Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 982/2001

17.8.2001

Nytjaskógrækt - nýtt eyðublað - ítrekun á gildandi rétti

17. ágúst 2001
G-Ákv. 01-982

Að gefnu tilefni sér ríkisskattstjóri ástæðu til að ítreka nokkur atriði varðandi nytjaskógrækt m.t.t. virðisaukaskatts.

Áréttað skal að önnur skógrækt en eiginleg nytjaskógrækt er ekki tæk til skráningar á virðisaukaskattsskrá á grundvelli 2. ml. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, þ.e. á grundvelli eyðublaðs 10.30 sem er trygging í formi kvaðar á landi.

Með nytjaskógrækt er átt við starfsemi sem miðar að því að koma upp skógi á tilteknu landi, samkvæmt samningi við opinberan aðila, sem síðar verður nytjaður til sölu skógarafurða með þeim hætti að hagnaður verði af starfseminni.

Þeir aðilar sem gert hafa samning við opinberan aðila, t.d. V, um landbótaskógrækt teljast ekki stunda nytjaskógrækt enda er með ræktun landbótarskóga fyrst og fremst lögð áhersla á verndar- og landbótamátt skógarins, fegurð hans og útivistargildi, sbr. 2. gr. laga nr. 93/1997, um Su og 3. gr. laga nr. 56/1999, um landshlutabundin skógræktarverkefni.

Ræktun svokallaðra viðbótarskóga skv. samningi við Skógrækt ríkisins fellur heldur ekki undir skilgreiningu á nytjaskógrækt.

Þeir aðilar sem stunda aðra skógrækt en nytjaskógrækt, með eða án samninga við opinbera aðila, geta átt rétt á skráningu á grundvelli 1. ml. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 515/1996, þ.e. gegn skilyrðislausri sjálfsskuldarábyrgð banka, enda sé fyrirhugað að hafa virðisaukaskattsskyldar tekjur og hagnað af skógræktinni.

Til að árétta það að einungis starfsemi eiginlegra nytjaskógræktaraðila er tæk til skráningar á grundvelli tryggingar í formi kvaðar á landi, hefur ríkisskattstjóri gefið út breytt eyðublað 10.30 0108 (Yfirlýsing vegna nytjaskógræktar sbr. 2. ml. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila)sem kemur hér með í stað eyðublaðs 10.30 9706. Eyðublaðið fylgir hjálagt.

Til nánari upplýsinga er bent á bréf ríkisskattstjóra til allra skattstjóra dags. 7. febrúar 2000 (tilv. 934/00) og fylgigögn með því bréfi, þ.á.m. orðsendingu vegna virðisaukaskatts nr. 4/1997 sem uppfærð var 3. febrúar 2000.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum