Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 020/1999

15.11.1999

Fyrirspurn um skattalega meðferð á söluhagnaði rekstraraðila af sölu krókabáts í sóknardagakerfi.

15. nóvember 1999 T-Ákv. 99-020 is

Með bréfi sínu, dags. 16. júní 1999, framsendi skattstjóri Norðurlandsumdæmis eystra ríkisskattstjóra fyrirspurn yðar, dags. 14. apríl 1999, þar sem óskað var eftir áliti á eftirfarandi málsatvikum:

Rekstraraðili sem stundað hefur útgerð krókabáts í sóknardagakerfi ákveður að selja bátinn og samkvæmt reglum um krókabáta í sóknardagakerfi eru öll réttindi til fiskveiða sem báturinn hafði bundin bátnum og fylgja þ.a.l. með í sölunni. Söluverð bátsins með öllum réttindum sóknardagakerfis er 20.000.000 kr. en bókfært verð samkvæmt RSK 4.O1 nemur 4.500.000 kr., vátryggingarverðmæti bátsins nemur 6.000.000 kr. Skattalegur söluhagnaður af sölunni nemur því 15.500.000 kr.

Í þessu sambandi er rétt að benda á að þann 23. desember 1997 tóku gildi ný lög um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með breytingarlögunum var m.a. lögfest ákvæði 50. gr. A. laga nr. 75/1981. um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem fjallað er um aflahlutdeild og sambærileg réttindi. Setning þessara laga leiddi einnig til þess að ákvæði um sölu aflaheimilda voru sett í 5. og 6. mgr. 14.gr. laga. nr. 75/1981. um tekjuskatt og eignarskatt. Við túlkun umræddra ákvæða hefur það verið haft að leiðarljósi að líta ber á veiðiréttindi í sóknardagakerfi sem ófyrnanlega eign þar sem um er að ræða sambærileg réttindi og aflahlutdeild. Í samræmi við það ber því að fara eftir ákvæðum 5. og 6. mgr. 14. gr. nefndra laga við meðferð söluhagnaðar.

Í tilefni af bréfi yðar sendir ríkisskattstjóri yður hér með afrit af bréfi embættisins, dags. 28. apríl 1998, þar sem fjallað er um sambærilegt álitaefni.

Sérstaklega er beðist velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á afgreiðslu málsins.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum