Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1007/2002

23.5.2002

Virðisaukaskattur - tjónabætur - tjónþoli gerir sjálfur við tjónamun - sölureikningar.

23. maí 2002
G-Ákv. 02-1007

Vísað er til bréfs yðar, dags. 23. mars 2002, þar sem spurt er um meðferð virðisaukaskatts í tjónamálum. Í bréfinu er vísað til minnisblaðs ríkisskattstjóra frá 17/01/90 og settar fram eftirfarandi tvær spurningar: 

  1. "Getur Ríkisskattstjóri staðfest þann skilning A að samkvæmt fyrrnefndu minnisblaði/úrskurði Ríkisskattstjóra 17/1/90 þá hafi A verið heimilt að hafna greiðslu á VSK til tjónþola (í tilvikum sem lýst er hér að framan) með vísan til þessa minnisblaðs og því sem þar kemur fram um innskatt?
  2. Hefur eitthvað breyst frá því minnisblað/úrskurður Ríkisskattstjóra 17/1/90 var ritað? Ef svo er vinsamlegast sendið afrit af slíkum breytingum með svari ykkar og/eða gerið grein fyrir þeim með öðrum hætti."

Til svars við fyrirspurn yðar vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram:

Virðisaukaskattsskyldur aðili sem verður fyrir tjóni á birgðum eða rekstrarfjármunum, þ.m.t. fasteignum, getur talið virðisaukaskatt vegna endurnýjunar, viðgerðar o.þ.h. til innskatts eftir almennum reglum um frádrátt virðisaukaskatts, sbr. 15. og 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og reglugerð um innskatt nr. 192/1993. Þetta gildir óháð því hvort hinn virðisaukaskattsskyldi aðili (tjónþoli) ber tjónið sjálfur eða fær það bætt að fullu eða hluta af tjónvaldi eða vátryggingarfélagi. Virðisaukaskattsskyldur aðili sem verður fyrir tjóni í tengslum við virðisaukaskattsskylda starfsemi sína og ræðst sjálfur í það verk að bæta tjónið með því að gera við hinn skemmda mun, getur því talið til innskatts virðisaukaskatt af kostnaði vegna aðfanga til viðgerðarinnar eftir almennum reglum. Gildir það jafnt um kaup á vörum til viðgerðarinnar og kaup á þjónustu frá öðrum virðisaukaskattsskyldum aðilum. Komi bætur vegna tjónsins frá tjónvaldi eða vátryggingarfélagi leiða frádráttarheimild virðisaukaskatts og reglur skaðabótaréttar til þess að bótafjárhæð skráðs aðila miðast við kostnað (enduröflunarverð, viðgerðarkostnað) án virðisaukaskatts.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988 telst til skattskyldrar veltu skráðs aðila öll sala eða afhending vöru og verðmæta gegn greiðslu og seld vinna og þjónusta. Þar með einnig andvirði vöru eða skattskyldrar þjónustu sem fyrirtæki selur eða framleiðir og eigandi tekur út til eigin nota. Þá telst til skattskyldrar veltu andvirði skattskyldrar vöru og þjónustu sem fyrirtæki notar í öðrum tilgangi en varðar sölu þess á skattskyldum vörum og þjónustu eða í tilgangi er varðar atriði sem rakin eru í 3. mgr. 16. gr. sömu laga. Þannig telst til skattskyldrar veltu fyrirtækis vinna sem innt er af hendi innan þess í þágu fyrirtækisins, að því leyti sem ekki væri til staðar frádráttarréttur (innskattsréttur) væri vinna keypt að. Að öðru leyti telst eigin vinna í þágu virðisaukaskattsskylds rekstrar ekki til virðisaukaskattsskyldrar veltu, enda þarflaust í ljósi frádráttarréttar (innskattsréttar). Í dæmaskyni má nefna að virðisaukaskattur af rekstri fólksbifreiða er ekki frádráttarbær sem innskattur, sbr. 6. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Af því leiðir að úttekt skattaðila á vöru og þjónustu, sem varðar rekstur fólksbifreiðar í hans eigu, telst til skattskyldrar veltu hans, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988.

Tekið skal fram að í þeim tilvikum þegar tjónþoli sjálfur innir af hendi viðgerð í þágu hinnar virðisaukaskattsskyldu starfsemi er ekki um að ræða sölu eða afhendingu á skattskyldri þjónustu, í skilningi 1. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988 og 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Á viðgerðaraðila (tjónþola) hvílir í þeim tilvikum ekki skylda til útgáfu sölureiknings.

Minnisatriði RSK um VSK og vátryggingar, dags. 17/01/90, eru leiðbeiningar sem að mestu leyti eru í fullu gildi. Umfjöllun í kafla III er að nokkru leyti úrelt og vísast í því sambandi til bréfs ríkisskattstjóra, dags. 12. mars 1998 (tilv. 845/98), sbr. einnig bréf ríkisskattstjóra, dags. 29. janúar 1999 (tilv. 906/99) sem eru meðfylgjandi. Þá er einnig meðfylgjandi bréf ríkisskattstjóra, dags. 27. mars 2002, (tilv. G-ákv. 1005/02), en þar er að finna umfjöllun um uppgjör tjónabóta þegar viðgerðaraðili veldur tjóni á hlut í sínum vörslum og gerir við hann sjálfur.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum