Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 002/1999

15.1.1999

Dagpeningar flugmanna í innanlandsflugi. Reglur um skattameðferð.

15. janúar 1999 T-Ákv. 99-002 is

Sem svar við bréfi yðar, dags. 7. október sl., sbr. bréf yðar frá 13.janúar sl., og bréf skattstjóra, dags. 9. október sl., um ofangreint efni, skal þetta tekið fram:

Engar sérreglur gilda um skattameðferð á dagpeningagreiðslum sem flugáhafnir í innanlandsflugi njóta frá launagreiðanda. Eiga hér við almennar skattmatsreglur ríkisskattstjóra. Vísast því til skattmats í staðgreiðslu og skattmats er gildir að greiðsluári loknu um þetta atriði.

Nánar tilgreint skal eftirfarandi áréttað:

Þær heimildir sem frádráttur á móti fengnum dagpeningum byggist á eru skattmat og settar reglur. Er þá fyrst að nefna 30. gr. laga nr. 75/1.981, um tekjuskatt og eignarskatt, en þar segir svo í upphafi greinarinnar:

Frá tekjum manna skv. II. kafla laga þessara, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, má draga:

A
Útgjöld að hámarki móttekin fjárhæð ökutækjastyrkja, dagpeninga eða hliðstæðra endurgreiðslna á kostnaði sem sannað er að séu ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda og eru í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra.

Í 6. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, koma svo fram skilyrði fyrir því að halda megi greiðslum launagreiðanda á ferðakostnaði launamanns á hans vegum utan staðgreiðslu. Hljóðar greinin þannig:

Heimilt er að halda utan staðgreiðslu greiðslum launagreiðanda á ferðakostnaði launamanns á vegum hans, þ.m.t. fargjöldum, sem greiddur er samkvæmt reikningi frá þriðja aðila.

Ennfremur er heimilt að halda utan staðgreiðslu dagpeningum og hliðstæðum endurgreiðslum á ferða- og dvalarkostnaði vegna launagreiðanda, enda sé; fjárhæðin innan þeirra marka sem leyfist til frádráttar samkvæmt reglum ríkisskattstjóra, sbr. 1. tölul. 30. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum.

Framangreindar heimildir eru bundnar þeim skilyrðum að fyrir liggi í bókhaldi launagreiðanda, sem og hjá launamanni, gögn um tilefni ferðar og fjölda dvalardaga, fjárhæð ferðapeninga eða dagpeninga eða eftir atvikum reikningar frá þriðja aðila, svo og nafn og kennitala launamanns.

Mat ríkisskattstjóra á þeim fjárhæðum sem falla innan frádráttarmarka, sbr. 3. mgr. framangreindrar greinar, koma svo fram í Skattmati í staðgreiðslu. Hefur slíkt mat verið birt í upphafi hvers árs frá því í janúar 1988. Heimilaður frádráttur á móti dagpeningum hefur svo verið í samræmi við staðgreiðslumatið við gerð skattframtalsins sjálfs. Gildir matið almennt, þ.e. engar sértækar reglur um einstaka hópa, svo sem flugliða, er að finna í því.

Frádráttur á móti dagpeningum til að mæta útgjöldum vegna fæðiskostnaðar innanlands hefur verið ákveðinn þannig að fullur frádráttur, sbr. skattmatið og einnig orðsendingu ríkisskattstjóra til launagreiðenda nr. 3/1998, nemur nú kr. 3.800 á dag ef ferðalag tekur a.m.k. 10 klst. Taki ferðalag skemmri tíma, en þó a.m.k. 6 klst., er hálfur frádráttur, kr. 1.900, leyfilegur.

Sambærilegar reglur gilda varðandi ferðalög erlendis. Frádráttur er þó breytilegur eftir dvalarstað.

Frádráttur á móti greiðslum til að standa straum af kostnaði vegna gistingar innanlands nemur kr. 5.500 fyrir hverja gistinótt, sbr. skattmat og áður tilvitnaða orðsendingu, en frá 94 - 127 SDR-einingum til að standa straum af gistingu erlendis.

Með tilvísun til þess sem að framan greinir, og áréttun á því að engar sérreglur gilda varðandi flugliða í innanlandsflugi.

Venjulegur vinnustaður flugliða telst vera í heimahöfn þess flugfélags sem þeir vinna hjá. Hjá flugliðum sem vinna hjá Flugleiðum hf. telst fastur vinnustaður því vera á Reykjavíkurflugvelli.

Varðandi lagaheimildir er vísað til þess sem áður er fram komið. Rök fyrir frádrætti á móti dagpeningum hjá flugliðum eru þau sömu og hjá öðrum launþegum, þ.e. að sá hluti dagpeninga sem er innan þeirra marka sem fram koma í skattmati ríkisskattstjóra sé kostnaður sem á launþega hafi fallið vegna dvalar hans utan venjulegs vinnustaðar hans við störf í þágu vinnuveitanda hans.

Vonast er til að svar þetta sé fullnægjandi.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum