Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 003/2000

24.1.2000

Fyrirspurn um það hvenær atvinnustarfsemi einstaklings telst lokið.

24. janúar 2000 T-Ákv. 00-003 is 1998-07-230.0

Með bréfi, dags. 18. desember 1998, framsendið þér fyrirspurnarbréf,dags. 11. desember 1998, frá gjaldanda í umdæmi yðar þar sem óskað er skriflegra svara varðandi skilgreiningu á því hvenær atvinnustarfsemi einstaklings telst lokið. Í bréfinu eru tiltekin þrjú atriði sem beðið er um svar við, bæði almennt og sértækt.

Það er álit ríkisskattstjóra að atvinnurekstri einstaklings sé lokið þegar hann lætur af þeirri tekjuöflun sem atvinnureksturinn snérist um. Þannig að einstaklingur með t.d. verslun telst hafa lokið atvinnurekstri sínum þegar hann lokar verslun sinni til frambúðar og hefur gengið í framhaldi af því frá sölu eigna sem tilheyrðu atvinnurekstrinum eða hættir að nota þær til tekjuöflunar. Söluandvirði eigna sem kemur fram á loka rekstrarreikningi hefur áhrif á tekjur eða rekstrartap. Ennfremur ber einstaklingi að verðmeta þær eignir sem hann selur ekki eins og um sölu sé að ræða, og færa til tekna söluhagnað sem kann að myndast og gera upp virðisaukaskatt í samræmi við það mat eftir því sem við á. Þegar rekstri einstaklingsfyrirtækis er hætt skal t.d. skattleggja allar fyrningar sem maður hefur fengið umfram almennar fyrningar samkvæmt 38. gr. laga nr. 75/1981, svo og færa til tekna söluhagnað sem ekki hefur verið skattlagður samkvæmt heimild lögum. Eigið fé á efnahagsreikningi (höfuðstóll) telst tekið út af eiganda þ.m.t. skuldaviðurkenningar (verðbréf) sem söluandvirðið hefur verið greitt með svo og aðrar eignir sem óseldar eru eða eigandi tekur til eigin nota, t.d. bifreið. Líta verður á úttekt einstakra eigna og yfirfærslu þeirra á persónuframtal á því verðlagi sem eignirnar fá samkvæmt framangreindu mati í loka rekstrar- og efnahagsreikningi, þ.e.a.s. þær ber að verðmeta eins og um sölu sé að ræða.

Þær atvinnurekstrareignir sem óseldar eru í árslok og eftirstöðvar verðbréfa færast til eignar í árslok á persónuframtal eiganda svo og skuldir sem hann yfirtekur. Vaxtatekjur og vaxtagjöld sem falla til eftir lok rekstrar færast ennfremur á persónuframtalið. Öll viðskipti með yfirteknar eignir í formi úttekins höfuðstóls svo og greiðsla skulda og vaxta af þeim teljast vera á vegum einstaklingsins eftir að formleg lok atvinnurekstrar hafa farið fram.

Bent skal á að það telst lok atvinnurekstrar einstaklings þótt hann stofni einkahlutafélag sem tekur við rekstrinum og eignum hans og er vísað í því sambandi til verklagsreglna ríkisskattstjóra um stofnun einkahlutafélaga með yfirtöku einstaklingsreksturs, dags. 4. desember 1997.

Einstökum atriðum í bréfi fyrirspyrjanda er svarað á þessa leið:

Leigutekjur af veiði í á sem tilheyrir bújörð í eigu einstaklings sem ekki er með búrekstur teljast tekjur samkvæmt 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, þ.e. fjármagnstekjur, sbr. úrskurð Yfirskattanefndar nr. 566/1999 og 568/1999. Þó geta slíkar tekjur fallið undir B-lið 7. gr. fyrr nefndra laga, þ.e. sem tekjur af atvinnurekstri, ef önnur atriði í framtalsskilum viðkomandi styðja það að um atvinnurekstur sé að ræða hjá honum. Á móti þessum leigutekjum (fjármagnstekjum) leyfist enginn frádráttur og skiptir ekki máli þó leigan fari fyrst um hendur veiðifélagsins. Ekki skiptir heldur máli í þessu sambandi þótt bújörðin sé leigð til atvinnustarfsemi til annars aðila

Vaxtatekjur sem falla til eftir að rekstri er lokið, sbr. svar hér að framan, teljast til persónulegra vaxtatekna viðkomandi einstaklings.

Einstaklingur hefur ávallt heimild til að taka út af höfuðstól atvinnurekstrar síns í formi peninga, peningalegra eigna eða rekstrareigna (sbr. framansagt um mat þeirra og uppgjör virðisaukaskatts) án tillits til þess hvort höfuðstóll hans hefur orðið til af innborgunum eða af rekstrarhagnaði.

Beðist er velvirðingar af óhæfilegum drætti við að svara þessari fyrirspurn.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum