Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 939/2000

5.4.2000

Innflutningur og sala á mynt sem er sérstaklega slegin vegna ársins 2000 - söfnunargripir   

5. apríl 2000
G-Ákv. 00-939

Vísað er til bréfs yðar frá 8. febrúar 2000. Í bréfinu kemur fram að A hefur haft til athugunar tollmeðferð á mynt sem slegin er sérstaklega vegna ársins 2000. Innflytjandi er B. Verðgildi myntarinnar er 10.000 kr. en B hyggst selja myntina á kr. 15.000 í sérstöku umslagi. B telur að ekki eigi að greiða virðisaukaskatt af myntinni hvorki við innflutning né sölu og vísar máli sínu til stuðnings til 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  Í bréfi yðar er óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á þessu.

Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nær skattskyldan til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra. Peningaseðlar, mynt og frímerki eru vörur í skilningi laganna þegar þeir hlutir eru seldir sem söfnunargripir.  Peningaseðlar, mynt og frímerki eru ekki vara í skilningi laganna þegar þeir hlutir eru látnir í té sem greiðslumiðill. Þá er þess að geta að prentun peningaseðla, frímerkja og slátta myntar telst skattskyld þjónusta skv. 2. mgr. 2. gr. laganna.

Af bréfi yðar má ráða að söluverð umræddrar myntar verður hærra en nafnverð hennar, auk þess sem um er að ræða sérslegna minningar- eða hátíðarmynt. Ætla má að megináhersla verði á það lögð að selja þessa mynt til safnara en ekki að dreifa henni eins og venjulegri mynt.

Með vísan til framanritaðs telur ríkisskattstjóri að umrædd mynt sé flutt inn og seld sem söfnunargripir. Það er því álit ríkisskattstjóra að um sé að ræða skattskylda vöru í skilningi laga um virðisaukaskatt. Um skattverð fer eftir 7. og 35. gr. laganna.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum