Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf 2/2020

Virðisaukaskattur – umsýsla með samningum um notendastýrða persónulega aðstoð

10.11.2020

Vísað er til erindis A, dags. 13. febrúar 2020, þar sem farið er fram á að Skatturinn skilgreini umsýslu með samningum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) sem félagsþjónustu og að framlag vegna umsýslunnar verði undanþegið virðisaukaskatti, sbr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í erindinu er vísað til þess að á vefsíðu Skattsins komi fram að umrædd þjónusta sé virðisaukaskattsskyld en tekið er fram í því sambandi að A hafi borist framsendir tölvupóstar frá umsýsluaðilum með upplýsingum frá embættinu þess efnis að starfsemi þeirra teldist ekki vera virðisaukaskattsskyld. Þá segir einnig að rök séu fyrir því að telja umsýslu til félagsþjónustu og er í því sambandi vísað til ákvæðis 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 1250/2018, um notendastýrða persónulega aðstoð, varðandi fjárframlag til umsýslu, og 12. gr. sömu reglugerðar um hlutverk og skyldur umsýsluaðila, sem ekki er sjálfur notandi, einkum þess að þar sé m.a. kveðið á um „… ráðgjöf við notendur, viðbrögð við breyttum aðstæðum hjá notanda, veiting fræðslu til aðstoðarfólks, leiðsögn um hugmyndafræðina um sjálfstætt líf o.s.frv.“.

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar tekur skattskyldan til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega tilgreind undanþegin samkvæmt 3. mgr. sömu greinar. Skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvílir á hverjum þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selur eða afhendir vöru eða verðmæti ellegar innir af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988. Við ákvörðun þess hvort um atvinnurekstur sé að ræða hefur í úrskurðaframkvæmd einkum verið horft til þess hvort um sjálfstæða starfsemi sé að ræða sem rekin er reglubundið og í nokkru umfangi í þeim efnahagslega tilgangi að skila hagnaði.

Undanþágur samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laganna fela í sér undantekningar frá meginreglu um skattskyldu og ber samkvæmt lögskýringarvenju að skýra þröngri skýringu og aldrei rýmri en orðalag ákvæðanna gefur beinlínis tilefni til. Samkvæmt 2. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er félagsleg þjónusta, svo sem rekstur leikskóla, barnaheimila, skóladagheimila og upptökuheimila og önnur hliðstæð þjónusta, undanþegin virðisaukaskatti. Í skattframkvæmd hefur verið litið svo á að með félagslegri þjónustu í ákvæðinu sé átt við aðstoð er stuðlar að velferð manna og veitt er á grundvelli samhjálpar af hálfu hins opinbera eða viðurkenndra líknarsamtaka er hafa slíka aðstoð að markmiði sínu. Við afmörkun hinnar undanþegnu þjónustu þykir þurfa að horfa til skilgreiningar í sérlögum um félagslega þjónustu, m.a. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra og laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Undanþágan tekur almennt til þeirrar félagslegu þjónustu sem opinberum aðilum er með lögum þessum gert að veita eða sjá til að veitt sé.

Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 ná undanþágur skv. 3. mgr. aðeins til sölu eða afhendingar vinnu og þjónustu sem þar getur, en ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi, sbr. 3. og 4. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. Með hliðsjón af því þykir verða að túlka undanþáguákvæði 2. tölul. 3. mgr. 2. gr. þannig að það taki almennt til þjónustu sem látin er endanlegum neytanda í té, en ekki til aðfanga þess sem veitir félagslega þjónustu. Starfsemi telst að jafnaði ekki undanþegin ef hún er ekki eðlilegur þáttur í félagslegri þjónustu, svo og tiltekin eigin þjónusta sem rekin er í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. reglugerð nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana.

Í 6. tölul. 2. gr. laga nr. 38/2018 er NPA skilgreind sem aðstoð undir stjórn notanda þjónustunnar þannig að hann skipuleggi aðstoðina, ákveði hvenær og hvar hún sé veitt, velji aðstoðarfólk og hver annist umsýslu á grundvelli starfsleyfis þar að lútandi, sbr. 13. tölul. sömu greinar. Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. sömu laga kemur fram að umsýsluaðili NPA-samnings beri vinnuveitendaábyrgð gagnvart starfsfólki sínu, þ. á m. að hann skuli sjá til þess að uppfyllt séu ákvæði laga og reglugerða um réttindi starfsmanna.

Samkvæmt skilgreiningu í 10. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 1250/2018, um notendastýrða persónulega aðstoð, er umsýsluaðili sá aðili sem fengið hefur starfsleyfi útgefið af [félagsmálaráðuneytinu] til að hafa umsýslu með framkvæmd NPA. Notandi getur valið að semja við þann umsýsluaðila sem hann kýs eða sjá sjálfur um umsýsluna, sbr. 6. gr. Í 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar kemur fram að sveitarfélag, notandi og umsýsluaðili, sé notandi ekki sjálfur umsýsluaðili, geri með sér samning sem tekur til samskipta og samstarfs milli sveitarfélags og notanda varðandi framkvæmd NPA. Á grundvelli slíks samnings tekur umsýsluaðili við heildargreiðslum frá viðkomandi sveitarfélagi og ráðstafar þeim, þ.m.t. greiðslum vegna kostnaðar við umsýsluna [nú: 10% heildarframlagsins], sbr. a-lið 12. gr. og a-lið 13. gr. reglugerðarinnar.

Þótt kostnaður vegna umsýslu í tengslum við NPA sé borinn af viðkomandi sveitarfélagi á grundvelli samnings við umsýsluaðila og notanda hefur það ekki áhrif á ákvörðun þess hvort starfsemin falli innan marka undanþáguákvæðis 2. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 heldur ber að leggja sjálfstætt mat á það hvort starfsemin teljist félagsleg þjónusta í skilningi ákvæðisins, sbr. framangreinda afmörkun þess. Tiltekin þjónusta verður ekki felld undir undanþáguákvæðið með þeim rökum einum að hún sé nauðsynleg til þess að tryggja það að unnt sé að inna af hendi félagslega þjónustu samkvæmt framangreindu. Þvert á móti ber að líta sérstaklega til eðlis starfseminnar og leggja sjálfstætt mat á það hvort hún falli innan marka ákvæðisins.

Ef notandi er sjálfur umsýsluaðili er ekki um atvinnurekstur að ræða, sbr. framangreinda skýringu atvinnurekstrarhugtaksins, og þ.a.l. er heldur ekki um að ræða virðisaukaskattsskyldu samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988. Öðru máli gegnir þegar samið er um að utanaðkomandi aðili, lögaðili eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, taki að sér umsýslu með NPA en við þær aðstæður er jafnframt samkeppni til staðar. Kveðið er á um hlutverk og skyldur umsýsluaðila NPA, sem ekki er sjálfur notandi, í 12. reglugerðar nr. 1250/2018. Auk þess sem tiltekið er í fyrirspurninni ber umsýsluaðila m.a. einnig að taka við öllum greiðslum frá sveitarfélagi og ráðstafa þeim, gera ráðningarsamninga við aðstoðarfólk, taka þátt í gerð kjarasamninga, greiða laun aðstoðarfólks, standa skil á launatengdum gjöldum, ganga frá starfslokum aðstoðarfólks og færa rekstrarbókhald fyrir hvern notanda o.fl., sbr. stafliði a-f, i og j í 12. gr. reglugerðarinnar. Verður því ekki annað séð en að hlutverk og skyldur umsýsluaðila felist í milligöngu hans um félagslega þjónustu, þ.e. að sjá til þess að hin félagslega þjónusta sé innt af hendi í samræmi við markmið 1. gr. laga nr. 38/2018 en ekki að hann inni hana af hendi sjálfur. Sjálft orðið „umsýsla“ er lýsandi hvað þetta varðar.

Samkvæmt framansögðu er það mat ríkisskattstjóra að starfsemi umsýsluaðila með NPA falli ekki undir félagslega þjónustu í skilningi undanþáguákvæðis 2. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, heldur teljist þjónusta hans til virðisaukaskattsskyldra aðfanga slíkrar starfsemi samkvæmt 4. mgr. 2. gr. laganna. Umsýsluaðili sem ekki er sjálfur notandi telst virðisaukaskattsskyldur vegna hluta heildarframlags til NPA samkvæmt a-lið 12. gr. reglugerðar nr. 1250/2018, sbr. framangreint. Tekið skal fram að þeir sem selja skattskyldar vörur og þjónustu fyrir minna en 2.000.000 kr. á hverju 12 mánaða tímabili eru undanþegnir virðisaukaskattsskyldu, sbr. 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988.

Beðist er velvirðingar á því hve lengi hefur dregist að svara erindinu.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum