Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 957/2000

29.8.2000

Virðisaukaskattur -  menntastarfsemi - undanþegin starfsemi - þjálfun ræðuliðs og spurningaliðs

29. ágúst 2000
G-Ákv. 00-957

Vísað er til bréfs yðar dags. 16. maí 2000, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort þjálfun spurningaliðs og þjálfun ræðuliðs sé virðisaukaskattsskyld starfsemi.

Til  svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er mjög víðtækt sbr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Að því er þjónustu varðar tekur skattskylda til allrar vinnu og þjónustu hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega tilgreind undanþegin virðisaukaskatti í 3. mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. er rekstur skóla og menntastofnana svo og ökukennsla, flugkennsla og danskennsla undanþegin virðisaukaskatti.

Við mat á því hvort nám telst skattfrjálst hefur verið talið eðlilegt að hafa hliðsjón af því hvort boðið er upp á það í hinu almenna skólakerfi eða ekki. Ekki nægir þó í þessu sambandi að boðið sé upp á námsgreinina eða námsbrautina í einstökum skólum heldur verður námið að hafa unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu.

Undanþága 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt tekur til námsskeiðsgjalda til að standa straum af beinum kostnaði við kennsluna sjálfa og endurgjalds fyrir umsjón og stjórn námskeiðshalds. Undanþágan nær því bæði til námskeiðshaldara og einstakra fyrirlesara sem starfa sem „verktakar“ við kennsluna en ekki til annarra aðfanga vegna námskeiðsins, s.s. tækjaleigu, efniskaupa og þess háttar.

Í „Aðalnámskrá framhaldsskólana - Íslenska“ bls. 47 er fjallað um valáfangann  „TJÁ 102 Tjáning og samskipti“ og boðið hefur verið upp á  kennslu í tjáningu/ræðumennsku í flest öllum framhaldsskólum landsins“. Um efnisatriði  „TJÁ 102 Tjáning og samskipti“ segir m.a.: „Nemendur æfa helstu atriði munnlegrar tjáningar, svo sem öndun og slökun, hljóðmótun, raddbeitingu, framsögn, framburð, upplestur, frásagnarlist, viðtalstækni og ræðuflutning og fá tilsögn í ræðugerð“. Í Háskóla Íslands er og boðið upp á áfangann: „04.42.04 Tjáning og samskipti“. 

Það er álit ríkisskattstjóra að námsgreinin „Tjáning“ hafi unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu enda er gert ráð fyrir að boðið sé upp á námsgreinina í „Aðalnámskrá framhaldsskólana - Íslenska“. Samkvæmt framansögðu er það álit ríkisskattstjóra að þjálfun ræðuliðs sé undanþegin virðisaukaskatti enda er um að ræða kennslu í munnlegri tjáningu, svo sem öndun og slökun, hljóðmótun, raddbeitingu, framsögn, framburð, upplestri, frásagnarlist, viðtalstækni og ræðuflutning og tilsögn í ræðugerð.

Aftur á móti verður ekki séð að boðið sé upp á námsgrein í hinu almenna skólakerfi sem sambærileg er við þátttöku í spurningaliði, þ.e. að geta svarað spurningum í sem flestum efnisflokkum. Önnur undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt eiga ekki við þjálfun spurningaliðs. Samkvæmt þessu er það álit ríkisskattstjóra að þjálfun spurningaliðs sé virðisaukaskattsskyld starfsemi.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum