Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 937/2000

15.3.2000

Virðisaukaskattsskylda greiðslumiðlunarfyrirtækis.

15. mars 2000
G-Ákv. 00-937

Í bréfi starfshóps sambands íslenskra viðskiptabanka um virðisaukaskattsmál dagsettu 24. nóvember 1999 er fyrirspurn beint til ríkisskattstjóra varðandi virðisaukaskattsskyldu fyrirhugaðs greiðslumiðlunarfyrirtækis.  Greint er frá því að fyrirhugað sé að stofna hlutafélag undir nafninu A. Félaginu er ætlað að vera eign banka, sparisjóða, greiðslukortafyrirtækja og hugsanlega fleiri.

Fyrirhuguð starfsemi félagsins er:

Að veita aðgengi að greiðslujöfnun innlánsstofnana, sem felst í því að umbreyta í eina kröfu eða skuldbindingu mörgum kröfum eða skuldbindingum sem eiga rót að rekja til greiðslufyrirmæla sem þátttakendur hafa annaðhvort gefið eða eiga að taka við frá einum eða fleiri þátttakendum svo að aðeins ein krafa eða skuldbinding myndist um greiðsluskyldu þátttakanda.

Að annast svonefnda RÁS þjónustu (rafrænar greiðslur á sölustað), sem felst í: a) Að byggja upp greiðslurás þar sem safnað er saman færslum sem berast frá kortalesurum á sölustað eða öðrum jaðartækjum, beina færslum á viðeigandi staði og veita tengda þjónustu. b) Að votta posa, kassakerfi og hvers konar rafrænan búnað sem notaður er á sölustað til að skila færslum inn í rásina. c) Að starfrækja notendaþjónustu sem kortamóttakendur geta leitað til þurfi þeir á aðstoð að halda.

Að selja aðgang að ýmsum greiðslumiðlunarsamningum sem bankar hér á landi hafa þróað, en þar er um að ræða skjalalaus viðskipti, gíróþjónustu, innlausn tékka o.fl.

Þjónustu félagsins er ætlað að standa öllum til boða á sama verði.

Til svars fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram.

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Að því er þjónustu varðar tekur skattskyldan til allrar vinnu og þjónustu hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega tilgreind undanþegin í 3. mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt 10. tl. 3. mgr. 2. gr. laganna er undanþegin virðisaukaskatti; þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, svo og verðbréfamiðlun.

Í skattframkvæmd hefur verið litið svo á að undanþágan taki til þjónustu sem bönkum, sparisjóðum og öðrum lánastofnunum er ætlað að veita lögum samkvæmt, óháð því hver veitir þá þjónustu eða hverjum hún er veitt. Undanþágan tekur aðeins til eiginlegrar, skilgreindrar þjónustu banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, en ekki til annarrar þjónustu sem þær stofnanir kunna að veita

Greiðslumiðlun, svo og útgáfa og umsýsla greiðslumiðla, er skilgreind sem þáttur í starfsemi viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana í 44. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, og í 8. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

Á grundvelli framanritaðs lítur ríkisskattstjóri svo á að fyrirhuguð starfsemi A falli undir umrætt undanþáguákvæði 10. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, að því leyti sem hún telst til greiðslumiðlunar eða annarrar eiginlegrar, lögboðinnar þjónustu banka, sparisjóða og annarra lánastofnana.

Undanþágan nær aðeins til sölu eða afhendingar vinnu og þjónustu, en ekki til virðisaukaskatts af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi, sbr. 4. mgr. 2. gr. laganna nr. 50/1988. Undanþágan veitir því ekki rétt til kaupa á aðföngum án virðisaukaskatts. Þá er ekki til staðar innskattsréttur af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi, enda innskattsréttur bundinn við virðisaukaskatt af aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vöru og skattskyldri þjónustu, sbr. 16. gr. laga nr. 50/1988.

Þá skal bent á, að eins og önnur fyrirtæki, félög og stofnanir sem hafa með höndum starfsemi er fellur undir undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, yrði A skylt að greiða virðisaukaskatt í ríkissjóð af tiltekinni eigin þjónustu og úttekt til eigin nota að svo miklu leyti sem sú starfsemi er í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana, með síðari breytingum. Samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar tekur skattskyldan meðal annars til; smíði, viðhalds og viðgerðar eigin véla, tækja og áhalda, þjónustu sem krefst iðnmenntunar og þjónustu sérfræðinga sem almennt þjóna atvinnulífinu.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum