á við þegar skaðabætur eru ákvarðaðar. Því er ekki um verðbætur að ræða í skilningi 8. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt heldur hluta bótafjárhæðar, sem lýtur skattlagningu sem skaðabætur.

Hins vegar kveða skaðabótalög nr. 50/1993 á um að bætur samkvæmt lögunum beri tiltekið hlutfall ársvaxta frá því að tjón varð til gjalddaga kröfunnar, sbr. 16. gr. laganna. Í athugasemdum við lagafrumvarpið kemur fram að þannig sé stefnt að því annars vegar að tjónvaldur hagnist ekki á því að mál dragist á langinn og hins vegar að vextir bæti tjónþola það upp að einhverju eða öllu leyti að hann fái ekki höfuðstól skaðabótanna fyrr en nokkur tími er liðinn frá því að tjón varð. Þannig eigi ekki að skipta máli um upphafstíma vaxta hvenær bótakrafa telst falla í gjalddaga. Með nefndum breytingum á skaðabótalögunum, sem tóku gildi 1. maí 1999, var 1. mgr. 16 breytt á þann veg að nú skyldu bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska, tímabundið atvinnutjón og missi framfæranda bera vexti frá því að tjón varð en bætur fyrir varanlega örorku bera vexti frá upphafsdegi metinnar örorku. Vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaganna er þannig, eins og áður sagði, ætlað að bæta tjónþola það upp að hann fær ekki höfuðstól skaðabótanna fyrr en nokkur tími er liðinn frá því að tjón varð. Vextirnir, sem leggjast á bætur til tjónþola frá tjónsdegi til gjalddaga, eru því tekjur af skaðabótakröfu tjónþola og sem slíkir mynda þeir skattskyldar tekjur í hendi tjónþola í samræmi við 2. mgr. 8. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og teljast til fjármagnstekna samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Hvað varðar dráttarvexti af skaðabótum þá skulu þeir ákveðnir samkvæmt vaxtalögum, sbr. 2. mgr. 16. gr. skaðabótalaga. Dráttarvextir af skaðabótum vegna líkamstjóns mynda stofn til fjármagnstekjuskatts, enda er þeim ætlað að bæta tjónþola það tjón sem almennt má ætla að greiðsludráttur baki honum án þess að hann þurfi að sanna það tjón sérstaklega. Þannig ber að innheimta fjármagnstekjuskatt við greiðslu dráttarvaxta, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. og 4. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum.

Eins og fram hefur komið í bréfi þessu eru skattskyldar skaðabætur staðgreiðsluskyldar sbr. 3. og 7. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í 7. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987 segir að greiðslur skv. 1. - 6. tölul. þessarar greinar, sem inntar eru af hendi að gengnum úrskurði stjórnvalda, dómi, dómsátt eða öðru samkomulagi eftir að raunverulega launatímabili lýkur, teljist til launa. Ákvæði þetta virðist hafa gefið tilefni til að ætla, að dæmdar bætur séu í heild staðgreiðsluskyldar samkvæmt umræddu ákvæði laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og að innheimta skuli staðgreiðslu opinberra gjalda af allri fjárhæð skaðabóta sem kemur til útborgunar að uppgjöri loknu þ.e. framreiknuðum höfuðstól ásamt vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga. Að mati ríkisskattstjóra er þessi skilningur ekki réttur, enda kemur fram í athugasemdum við frumvarp til laga um breyting á staðgreiðslulögunum, að ákvæði 7. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987 sé ætlað að tryggja að staðgreiðslu skuli draga af dæmdum launakröfum. Ekkert er fjallað um skaðabótakröfur. Ef ákvæðið er skýrt með hliðsjón af tilgangi sínum verður ekki séð að það standi í vegi fyrir því að vextir af skaðabótum, sem ákveðnar eru með úrskurði stjórnvalda, dómi, dómssátt eða öðru samkomulagi, teljist til fjármagnstekna samkvæmt lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og sæti afdrætti staðgreiðslu samkvæmt þeim lögum.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum