Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 008/2000

6.3.2000

Endurgreiðsla útsvars. - Tekjuhugtak skattalaga

6. mars 2000 T-Ákv. 00-008 is 2000-01-0454

Vísað er til bréfs yðar, dags. 14. janúar sl., þar sem ríkisskattstjóra var sent ljósrit fréttar úr Sunnlenska Fréttablaðinu frá 12. janúar sl., sem ber yfirskriftina

Fengu fjórðung útsvars endurgreiddan.

Í bréfi yðar óskið þér álits ríkisskattstjóra á því hvort um skattskyldar tekjur sé að ræða.

Til að varpa ljósi á álitaefnið var tilvitnuð frétt svohljóðandi:

„Útsvarsgreiðendur í Djúpárhreppi sem voru í skilum við „skattinn“ fengu fjórðung, eða 25%, af útsvari sínu endurgreiddan frá hreppnum fyrir jólin.

Þessi siður komst á fyrir hátt í tveimur áratugum og var upphaflega ráðstöfun til að herða á uppgjöri fólks því aðeins þeir sem stóðu í skilum fengu endurgreiðsluna. Þessu hefur síðan verið haldið áfram og ákvörðun um það verið tekin í lok hvers árs. Við lítum svo á að það sé ekki í þágu fólksins að safna skattfénu inn á bækur. Það er svo spurning hvað verður í framtíðinni og hvernig byggt er upp fjölskylduvænt samfélag sem fólk vill búa í, hvort það er gert með því að byggja og bæta hús og eignir eða gera þetta svona, við reyndum að fara bil byggja til að bæta enn búsetuskilyrði í hreppnum og þetta er hluti þess,

segir Heimir Hafsteinsson, oddviti Djúpárhrepps, í samtali við blaðið. Eins og greint hefur verið frá í Sunnlenska hefur verið ákveðið að reisa íþróttahús í Þykkvabæ og nefndi Heimir búsetuskilyrði sem rök fyrir þeirri ákvörðun.

Í Djúpárhreppi er útsvarsprósentan 11,99%. Heimir segir að endurgreiðsla til fólks sé mjög mishá, allt frá því að vera alls engin, hjá þeim sem eru með fullnýttan persónuafslátt, upp í talsverðar fjárhæðir hjá fólki með góðar tekjur.“

Ríkisskattstjóri telur að ef hér er raunverulega um að ræða endurgreiðslu tekjuútsvars eftir hlutlægum reglum, eins og tilvitnuð frétt gefur til kynna, teljist slík endurgreiðsla ekki til skattskyldra tekna samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þessi niðurstaða er háð þeirri grunnforsendu að endurgreiðslureglan sé hlutlæg og í beinum tengslum við skattinn sem slíkan, en ekki önnur atvik. Þannig yrði ekki fallist á að unnt væri að klæða ýmsar bóta- og styrkgreiðslur í þann búning að um endurgreiðslu skatta væri að ræða. En eins og málið liggur fyrir virðist ekki ástæða til að ætla annað en hér sé í reynd um endurgreiðslu á skatti að ræða sem myndar ekki tekjur sem slík, heldur yrði litið á greiðsluna sem hluta af endanlegri skattákvörðun.

Þar sem heimildum sveitarfélaga til ákvörðunar útsvarshlutfalls eru settar ákveðnar skorður samkvæmt lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, ritaði ríkisskattstjóri félagsmálaráðuneytinu bréf og kynnt því mál þetta. Ríkisskattstjóri taldi það eðlilega málsmeðferð að kynna því ráðuneyti sem fer með sveitarstjórnarmálefni í Stjórnarráði Íslands mál þetta, þar sem endurgreiðslur þessar kunna að brjóta í bága við ákvæði laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Tekið skal fram að félagsmálaráðuneytið hefur þegar skrifað ríkisskattstjóra og kemur þar fram að ráðuneytið er, miðað við þau gögn sem liggja fyrir í máli þessu, sammála ríkisskattstjóra um eðli þeirra greiðslna sem hér um ræðir. Um afskipti ráðuneytisins og lyktir málsins að öðru leyti liggur ekki fyrir annað en það, að málið er til frekari skoðunar í félagsmálaráðuneytinu.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum