Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 952/2000

30.6.2000

Sala á utanlandsferðum - milliganga um ferðaþjónustu - milliganga um námskeiðahald.

30. júní 2000
G-Ákv. 00-952

Vísað er til bréfs yðar, dags. 16 mars 1999, þar sem spurt er um virðisaukaskattsskyldu A vegna innheimtra boðgjalda og sölu á utanlandsferðum frá B. Í bréfi þessu verður ekki fjallað um undanþágubeiðni frá hefðbundinni tekjuskráningu sem einnig kom fram í bréfinu. Sá hluti fyrirspurnarinnar var framsendur eftirlitsskrifstofu ríkisskattstjóra til meðferðar. 

Samkvæmt bréfinu eru utanlandsferðir á vegum B auglýstar í A. Almenningur getur boðið í ferðirnar og greitt þær hjá A. Sá sem hreppir ferð fær afgreiðsluseðil hjá A sem hann fer með til B og þar er útbúinn farseðill. B hefur síðan útbúið reikning vegna þessara ferða stílaðan á A með tilvísun um það hver hafi fengið farseðilinn.

Samkvæmt 13. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt er þjónusta ferðaskrifstofa undanþegin virðisaukaskatti. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi til laga um virðisaukaskatt þá er í ofangreindu ákvæði einungis verið að undanþiggja þá starfsemi ferðaskrifstofa sem felst í milligöngu um ferðaþjónustu þ.e. að koma á viðskiptum milli neytenda og seljenda ferðaþjónustu en ekki aðra starfsemi sem ferðaskrifstofur kunna að hafa með höndum og er virðisaukaskattsskyld skv. almennum reglum þar um. Að áliti ríkisskattstjóra þá getur einungis verið um að ræða milligöngu um ferðaþjónustu þegar aðstaðan er sú að seljandi kemur fram í eigin nafni sem milligönguaðili gangvart kaupanda. Auk þess er það talið skilyrði fyrir því að starfsemi geti fallið undir ofangreinda undanþágu að seljandi hafi öðlast leyfi til reksturs ferðaskrifstofu skv. lögum nr. 117/1994, um skipulag ferðamála. Sú þjónusta A að selja utanlandsferðir getur að mati ríkisskattstjóra ekki talist þjónusta ferðaskrifstofu, í skilningi 13. töluliðs 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, nema A beri að hafa eða hafi öðlast leyfi til reksturs ferðaskrifstofu skv. 10. gr. laga nr. 117/1994. Hafi A ekki umrætt leyfi ber því þess vegna að innheimta virðisaukaskatt af sinni seldu þjónustu.

Í fyrirspurn yðar er einnig tekið fram að A hyggist bjóða til sölu ýmis konar námskeið. Milliganga um sölu á námskeiðum getur að mati ríkisskattstjóra ekki talist undanþegin virðisaukaskatti þar sem 3. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 verður ekki túlkaður svo rúmt að ákvæðið taki einnig til milligöngunnar. Ber A því að innheimta virðisaukaskatt af sölu sinni á námskeiðum.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á því að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum