Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1047/2004

30.1.2004

Heimildir til færslu innskatts vegna bifreiða sem teknar eru á leigu.

30. janúar 2004
G-Ákv. 04-1047

I

Að undanförnu hefur það færst í vöxt að fyrirtæki taki bifreiðir á leigu af fjármögnunarfyrirtækjum. Ríkisskattstjóra og skattstjórum hafa af þessu tilefni borist fjölmargar fyrirspurnir um það hvaða reglur gildi um færslu innskatts af leiguverðinu. Nokkuð hefur borið á því að fyrirspyrjendur taki það fram að þær upplýsingar hafi fengist hjá fjármögnunarfyrirtækjum að heimilt sé að færa til innskatts virðisaukaskatt af leigugreiðslum vegna leigu á VSK-ökutækjum með almennum skráningarmerkjum (bláum númerum) og fólksbílum. Af þessu tilefni sér ríkisskattstjóri ástæðu til þess að minna á að mismunandi reglur gilda um færslu innskatts vegna ökutækja sem notuð eru í rekstri sem rekstrafjármunir fyrirtækja. Fer það eftir gerð ökutækis hvaða reglur eiga við, sbr. 6. tölul. 2. mgr. 2. gr. og 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

Tekið skal fram að sú umfjöllun sem fer hér á eftir tekur ekki til innskattsréttar þeirra fyrirtækja sem selja eða leigja út ökutæki í atvinnuskyni en í þeim tilvikum gilda almennar reglur.

II.

Skipta má ökutækjum í þrjá flokka eftir því hvaða reglur gilda um innskatt; fólksbifreiðir, VSK-ökutæki og önnur ökutæki.

Rétt er að taka það fram að þegar talað er um leigu í þeirri umfjöllun sem hér fer á eftir þá skiptir tegund leigusamnings ekki máli, m.ö.o. sama regla gildir hvort sem um rekstrarleigu eða fjármögnunarleigu er að ræða.

1) Fólksbifreiðir - innskattsbann:
Óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt af öflun (kaupum og leigu) og rekstri fólksbifreiða (þ.m.t. skut- og jeppabifreiða), hópbifreiða og þeirra sendi- og vörubifreiða sem ekki uppfylla þau skilyrði sem gerð eru til VSK-bifreiða. Innskattsbannið gildir enda þótt þessar bifreiðir séu eingöngu notaðar í virðisaukaskattsskyldri starfsemi.

2) VSK-ökutæki - sérreglur:
Með VSK-ökutækjum er átt við:

1. Sendi- og vörubifreiðir með leyfða heildarþyngd 5 000 kg eða minna, sem uppfylla eftirtalin skilyrði:

a. Skráð flutningsgeta í fólksrými skal vera minni en helmingur af skráðri burðargetu bifreiðar. Miða skal við að hver maður vegi 75 kg.

b. Farmrými, opið eða lokað, aftan við öftustu brún sætis eða milliþils skal vera a.m.k. 1 700 mm að hleðsludyrum eða hlera. Sé það styttra skal það þó vera lengra en fólksrýmið, mælt frá miðri framrúðu.

c. Í farmrými mega hvorki vera sæti né annar búnaður til farþegaflutninga. Sé fólks- eða hópbifreið breytt í sendi- eða vörubifreið skulu með varanlegum hætti fjarlægð úr farmrými sæti ásamt sætisfestingum og öðrum búnaði til fólksflutninga.

2. Bifhjól.

3. Torfærutæki, þ.e. vélsleðar, tví-, þrí-, fjór-, fimm- og sexhjól.

4. Loftpúðatæki.

Að því er innskattsfrádrátt varðar vegna þessara ökutækja er skýr greinarmunur gerður á öflun (kaupum og leigu) annars vegar og rekstri hins vegar.

Óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt af öflun (kaupum og leigu) þessara ökutækja nema þau séu eingöngu notuð í virðisaukaskattsskyldri starfsemi. Frádráttur að hluta er því ekki tækur. Skilyrði þess að telja megi til innskatts virðisaukaskatt af öflun (kaupum og leigu) bifreiða sem taldar eru upp undir lið 1 hér að framan (VSK-bifreiðir) er að þær séu auðkenndar með VSK-skráningarmerkjum. Virðisaukaskatt af kaup- eða leiguverði VSK-bifreiða á almennum skráningarmerkjum er aldrei heimilt að færa til innskatts.

Um innskatt af rekstri VSK-ökutækja, þ.e. rekstrarkostnaði öðrum en leigugjaldi, gilda almennar reglur. Ef ökutæki er eingöngu notað í þágu skattskylds rekstrar er innskattsrétturinn fullur, en annars hlutfallslegur í samræmi við notkun. Í þeim tilvikum verður að halda utan um akstur í þágu hins virðisaukaskattsskylda rekstrar og innskattsfærsla er heimil af þeim hluta. VSK-skráningarmerki eru ekki skilyrði innskattsréttar vegna umrædds rekstrarkostnaðar.                              

3) Önnur ökutæki - almennar reglur:
Um innskatt af öflun og rekstri annarra ökutækja, svo sem vörubifreiða yfir 5000 kg að þyngd, gilda almennar reglur, sbr. I. og II. kafla reglugerðar nr. 192/1933, um innskatt. Innskattsréttur er fullur, hlutfallslegur eða enginn, eftir því hvort ökutækið er notað eingöngu, að hluta eða ekkert í virðisaukaskattsskyldri starfsemi.

III.

Eins og rakið er hér að framan er leigutaka með öllu óheimilt að færa til innskatts virðisaukaskatt af leigugjaldi fyrir VSK-ökutæki með almennum skráningarmerkjum. Gildir það um allar tegundir leigusamninga m.a. rekstrarleigu og fjármögnunarleigu.

Ríkisskattstjóri



Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum