Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 953/2000

30.6.2000

Virðisaukaskattur - alþjóðleg viðskiptafélög.

30. júní 2000
G-Ákv. 00-953

Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram varðandi alþjóðleg viðskiptafélög (av.félög).

1.   Lög um alþjóðleg viðskiptafélög.

Lög um alþjóðleg viðskiptafélög nr. 31/1999 voru samþykkt frá Alþingi þann 19. mars 1999 og tóku þegar gildi. 

Með lögum nr. 29/1999, um breyting á lögum um álagningu skatta og gjalda vegna av.félaga, var eftirfarandi lögum breytt; lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, og lögum nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs.  Lög 29/1999 öðluðust gildi 1. janúar 1999 og ákvæði laganna koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2000 vegna tekna á árinu 1999 og eigna í lok þess árs.  Eftir gildistöku laga nr. 29/1999 gilda m.a. eftirfarandi sérreglur um skattlagningu av.félaga:

  1. Skv. 1. mgr. 72. gr. laga nr. 75/1981 er tekjuskattur av.félags 5% af tekjuskattsstofni. 
  2. Av.félög eru undanþegin almennum og sérstökum eignarskatti, sbr. 3. mgr. 84. gr. laga nr. 75/1981 og b-lið 3. gr. laga nr. 83/1989.
  3. Skjöl sem ella væru stimpilgjaldskyld skv. lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, skulu vera stimpilgjaldfrjáls ef þau varða kaup og sölu av.félags á flugvélum og skipum sem því eru heimil lögum samkvæmt, skrásetningu réttinda og stofnun takmarkaðra eignarréttinda yfir slíkum eignum alþjóðlegs viðskiptafélags eða lántökur, lánveitingar eða viðskipti slíks félags vegna lögheimilar starfsemi þess, sbr. 3. gr. laga nr. 36/1978.

2.   Almennt um alþjóðleg viðskiptafélög.

Av.félag er félag sem er stofnað og skráð hér á landi.  Av.félag verður einungis stofnað sem hlutafélag eða einkahlutafélag. Til að hefja starfsemi av.félags þarf starfsleyfi starfsleyfisnefndar, sbr. 4. gr. laga um av.félög. Skráning félags sem fyrirhugar að sækja um starfsleyfi sem av.félag í hlutafélagaskrá veitir félaginu ekki sjálfkrafa rétt til að hefja slíka starfsemi. Birta skal tilkynningar um starfsleyfi av.félaga í Lögbirtingablaðinu og viðskiptaráðherra lætur halda sérstaka skrá yfir av.félög.  Um stofnun av.félaga fer að öðru leyti eftir lögum um hlutafélög og einkahlutafélög.

3.   Starfsemi alþjóðlegra viðskiptafélaga.

Um starfsemi av.félaga er fjallað í III. kafla laga um av.félög. Av.félögum er sniðinn þröngur stakkur varðandi mögulega virðisaukaskattsskylda starfsemi hér á landi.

a.   Vörusala.

Av.félag má stunda viðskipti við erlenda aðila utan Íslands, eða hafa milligöngu um slík viðskipti, með vörur sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tekur ekki til og ekki eiga uppruna sinn hér á landi, en ekki með aðrar vörur. Í athugasemdum við lagafrumvarp sem varð að lögum um av.félög kemur fram að heimil vöruviðskipti av.félaga munu einungis ná til sjávarafurða og landbúnaðarvara annarra en þeirra sem tilgreindar eru í bókun 3 með samningnum um EES. Av.félag má ekki stunda viðskipti í eigin nafni með vörur við aðila hér á landi nema í eftirfarandi tilvikum:

i.    Av.félagi er heimilt að kaupa rekstrarvörur og þjónustu hér á landi til eigin nota.

ii.   Av.félagi er heimilt að eiga viðskipti við önnur av.félög bæði hér á landi og erlendis.

iii.  Av.félagi er og heimilt að eiga peningalegar eignir hér á landi til að nota í daglegum rekstri og taka lán hér á landi jafnt sem erlendis í eðlilegu samræmi við starfsemi sína. 

Av.félag má ekki stunda viðskipti með vörur við innlenda aðila utan Íslands eða hafa milligöngu um slík viðskipti. Því er óheimilt að vinna vöru að hluta til eða öllu leyti hér á landi nema að því leyti sem því er heimilt að flytja um Ísland vörur sem það annast viðskipti með vegna umflutnings varanna milli svæða utan Íslands. Av.félagi er óheimilt að eiga þátt í útflutningi vara sem eiga uppruna sinn hér á landi.

Í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum um av.félög kemur fram að með ofangreindri vörusölu sé sérstaklega horft til alþjóðlegra viðskipta með sjávarafurðir.

b.   Sala á þjónustu.

Av.félag má eingöngu hafa milligöngu um viðskipti með þjónustu milli erlendra aðila utan íslenskrar lögsögu.  Það má ekki veita aðra þjónustu en þá sem um ræðir í 1. málslið né veita öðrum en þar um ræðir slíka þjónustu, sbr. 8. gr. laga um av.félög.  Skilyrði er að bæði kaupandi og seljandi þeirrar þjónustu sem av.félag hefur milligöngu um að koma á viðskiptum með séu erlendir aðilar.  Sérstaklega er tekið fram að óheimilt sé að stunda aðra þjónustu en þá sem felst í milligöngu þeirri sem fyrr var lýst.  Einnig er tekið fram að óheimilt sé að veita þessa þjónustu öðrum en erlendum aðilum utan íslenskrar lögsögu.  Í athugasemdum við lagafrumvarp sem varð að lögum um av.félög kemur fram að undir ákvæði 8. gr. geti fallið flutningsmiðlun milli aðila erlendis, miðlun afþreyingarþjónustu af ýmsu tagi o.fl.

c.   Eignaraðild og eignarhaldsfélög.

Av.félögum er heimilt eignarhald á öðrum av.félögum hérlendis og einnig að starfa eingöngu sem eignarhaldsfélag sem á, fjárfestir í og nýtur arðs af eignarhlutum í erlendum fyrirtækjum eða í eignarréttindum sem skráð eru opinberri skráningu utan Íslands, s.s. vörumerkjum, einkaleyfum og hönnunarréttindum.

d.   Eignarhald og umráð yfir flugvélum og skipum öðrum en fiskiskipum.

Av.félagi er heimilt að eiga flugvélar og skip skráð hér á landi sem annast flutninga á vörum sem av.félagi er heimilt að eiga viðskipti með, þ.e. sjávarfangi og landbúnaðarafurðum, eins og áður greinir, og til að framleigja erlendum aðilum til flutninga utan íslenskrar lögsögu. Av.félagi er óheimilt að eiga fasteignir á Íslandi nema til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni. Av félagi er heimilt að leigja öðrum av.félögum afnot af slíkum fasteignum sínum enda séu leigutekjurnar einungis óverulegur hluti rekstrartekna viðkomandi félags. 

e.   Önnur atriði varðandi rekstur av.félaga.

Rekstur av.félags skal vera fjárhagslega óháður og aðskilinn frá rekstri annarra aðila.  Óheimilt er að láta av.félag bera annan kostnað eða hafa aðrar tekjur en þær sem stafa af heimilli starfsemi av.félaga, eða færa kostnað eða tekjur af starfsemi þess yfir á aðra aðila.  Sé aðstaða eða starfsfólk av.félags samnýtt með öðrum skal gerður skriflegur samningur um samnýtinguna og skiptingu kostnaðar.  Öll viðskipti av.félaga við aðila þeim tengdum skulu gerð á grundvelli almennra kjara og venja í viðskiptum óskyldra aðila, sbr. 12. gr. laga um av.félög.

4.   Virðisaukaskattsskylda alþjóðlegra viðskiptafélaga.

Með lögum nr. 29/1999, um breyting á lögum um álagningu skatta og gjalda vegna av.félaga, voru gerðar breytingar nokkrum skattalögum. Engar breytingar voru gerðar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í lögum um virðisaukaskatt er ekki fjallað um av.félög.  Með vísan til þess að ekki voru gerðar breytingar á lögum um virðisaukaskatt í kjölfar lagasetningar um av.félög og því að av.félög eru ekki undanþegin virðisaukaskatti skv. lögum um virðisaukaskatt er það álit ríkisskattstjóra að lög um virðisaukaskatt gildi fullum fetum um starfsemi av.félaga eins og annarra félagsforma sem stofnað er til hér á landi.

Greiða skal í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu, sbr. 1. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  Skattskyldan nær til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra svo og allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, enda sé þjónustan ekki sérstaklega undanþegin sbr. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.  Ákveðnir aðilar eru undanþegnir virðisaukaskatti, sbr. 4. gr. laga um virðisaukaskatt og sala á vörum og þjónustu getur talist undanþegin skattskyldri veltu sbr. 12. gr. laganna.

Meginreglur laga um virðisaukaskatts gilda samkvæmt þessu um sölu av.félaga á vörum og þjónustu hér á landi, hverju nafni sem nefnist, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.  Möguleikar av. félaga til að stunda starfsemi hér á landi sem er virðisaukaskattskyld er hins vegar sniðinn þröngur stakkur eins og kemur fram hér að ofan í umfjöllun um av.félög.

Ef av.félag er skráningarskyldur aðili hér á landi, sbr. lög um virðisaukaskatt, þá getur það talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem fellur til við kaup á aðföngum sem varða hinn skráningarskylda rekstur félagsins. Vísast í þessu sambandi til 15. og 16. gr laga um virðisaukaskatt og reglugerðar nr. 192/1993.

5.   Endurgreiðslur á virðisaukaskatti til alþjóðlegra viðskiptafélaga.

Av. félag er íslenskur lögaðili þ.e. félag sem stofnað er og skráð hér á landi sbr. 1. gr. laga um av.félög.  Það er álit ríkisskattstjóra að av. félög geti ekki fengið endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem þau hafa greitt hér á landi vegna kaupa á vörum og þjónustu til atvinnustarfsemi sinnar, skv. reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja.  Telja verður að þau geti ekki talist aðili sem hvorki hefur búsetu né starfsstöð hér á landi en það er skilyrði endurgreiðslu skv. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 288/1995. 

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum