Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1008/2002

28.5.2002

Búnaðargjald - gjaldstofn.

28. maí 2002
G-Ákv. 02-1008

Í bréfi yðar dagsettu 30. apríl sl. beinið þér fyrirspurn til ríkisskattstjóra varðandi heimildir gjaldenda til að draga frá stofni til búnaðargjalds kostnað við vinnslu og pökkun afurða.

Til svars fyrirspurninni vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram:

Með 2. gr. laga nr. 59/2002 var svofelld breyting gerð á lögum nr. 84/1997 um búnaðargjald:

"Við 2. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir sem hljóða svo: Annist framleiðandi sjálfur vinnslu og/eða sölu afurða sinna, eða annar aðili í hans nafni, er framleiðanda heimilt að draga frá stofni til búnaðargjalds kostnað/virðisauka af þeirri starfsemi samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra. Enn fremur er heimilt að draga frá stofni til búnaðargjalds kaupverð lífdýra sem keypt eru til áframeldis til framleiðslu búfjárafurða."

Samkvæmt 5. gr. laganna nr. 59/2002 kemur framangreint ákvæði til framkvæmdar við álagningu búnaðargjalds á árinu 2003 vegna búvöruframleiðslu á árinu 2002.

Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 59/2002 kemur eftirfarandi fram varðandi umrætt ákvæði:

"Greinin tekur af öll tvímæli um, að vinnsla og/eða heildsala búvöru myndar ekki stofn til búnaðargjalds, hvort sem hún fer fram heima á búinu eða annar aðili fer með hana í umboði framleiðandans. Framkvæmdin hefur hins vegar verið misjöfn til þessa vegna mismunandi túlkunar á 2. mgr. 3. gr. laganna og mismunandi fyrirkomulags í afurðasölu. T.d. háttar þannig til með garðyrkjuafurðir að meiri hluti þeirra er seldur í umboðssölu hjá afurðafyrirtækjum. Bændur fá þá afreikning, sem sýnir heildsöluverð, en síðan er dregin frá söluþóknun, u.þ.b. 20%. Heildsöluverðið myndar síðan stofn til búnaðargjalds vegna þessa fyrirkomulags. Slík gjaldtaka er ekki tilgangur laganna og er ekki í samræmi við gjaldtöku af mjólk og kjöti, þar sem framleiðendaverðið myndar gjaldstofninn. Þar sem framleiðendur annast vinnslu eða heildsölu afurða sjálfir liggja oft ekki fyrir skýrar upplýsingar um sundurgreiningu verðmyndunar. Því er hér lagt til að farin verði sú leið að ríkisskattstjóri setji matsreglur um hámarksfjárhæð vegna vinnslu og/eða sölu afurða sem komið getur til frádráttar við ákvörðun stofns til búnaðargjalds. Við ákvörðun þeirrar fjárhæðar skal ríkisskattstjóri taka mið af markaðsverði viðkomandi þjónustu hverju sinni."

Ákvæðið þykir verða að skilja á þann veg að frádráttarheimildin taki til kostnaðar við pökkun afurða í smásöluumbúðir.  Er þá m.a. höfð í huga umfjöllun í Íslenskri atvinnugreinaflokkun (ÍSAT 95) varðandi deild 51 umboðs og heildverslun.  Þar er tiltekið að til venjulegrar meðferðar vöru hjá heildsölum teljist m.a. umpökkun og átöppun á flöskur, svo og skipting í minni sendingar.

Fyrir setningu laga nr. 59/2002 var engri frádráttarheimild fyrir að fara af þeim toga sem um er spurt.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum