Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 015/1999

5.11.1999

Fyrirspurn um skattalega meðferð á fjárframlagi frá landbúnaðarráðuneytinu.

5. nóvember 1999 T-Ákv. 99-015 is

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar, dags. 1. febrúar 1999. Með bréfinu fylgdi leigusamningur. Aðilar að þessum samningi eru annars vegar landbúnaðarráðherra f.h. jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins sem leigusali og hins vegar bréfritari og A, kt. [...]sem leigutakar.

Í 3. gr. samningsins kemur þetta fram:

Jörðin er leigð leigutökum til reksturs sumar/vetrardvalarheimilis fyrir fatlaða og til annarra leiguliða nota, sbr. 4. gr. Leigusala er kunnugt um að Fjárfestingarfélagið B ehf., kt. [...] mun annast rekstur sumar/vetrardvalarheimilisins og gerir ekki athugasemdir við það.

Ennfremur segir m.a. í 6. gr. samningsins:

Leigutakar hafa kynnt sér ástand jarðarinnar og mannvirkja á henni. Leigutakar skuldbinda sig til að halda ræktun og íbúðar- og útihúsum við, þannig að þau rýrni ekki að verðmæti frá því sem nú er. Leigutakar skuldbinda sig til að framkvæma endurbætur á mannvirkjum jarðarinnar gegn fjárframlagi úr hendi leigusala að fjárhæð kr. 500.000. Einnig skuldbinda leigutakar sig til að framkvæma endurbætur á mannvirkjum jarðarinnar á eigin kostnað.

Í framangreindu bréfi kemur fram að leigutakar hafa framselt þessar 500þúsund kr. til B ehf. sem mun annast endurbæturnar. Í framhaldi af þessu er í bréfinu spurt hvort það sé rétt skilið að leigutakar sem einstaklingar þurfi ekki að greiða tekjuskatt af umræddri fjárhæð.

Fallist er á að um réttan skilning sé að ræða hjá fyrirspyrjanda. Eðlilegt þykir í þessu sambandi að tekjufæra umrædda fjárhæð í rekstrarreikningi einkahlutafélagsins til gjalda kæmi kostnaður vegna viðhalds og endurbóta.

Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á afgreiðslu þessa máls.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum