Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 017/1999

12.11.1999

Skattlagning erlendra skemmtikrafta, sem hafa stutta viðdvöl hér á landi.

12. nóvember 1999 T-Ákv. 99-017 is 1999-09-0263

Nokkuð hefur borið á fyrirspurnum til skattyfirvalda, varðandi skattlagningu erlendra nektardansara sem hafa stutta dvöl hér á landi. Af því tilefni hefur ríkisskattstjóri ákveðið að senda skattstjórum meðfylgjandi afrit af bréfi embættisins varðandi skattlagningu slíkra dansara og hvernig skuli staðið að skattskilum þeirra vegna.

Það skal tekið fram að ekki er sjálfgefið að málavextir séu í öllum tilvikum sambærilegir og þeir sem fjallað er um í hjálögðu bréfi. Eftir því sem ríkisskattstjóri kemst næst munu svipað fyrirkomulag þó oftast vera viðhaft. Þykir rétt að gera stuttlega grein fyrir þeim réttarreglum sem hér gilda varðandi skattskil.

Almenna reglan er sú að einstaklingar sem koma hingað til lands til starfa í skemmri tíma en 183 daga samtals á tólf mánaða tímabili bera takmarkaða skattskyldu hér á landi. Oftast mun dvöl þeirra dansara sem hingað koma til að dansa á nektarstöðum aðeins vera nokkrar vikur og bera þeir því takmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt framansögðu.

Um skattlagningu þessara einstaklinga gildir ákvæði 71. gr. laga nr.75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og 3. gr. laganna. Hvað varðar skattalega meðferð er nauðsynlegt að viðkomandi einstaklingur hafi fengið kennitölu hjá Hagstofu Íslands. Þegar hún er fengin skal viðkomandi einstaklingur sækja um skattkort hjá ríkisskattstjóra, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Til þess að unnt sé að gefa út skattkort þurfa að liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar um starfið og það réttarsamband sem það byggist á.

Eftir því sem ríkisskattstjóri kemst næst er réttarsambandi í þessum tilvikum oftast hagað með þeim hætti að taka ber 24,93% skatt af heildartekjum, sem er innheimtur í staðgreiðslu. Skatthlutfall þetta er útsvarshlutfall staðgreiðslu og 13'% tekjuskattur samkvæmt 2. mgr. 2. tölul. 71. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er þá miðað við að dansari komi fram án ákveðinna launa eða þóknunar, en njóti þess í stað afraksturs af slíkri starfsemi. Meðfylgjandi bréf ríkisskattstjóra fjallar um skattlagningu af þessu tagi. Lagaákvæðið gerir ráð fyrir að þegar um er að ræða aðila sem kemur fram í atvinnuskyni til skemmtunar eða keppni án þess að þiggja fyrir það ákveðin laun eða þóknun, en nýtur í þess stað afraksturs af slíkri starfsemi, þá skuli skattlagningu háttað á með þessum hætti. Sérstök athygli skal vakin á því að til skattstofns í öllum tilvikum reiknast heildargreiðslur til viðkomandi dansara, þ.m.t. greiðslur sem inntar eru af hendi til að standa undir ferðum til og frá landinu, húsaleiga, sem greidd er fyrir þá og þóknanir sem kunna að vera greiddar þeirra vegna til annars aðila. Frá skattstofni reiknast enginn frádráttur vegna kostnaðar eða annars og ekki dregst persónuafsláttur Frá reiknuðum skatti. Gert er ráð fyrir að þegar viðkomandi dansari lýkur störfum skuli auk staðgreiðsluskila gerð skil á almennu skattframtali vegna viðkomandi einstaklings.

Með vísan til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1987, ber að líta að þann veitingastað sem gengst fyrir nektardansi sem launagreiðanda í skilningi staðgreiðslulaga. Sá launagreiðandi ber ábyrgð á þeim opinberu gjöldum sem hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir samkvæmt lögunum. Með sama hætti ber að skila tryggingagjaldi af sama stofni samkvæmt 1. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald.

Í opinberri umræðu hefur því verið haldið fram að mikil vanhöld séu á því að lögbundnum sköttum sé skilað í ríkissjóð vegna þessara dansara. Af því tilefni vill ríkisskattstjóri beina því til skattstjóra að þeir geri reka að því hver í sínu umdæmi að ganga úr skugga um að skattskilum sé hagað í samræmi við lög. Ríkisskattstjóri vill jafnframt vekja athygli á leiðbeiningum um skattlagningu erlendra listamanna en þær er að finna á heimasíðu embættisins. Þá skal getið um það að unnið er að þýðingu á leiðbeiningum á ensku, auk þess sem gert er ráð fyrir að hannað verði sérstakt framtal vegna þeirra sem bera takmarkaða skattskyldu. Þar til það liggur fyrir ber að hafa fyrirkomulag eins og að framan greinir.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum