Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 974/2001

23.5.2001

Vsk - greiðslufrestur í tolli (tollkrít) - greiðsluskjal frá tollyfirvöldum

23. maí 2001
G-Ákv. 01-974

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar, dags. 1. desember 2000, þar sem þér farið þess á leit að ríkisskattstjóri svari því hvernig fara skuli með virðisaukaskatt með greiðslufresti í tolli m.t.t. tímamarks innskatts. Fram kemur að yður sé kunnugt um vinnubrögð í þessum málum á þremur skattstofum og séu þau ekki öll eins. Óskað er eftir því að embættið láti í té þá verklagsreglu sem alfarið skal farið eftir varðandi þessi mál.

Til svars við fyrirspurn yðar vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram:

Samkvæmt 4. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er innskattur á uppgjörstímabili sá virðisaukaskattur sem fram kemur á reikningum þeirra sem selt hafa hinum skattskylda aðila á tímabilinu, svo og virðisaukaskattur af innflutningi hans á tímabilinu, sbr. XI. kafla. Í 3. mgr. 34. gr. í XI. kafla laganna er svo kveðið á um heimild ráðherra til að veita greiðslufrest á virðisaukaskatti við innflutning (tollkrít). Til sönnunar á innskatti skal skattskyldur aðili, sem flytur inn vörur erlendis frá, geta lagt fram greiðsluskjöl frá tollyfirvöldum fyrir virðisaukaskatti sem lagður er á vörur þær er hann flytur inn, sbr. 7. mgr. 20. gr. laganna. Þá segir í 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, að greiðsluskjal frá tollyfirvöldum þar sem virðisaukaskattur kemur sérstaklega fram skuli liggja til grundvallar innskatti vegna eigin innflutnings skattaðila.

Þegar virðisaukaskattur af innflutningi er staðgreiddur er greiðslukvittun frá tollyfirvöldum innskattsskjal innflytjanda. Þegar hins vegar er veittur greiðslufrestur á virðisaukaskatti í tolli er það álit ríkisskattstjóra, sbr. bréf embættisins nr. 826 og 918, að óheimilt sé að taka skuldfærslutilkynningu frá tollyfirvöldum gilda sem innskattsskjal nema ljóst sé að gjaldandi hafi greitt virðisaukaskatt af innflutningi í þessum tilvikum, enda ekki gert ráð fyrir því í lögum um virðisaukaskatt að gjaldandi fái virðisaukaskatt af innflutningi endurgreiddan sem innskatt áður en hann greiðir tollkrít. Tekið skal fram að skuldfærslutilkynningin er í nefndum bréfum ýmist nefnd "greiðsluskjal" með greiðslufresti eða "greiðsluskjal" vegna tollkrítar.

Í 3. mgr. 34. gr. laganna er kveðið á um heimild ráðherra til að veita greiðslufrest á virðisaukaskatti við innflutning. Í ákvæðinu er sérstaklega tekið fram að gjalddagi greiðslufrests skuli eigi vera síðar en á gjalddaga virðisaukaskatts þess tímabils þegar tollafgreiðsla fer fram og er sú regla áréttuð í greinargerð. Þrátt fyrir að gjalddagi greiðslufrests skuli eigi vera síðar en á gjalddaga virðisaukaskatts þess tímabils þegar tollafgreiðsla fer fram, þá eru ákvæði reglugerðar nr. 390/1999, um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum, ekki að öllu leyti í samræmi við lagaákvæðið og var svo raunar einnig skv. eldri reglugerð nr. 640/1989, um greiðslufrest á virðisaukaskatti í tolli. Tekið skal fram að með reglugerð nr. 390/1999 var krafa um tryggingu að baki tollkrít að mestu leyti felld niður.

Þrátt fyrir gjalddagaákvæði 34. gr. laganna getur gjalddagi tollkrítar í raun verið á eftir gjalddögum skemmri uppgjörstímabila innanlands, sem og bráðabirgðaskila fiskvinnslu. Í samræmi við þetta kemur fram í bréfi ríkisskattstjóra nr. 826 að kanna þarf skilamáta innflytjenda í þeim tilvikum sem innskattsskjal er skuldfærslutilkynning frá tollyfirvöldum. Þessi regla er áréttuð í bréfi ríkisskattstjóra nr. 918, auk þess sem bent er á að tollkrít getur verið óuppgerð á viðkomandi gjalddaga virðisaukaskatts innanlands af öðrum sökum.

Þegar veittur er greiðslufrestur á virðisaukaskatti af innflutningi er í samræmi við framangreint heimilt að miða innskattsfærslu við skuldfærsluskjal frá tollyfirvöldum ef tollkrítin, þ.e. virðisaukaskattsskuldin vegna innflutningsins, var raunverulega greidd fyrir gjalddaga virðisaukaskatts þess uppgjörstímabils innanlands þegar tollafgreiðslan fór fram. Að öðrum kosti fellur innskattur til á því uppgjörstímabili sem tollkrítin er raunverulega greidd skv. viðeigandi bókhaldsgögnum þar um.

Tekið skal fram að ekki skiptir máli, að mati ríkisskattstjóra, hvort greiðsluskjal frá tollyfirvöldum er rafrænt eða á pappír. Sé það rafrænt verður þó að prenta það út sem innskattsskjal og bókhaldsgagn innflytjanda nema bókhald hans uppfylli ákvæði reglugerðar nr. 598/1999, um rafrænt bókhald, geymslu rafrænna gagna og lágmarkskröfur til rafrænna bókhaldskerfa.

Í lokin þykir rétt að árétta að greiðsluskjal í tolli er innskattsskjal innflytjanda ekki flutningsmiðlara, sbr. nánar bréf embættisins nr. 917.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara erindi yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum