Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 940/2000

6.4.2000

Sala listamanns á eigin stjörnufræðilegum málverkum.

6. apríl 2000
G-Ákv. 00-940

Vísað er til bréfs yðar, dags. 17. janúar 2000, þar sem þér óskið eftir upplýsingum um það hvort sala erlends listamanns á eigin verkum hér á landi beri virðisaukaskatt. Fyrirhugað er að umræddur listamaður komi til landsins með verk sín og haldi hér sölusýningu. Verður sýningin haldin í tengslum við ráðstefnu NASA um heimskautasvæðin á Mars sem haldin verður í Reykjavík dagana 21.-25. ágúst n.k.

Til svars á erindinu skal tekið fram að samkvæmt 2. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt eru listamenn undanþegnir skattskyldu að því er varðar sölu þeirra á eigin listaverkum sem falla undir tollskrárnúmer 9701.1000 til 9703.0000. Undanþágan hefur m.ö.o. þá þýðingu að listamenn innheimta ekki virðisaukaskatt við sölu þessara verka.

Eftirfarandi listaverk falla undir hin tilgreindu tollskrárnúmer:

 1. Málverk, teikningar og pastelmyndir gerðar í höndum að öllu leyti, þó ekki:

  a)  uppdrættir og teikningar til notkunar í húsagerð, verkfræði, iðnaði, viðskiptum, landslagsfræði eða þess háttar handgerð frumverk.

  b)  handskrifaður texti.

  c)  ljósmyndir á ljósnæmum pappír.

  d)  handmálaðir eða handskreyttir framleiddir hlutir.

 2. Klippimyndir og áþekk veggskreytispjöld.
 3. Frumverk af stungum, þrykki og steinprenti, þ.e. myndir sem þrykktar eru beint í svörtu og hvítu eða í lit með  einni eða fleiri plötum sem listamaður hefur gert að öllu leyti í höndunum án tillits til þeirra aðferða eða efnis sem hann notar, þó ekki með neins konar vélrænum eða ljósvélrænum aðferðum.
 4. Frumverk af höggmyndum og myndastyttum úr hvers konar efni. Til þessa flokks teljast ekki fjöldaframleiddar endurgerðir af listaverkum eða venjulegar handiðnaðarvörur sem hafa einkenni verslunarvöru, jafnvel þótt vörur þessar séu hannaðar eða búnar til af listamönnum.

Af framansögðu má ljóst vera að sala hins erlenda listamanns á eigin verkum er undanþegin virðisaukaskatti ef verk hans falla undir ofangreind tollskrárnúmer. Verði seldur aðgangur að sýningunni er aðgangseyririnn undanþeginn virðisaukaskatti á grundvelli 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Gildir það án tillits til þess hvort sala verkanna er undanþeginn virðisaukaskatti eða ekki þar sem sýningin er náskyld starfsemi listasafns.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum