Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 995/2001

12.12.2001

Vsk - sala á rannsóknum á lífsýnum til útlanda

12. desember 2001
G-Ákv. 01-995

Vísað er til óformlegra fyrirspurna frá yður, í síma og tölvupósti, þar sem spurt er um virðisaukaskattsskyldu fyrirtækis (NI) sem erlent fyrirtæki (N) ráðgerir að setja á fót á Íslandi, bæði hvað varðar útskatt af útflutningi og innskatt af starfsemi hér. Spurt er hvort sala NI á niðurstöðum DNA rannsókna á blóði, sem unnar verða af vísindamönnum hér á landi og seldar úr landi, séu undanþegnar virðisaukaskatti. Fram kemur í fyrirspurninni að vinnan verði öll unnin af sérfræðingum og rannsóknarniðurstöðurnar verði svo seldar til lyfjafyrirtækis og háskóla í útlöndum. Þær verði ekki seldar neinum aðila hér á landi. Nánar tiltekið felist starfsemin í greiningu sérfræðinga á lífsýnum og sölu á greiningunni til erlendra aðila, aðallega í Bandaríkjunum. NI sé líftæknifyrirtæki þar sem sérfræðingar á sviði líftækni, erfðafræði og efnafræði starfi. Fyrirtækið helgi sig rannsóknum sem þjóna þörfum erfðafræðinnar. Til að fullnægja þessum þörfum vinni NI fyrir viðskiptavini sína mjög nákvæmar upplýsingar úr DNA lotum/runum, sem annað hvort eru lagðar til af viðskiptavinunum eða eru opinberar. NI nái þessum markmiðum sínum með því að nota sérgerðar DNA fylkingar sem myndist með því að nota "MAS Systems". Erindinu var svarað með tölvupósti dags. 24. október sl. (tilv. Net 44/01). Með bréfi dagsettu sama dag, sama efnis og tölvupóstur yðar dags. 24. október sl., er farið fram á formlegt svar.

Til svars við erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

1. Um skattskylduna:

Í fyrsta lagi kemur hér til athugunar hvort umrædd starfsemi falli undir skattskyldusvið laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, eða teljist undanþegin sem heilbrigðisstarfsemi í skilningi 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna. Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laganna. Tekur það til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra og allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega lýst undanþegin í lögunum. Í 1. tl. 3. mgr. 2. gr. er kveðið á um að undanþegin virðisaukaskatti sé þjónusta sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo og lækningar, tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta. Í skattframkvæmd hefur hugtakið eiginleg heilbrigðisþjónusta verðið skýrt svo að það taki til þjónustu þeirra er falla undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál, að því er varðar þjónustu sem felst í meðferð á líkama sjúklings til lækninga, hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar. Hvað varðar rannsóknarstörf á heilbrigðissviði hefur verið litið svo á, sbr. t.d. bréf ríkisskattstjóra dags. 11. maí 2000 (tilv. G-ákv. 944/00),  að þau séu undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli umrædds ákvæðis að því leyti sem þau eru óaðgreinanlegur hluti af starfsemi heilbrigðisstofnana sbr. framangreinda tilgreiningu þeirra. Ekki verður séð að svo sé í tilviki því sem þér lýsið og starfsemin virðist því falla undir skattskyldusvið virðisaukaskattslaga.

Í öðru lagi verður að líta til sjónarmiða um atvinnuskyn, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. og 5. mgr. 5. gr. laganna. Um hagnaðarskyn skortir upplýsingar í erindi yðar, en að því gefnu að um atvinnuskyn sé að ræða er skatt- og skráningarskylda fyrir hendi. Sé ekki um að ræða fasta starfsstöð á Íslandi ber að tilkynna umboðsmann með heimilisfesti hér á landi til skráningar fyrir hönd hins erlenda aðila, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. og 5. gr. laganna. Ábyrgð á skattgreiðslum er solidarísk, enda hvílir skattskyldan á báðum aðilum, hinum erlenda sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. og hinum innlenda sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr.

2. Um útskatt og innskatt:

Þar sem um sölu úr landi er að ræða þarf að líta til ákvæða um undanþegna veltu (núllskatt) í 1. mgr. 12. gr. laganna. Eigi þau ákvæði við ber ekki að leggja útskatt á sölu en efnislegur réttur til færslu innskatts af aðföngum vegna viðkomandi sölu er samt fyrir hendi. Þau ákvæði 1. mgr. 12. gr. sem hér koma til skoðunar eru í 10. tölulið, sbr. og ákvæði reglugerðar nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá.

Samkvæmt nefndum 10. tölulið telst sala á tiltekinni þjónustu til aðila sem hvorki hefur búsetu né starfsstöð hér á landi, undanþegin skattskyldri veltu ef þjónustan er alfarið nýtt erlendis eða þótt svo sé ekki ef erlendi kaupandinn gæti, væri starfsemi hans skráningarskyld hérlendis, talið virðisaukaskatt vegna kaupa á þjónustunni til innskatts, sbr. 15. og 16. gr. laganna. Á meðal þjónustu sem þarna fellur undir, sbr. c-lið, er ráðgjafarþjónusta, verkfræðiþjónusta, lögfræðiþjónusta, þjónusta endurskoðenda og önnur sambærilega sérfræðiþjónusta, þó ekki vinna við eða þjónusta sem varðar lausafjármuni eða fasteignir hér á landi. Svipað ákvæði er að finna í dönskum rétti og með hliðsjón af danskri skattframkvæmd þykir mega fallast á að rannsóknir þær sem spurt er um teljist til sérfræðiþjónustu í skilningi c-liðar 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna. Þar sem rannsóknarniðurstöðurnar eru alfarið seldar og sendar úr landi telst þjónustan eingöngu nýtt erlendis. Það skiptir því ekki máli hvort selt er til aðila sem gæti innskattað væri hann í starfsemi hér.

Miðað við gefnar forsendur virðist sala NI til erlendra kaupenda undanþegin skattskyldri veltu.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum