Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 935/2000

1.3.2000

Virðisaukaskattur - Innskattsréttur samkomuhaldara vegna erlendra tónlistarmanna - gisting - ferðakostnaður - hlunnindi.

1. mars 2000
G-Ákv. 00-935

Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram varðandi innskattsrétt samkomuhaldara vegna gistingar erlendra listamanna:

Samkomuhaldari fær erlenda listamenn til Íslands og koma þeir fram á samkomu sem hann stendur fyrir. Vegna tengsla við veitingastarfsemi er aðgangseyrir að samkomunni virðisaukaskattsskyldur. Samkomuhaldarinn greiðir listamönnunum þóknun fyrir að koma fram en einnig greiðir hann allan ferðakostnað til og frá landinu svo og gistikostnað vegna ferðarinnar.

Þóknun til listamanna fyrir að koma fram er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Líta verður svo á að gisting sé hluti af kjörum listamanna, þ.e. hluti þeirra þóknunar sem þeir fá. Má í því sambandi benda á 2. tölul. 71. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en þar er kveðið á um tekjuskattsskyldu erlendra listamanna og annarra sem koma fram í atvinnuskyni til skemmtunar. Listamennirnir eru skattskyldir af launum eða þóknun sem þeir fá, þ.m.t. hvers konar hlunnindum svo sem ferðakostnaði til og frá landinu hafi þeir ekki sjálfir greitt ferðakostnaðinn. Ef listamenn greiða sjálfir gistikostnað þurfa þeir sjálfir að bera virðisaukaskatt vegna gistingarinnar þar sem þeir eru ekki virðisaukaskattsskyldir og njóta ekki innskattsfrádráttar. Þóknun til þeirra greidd í peningum yrði því væntanlega hærri sem gistikostnaðinum næmi.  Virðisaukaskattsskyldur samkomuhaldari nýtur ekki innskattsfrádráttar vegna þeirrar greiðslu enda eru listamennirnir ekki virðisaukaskattsskyldir og ber því ekki að innheimta virðisaukaskatt af þóknuninni. 

Að áliti ríkisskattstjóra á virðisaukaskattsskyldur samkomuhaldari ekki rétt á innskattsfrádrætti af gistikostnaði sem stafar af komu erlendra listamanna vegna samkomunnar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum