Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 022/1999

25.11.1999

Heimild lögaðila til að fresta söluhagnaði af sölu hlutabréfa skv. 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

25. nóvember 1999 T-Ákv. 99-022 is

Með bréfi yðar, dags. 11. júní 1999, farið þér fram á að ríkisskattstjóri gefi álit á því hvernig hann túlki 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt er varðar heimild lögaðila til að fresta tekjufærslu á söluhagnaði hlutabréfa. Lögð er fram sú spurning hvort kaupin verði að eiga sér stað eftir söluna eða hvort rétt sé að líta á reikningsárið í heild. Í bréfinu segir m.a.:

Mjög algengt er í atvinnulífinu að lögaðilum bjóðist að kaupa hlutabréf á góðum kjörum og hagstæðu verði og verði jafnframt að hafa snör handtök við að ákveða kaupin. Stjórnendur félaga geta ákveðið að selja hlutabréf sem félagið á til að fjármagna kaupin á nýju bréfunum m.ö.o. stjórnendur ákveða að kaupa önnur hlutabréf í stað hinna seldu. Er nauðsynlegt að salan á eldri hlutabréfunum eigi sér stað á undan kaupunum eða er það nægjanlegt að viðskiptin eigi sér stað innan ársins. Raunveruleikinn í atvinnulífinu er þannig að salan á hlutabréfum á sér oft stað á eftir kaupunum.

Það er álit ríkisskattstjóra að kaup á hlutabréfum megi fara fram áður en sala annarra hlutabréfa (með söluhagnaði) hafi farið fram enda eigi þessi viðskipti sér stað á sama reikningsárinu. Þá þykir rétt að taka fram að heimild til frestunar skattlagningar söluhagnaðar skv. 5. mgr. 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er bundin við það að kaup og sala hlutabréfa sé ekki tilgangur félagsins. þ.e. að tekjur af sölunni teljist til tekna skv. B-lið 7. gr. laganna en ekki skv. C-lið 7. gr.

Að lokum vill embætti ríkisskattstjóra biðjast velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á afgreiðslu máls yðar.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum