Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 007/1999

16.4.1999

Verðmat á framleiðslurétti í landbúnaði.

16. apríl 1999 T-Ákv. 99-007 is

Í framhaldi af samræðum okkar um ofangreint efni sendi ég hér með leiðbeiningar og reglur sem ríkisskattstjóri setti um skattframtalsgerð búvöruframleiðenda vegna yfirstandandi framtalsárs.

Eins og fram kemur í lið 2.7 á bls. 8, sbr. tölulið 6 á bls. 15 íritinu, ber að færa keyptan framleiðslurétt til eignar á kaupverði. Tekur verðið ekki verðlagsbreytingum eins og fyrnanlegar eignir.

Heimilt er að niðurfæra kvóta á 5 árum.

Keyptur framleiðsluréttur, hvort sem um er að ræða mjólkurkvóta eða sauðfjárkvóta, er þannig sýnilegur sem skattstofn.

Öðru máli gegnir um áunninn framleiðslurétt. Þar er ekki um sérgreiningu að ræða að neinu leyti í skattalegum skilningi. Við framsal raungerist verkið á slíkum áunnum rétti og myndar þá stofn til söluhagnaðar. Í samningum um aðilaskipti að bújörðum er söluverð áunnins réttar ákvarðað sérstaklega. Virðist það almenn regla að í slíkum tilvikum og ef um mjólkurkvóta er að ræða sé miðað við verð sem skráð er eða reiknað er út á vegum Framleiðsluráðs. Verð sauðfjárkvóta hefur ekki slíka fasta viðmiðun.

Hafa skattyfirvöld ekki gert ágreining um þessa verðlagningu hvort sem er hjá kaupanda eða seljanda. E.t.v. væri ástæða til þess. Sérstaklega ef innbyrðis verðhlutfall seldra eignarhluta (land, hús, ræktun, bústofn o.þ.l.) verður óeðlilegt við slíka útskiptingu kvótans.

Um sauðfjárkvótann gegnir nú því máli að verulegar hömlur munu vera á eignaskiptum á honum. Þrátt fyrir það virðist hann skipta um eigendur, t.d. við sölu á bújörð í heild og tilgreina skattaðilar verð á honum sín á milli í lögskiptum. Hafa skattyfirvöld ekki treyst sér til að véfengja slíkt verð eða að hamla gegn sérgreiningu kvótans að öðru leyti.

Ríkisskattstjóra er kunnugt um að við veðsetningu bújarða hjá lánastofnunum hafa verið í gangi sérreglur um mat á kvóta.

Fátt er um ágreiningsmál eða úrskurði á þessum vettvangi skattsýslunnar.

Meginreglurnar eru þær sem að framan greinir.

Frekari upplýsingar um skattalega meðferð framleiðsluréttar verður fúslega veittur ef þér teljið þörf á.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum