Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 024/1999

9.12.1999

Fyrirspurn varðandi hlutabréf og ráðstöfun söluhagnaðar.

9. desember 1999 T-Ákv. 99-024 is

Með bréfi yðar, dags. 5. maí 1999, óskið þér staðfestingar á túlkun Deloitte & Touche, endurskoðunar h.f. á 5. mgr. 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 95/1998. Í bréfinu kemur eftirfarandi fram:

“Deloitte & Touche, endurskoðun hf., hefur litið svo á að þegar í3. ml. 5. mgr. 17. gr. er talað um kaup á öðrum hlutabréfum í stað seldra bréfa þá skipti ekki máli hvort um sé að ræða íslensk eða erlend hlutabréf, svo lengi sem fullnægt sé því skilyrði að um sé að ræða hlutabréf sem falli að almennum viðskiptareglum sem um slík bréf gilda.

Óskað er eftir staðfestingu embættisins á framangreindri túlkun, sem er reyndar í samræmi við þær reglur er gilda um ráðstöfun söluhagnaðar einstaklinga skv. 2. ml. 7. mgr. 17. gr. sömu laga.”

Það er álit ríkisskattstjóra að kaup eða sala á erlendum hlutabréfum hafa verið talin jafngild kaupum eða sölu á innlendum hlutabréfum með tilliti til frestunarheimildar 5. mgr. 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þetta á þó ekki við ef ákvæði tvísköttunarsamninga leiða til þess að hagnaður af sölu hinna erlendu hlutabréfa skuli skattleggjast í öðru ríki en á Íslandi eða viðkomandi aðili verður ekki lengur skattskyldur á Íslandi áður en kaupin fara fram. Þá þykir rétt að taka fram að heimild til frestunar skattlagningar söluhagnaðar skv. 5. mgr. 17. gr. er bundin við það að kaup og sala hlutabréfa sé ekki tilgangur félagsins. þ.e. að tekjur af sölunni teljist til tekna skv. C-lið 7. gr. laganna en ekki skv. B-lið 7. gr.

Þá er það skilyrði að um lögformlega skráð og starfandi hlutafélag sé að ræða. Að jafnaði ber að hafa á reiðum höndum staðfestingu um tilvist félagsins, kaupin á bréfunum, verð og skilmála á skjalfestan hátt, þannig að unnt sé að leggja þau fram við íslensk skattyfirvöld ef krafist er. Slík gögn þurfa að stafa frá opinberum aðilum. þ.m.t. skattyfirvöldum í viðkomandi ríki.

Meginreglan er þó sú að ekki er gerður greinarmunur á innlendri og erlendri hlutafjáreign í því samhengi sem hér um ræðir.

Að lokum vill embætti ríkisskattstjóra biðjast velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á afgreiðslu máls yðar.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum