Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1053/2004

6.8.2004

Virðisaukaskattur - sala og leiga listamanns á eigin listaverkum.

6. ágúst 2004
G-Ákv. 04-1053

Þann 15. júní sl. barst ríkisskattstjóra símbréf frá skrifstofu lögmanns þar sem óskað er eftir áliti embættisins á því hvort sala og leiga listamanna á eigin listaverkum sé virðisaukaskattsskyld. Í erindinu kemur fram að x-bókasafnið hafi í hyggju að setja á laggirnar myndlistarútlán þar sem einstaklingar og fyrirtæki geti tekið á leigu eða keypt listaverk af listamönnum. Listaverkin verði af ýmsum toga, s.s. grafíkverk, málverk, ljósmyndir og skúlptúrar. Fyrirkomulagið verði með þeim hætti að viðskiptavinir geti keypt listaverk og greitt fyrir það strax eða með afborgunum. Einnig geti viðskiptavinir tekið listaverk á leigu og greiði þá leigugjald mánaðarlega. Kjósi þeir síðar að kaupa listaverkið þá gangi áður greidd leiga upp í kaupverðið.

Til svars við fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram:

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga). Sviðið er markað mjög rúmt. Tekur það til allra vara og verðmæta og til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega tiltekin undanþegin í 3. mgr. greinarinnar. Í 4. gr. vsk-laga eru tilteknir þeir sem undanþegnir eru skattskyldu. Í 2. tölul. greinarinnar segir að listamenn séu undanþegnir skattskyldu að því er varðar sölu þeirra á eigin listaverkum, enda falli listaverkin undir tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000, svo og uppboðshaldarar að því er varðar sölu þessara verka á listmunauppboðum, sbr. lög nr. 28/1998, um verslunaratvinnu.

Eftirfarandi listaverk falla undir hin tilgreindu tollskrárnúmer:

1. Málverk, teikningar og pastelmyndir gerðar í höndum að öllu leyti, þó ekki:

a) uppdrættir og teikningar til notkunar í húsagerð, verkfræði, iðnaði, viðskiptum, landslagsfræði eða þess háttar handgerð frumverk.

b) handskrifaður texti.

c) ljósmyndir á ljósnæmum pappír.

d) handmálaðir eða handskreyttir framleiddir hlutir.

2. Klippimyndir og áþekk veggskreytispjöld.

3. Frumverk af stungum, þrykki og steinprenti, þ.e. myndir sem þrykktar eru beint í svörtu og hvítu eða í lit með einni eða fleiri plötum sem listamaður hefur gert að öllu leyti í höndunum án tillits til þeirra aðferða eða efnis sem hann notar, þó ekki með neins konar vélrænum eða ljósvélrænum aðferðum.

4. Frumverk af höggmyndum og myndastyttum úr hvers konar efni. Til þessa flokks teljast ekki fjöldaframleiddar endurgerðir af listaverkum eða venjulegar handiðnaðarvörur sem hafa einkenni verslunarvöru, jafnvel þótt vörur þessar séu hannaðar eða búnar til af listamönnum.

Rammar um málverk, teikningar, pastelmyndir, klippimyndir eða áþekk veggskreytispjöld, stungur, þrykk eða steinprent skoðast sem hluti af þessum listaverkum enda séu þeir að gerð og verðmæti í eðlilegu samræmi við þau.

Sala listamanns á listaverki sem fellur undir 2. tölul. 4. gr. vsk-laga er undanþegin virðisaukaskatti og skiptir þar ekki máli hvort kaupandi greiðir fyrir verkið strax við afhendingu eða með afborgunum. Í báðum tilvikum færist eignarréttur á listaverkinu yfir á kaupanda við afhendingu. Leiga á listaverkum fellur hins vegar ekki undir 2. tölul. 4. gr. vsk-laga og er því virðisaukaskattsskyld. Í þeim tilvikum þar sem aðili tekur listaverk á leigu en ákveður síðar að kaupa það, og áður greidd leiga gengur upp í kaupverðið, er það álit ríkisskattstjóra að 2. tölul. 4. gr. vsk-laga taki einungis til eftirstöðva kaupverðs á þeim tíma sem eigendaskipti eiga sér stað. 

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum