Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 955/2000

5.8.2000

Fyrirspurn um skilgreiningu á þjónustu sem veitt er erlendis, skv. 1. tl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988.

5. ágúst 2000
G-Ákv. 00-955

Með bréfi dagsettu 20. janúar sl. var farið fram á að ríkisskattstjóri veitti svar við því hvort sala íslensks lögaðila á þjónustu til annars íslensks lögaðila geti fallið undir ákvæði 1. tl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Í því tilviki sem hér um ræðir háttar svo til að markaðsfyrirtæki skráð hérlendis er að gera samning við innlent fyrirtæki í ferðaþjónustu.  Samningur hinna íslensku fyrirtækja varðar sölu markaðsfyrirtækisins á markaðssetningu ferðaþjónustufyrirtækisins erlendis og milligöngu um samningsgerð við ferðaþjónustufyrirtæki erlendis.  Um er að ræða samninga við erlenda aðila og fer vinna markaðsfyrirtækisins að öllu leyti fram erlendis og verður sú þjónusta sem um ræðir eingöngu nýtt erlendis þar sem framkvæmd þeirra samninga sem markaðsfyrirtækið hefur milligöngu um að koma á mun að öllu leyti verða á erlendri grund. Óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af sölu markaðsfyrirtækisins skv. framangreindum samningi eða hvort um sé að ræða þjónustu sem teljist innt af hendi erlendis og sé því undanþegin virðisaukaskatti skv. 1. tl. 1. mgr. 12. gr.

Að áliti ríkisskattstjóra skiptir ekki máli hvort kaupandi þjónustu sem veitt er erlendis, sbr. 1. tl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, er íslenskur eða erlendur. Vinna markaðsfyrirtækisins fyrir hið íslenska ferðaþjónustufyrirtæki er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 1. tl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, að því gefnu að um sé að ræða þjónustu sem felst í vinnu sem er unnin að öllu leyti erlendis og eingöngu nýtt þar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum