Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1035/2003

4.6.2003

Endurgreiðsla virðisaukaskatts til opinberra aðila - sérfræðiþjónusta - vinna við reikningshald, uppgjör og skattskil.

4. júní 2003
G-Ákv. 03-1035

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar, dags. 13. mars 2002, þar sem óskað er svara við eftirfarandi fyrirspurnum:

  1. Er virðisaukaskattur vegna vinnu við reikningshald, uppgjör og skattskil til handa sveitarfélögum endurkræfur?
  2. Hvaða sérfræðiþjónusta heyrir undir 5. lið 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, önnur en sú sem er talin upp þar?
  3. Hvað er átt við með "annarra sérfræðinga" í 5. lið 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988?

Til svars við fyrirspurn yðar vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram:

Um endurgreiðslu virðisaukaskatts til opinberra aðila gilda ákvæði 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Ákvæðum reglugerðar nr. 248/1990 var breytt nokkuð með reglugerð nr. 287/2003 og eru þær breytingar og þróun ákvæða reglugerðarinnar raktar í meðfylgjandi bréfi ríkisskattstjóra, dags. 21. maí 2003 (tilv. G-ákv. 1033/03).

Í ákvæði 5. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 er tiltekið að endurgreiða skuli ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra virðisaukaskatt sem þau greiða við kaup á þjónustu "verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda, tölvunarfræðinga og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu og lokið hafa háskólanámi eða sambærilegu langskólanámi eða starfa sannanlega á sviði fyrrgreindra aðila og veita sambærilega þjónustu."

Orðalag ákvæðisins er í ljósi þróunar þess skýrt svo að endurgreiðslurétturinn taki almennt til virðisaukaskatts af vinnu af þeim toga sem sérfræðingar, er lokið hafa háskólanámi eða sambærilegu langskólanámi og almennt þjóna atvinnulífinu, veita á grundvelli menntunar sinnar, hvort heldur sá er þjónustuna innir af hendi hefur aflað sér þekkingar með skólanámi eða með öðrum hætti, en taki hins vegar ekki til þjónustu sem sérfræðingarnir veita á sviðum er falla utan menntunar þeirra. Ákvæði 5. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 hefur, eins og orðalag þess gefur til kynna, ekki að geyma tæmandi talningu á þeirri sérfræðiþjónustu sem undir það fellur. Hvorki löggjafinn né reglugerðargjafinn hafa talið unnt að telja upp með tæmandi hætti þær stéttir sérfræðinga sem undir ákvæðið falla. Helsta viðmiðið í því sambandi er fólgið í orðalagi ákvæðisins sjálfs, þ.e. að um verði að vera að ræða þjónustu háskólamenntaðra sérfræðinga sem hafa sambærilega menntun og þeir sem taldir eru upp í ákvæðinu í dæmaskyni og sem almennt þjóna atvinnulífinu. 

Við skýringu ákvæðisins þarf einnig að hafa í huga yfirlýstan tilgang með því, sem er að virðisaukaskattur raski ekki samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja sem eiga í viðskiptum við opinbera aðila sem geta þjónustað sig sjálfir. Endurgreiðsluréttur opinberra aðila er nátengdur skyldu sömu aðila til að skila virðisaukaskatti af vörum sem þeir framleiða til eigin nota og af þjónustu sem þeir inna af hendi í eigin þágu. Hvort tveggja byggir á samkeppnissjónarmiðum. Greiðsluskylda og endurgreiðsluréttur eftir því sem við á ræðst þannig af því hvort eigin þjónusta þessara aðila á viðkomandi sviði telst vera í samkeppni við þjónustu atvinnufyrirtækja. Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 248/1990 er eftirfarandi sérstaklega tiltekið:
"Almennt skrifstofuhald, þ.m.t. færsla eigin bókhalds og rafræn gagnavinnsla í eigin þágu, telst ekki vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki."

Með hliðsjón af þessu orðalagi er það mat ríkisskattstjóra að virðisaukaskattur vegna aðkeyptrar vinnu við reikningshald, uppgjör og skattskil í eigin þágu fáist ekki endurgreiddur á grundvelli 5. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990.

Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum