Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 925/1999

30.11.1999

Endurgreiðsla virðisaukaskatts – opinberir aðilar - A, B og D

30. nóvember 1999
G-Ákv. 99-925

Vísað er til bréfs yðar, dags. 5. maí 1999, þar sem óskað er eftir upplýsingum um það hvort A, B og D eigi kost á því að fá endurgreiddan virðisaukaskatt skv. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, með áorðnum breytingum.

Til svars erindinu skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 12. gr. rglg. nr. 248/1990 skal endurgreiða ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra þann virðisaukaskatt sem þau greiða við kaup á tilteknum aðföngum eftir því sem nánar greinir í nefndum ákvæðum. Endurgreiðsluheimildin tekur þó ekki til banka í eigu ríkisins sbr. 1. mgr. 1. gr. rglg. nr. 248/1990. Heimildin tekur til stofnana í samrekstri opinberra aðila. Hún tekur hinsvegar ekki til stofnana sem að hluta eða að öllu leyti eru í eigu annarra aðila, þótt starfsemi þeirra falli undir sambærilegt svið. Þó geta sjálfseignarstofnanir talist vera á vegum ríkis eða sveitarfélaga með þeim hætti að endurgreiðsluákvæðið taki til þeirra séu þær reknar fyrir opinbert fé, ræki hlutverk á vegum ríkis eða sveitarfélaga og undir stjórn þeirra að hluta eða öllu leyti, sbr. nánar úrskurð yfirskattanefndar nr. 317/1997.

Í 1. gr. laga nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins segir að sjóðurinn sé stofnun í eigu ríkisins og að hann heyri undir landbúnaðarráðherra. Sjóðurinn er lánastofnun í skilningi laga nr. 123/1993 um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Hlutverk sjóðsins er að tryggja að landbúnaðinum aðgang að lánsfé til fjárfestinga á hagstæðum kjörum.

Í 24. gr. laga nr. 117/1994, um skipulag ferðamála er fjallað um Ferðamálasjóð. Þar segir að sjóðurinn sé eign ríkisins og að hann lúti stjórn samgönguráðherra. Sjóðurinn er stofnlánasjóður þeirra starfsgreina sem ferðaþjónusta byggist einkum á og hlutverk hans er að stuðla að þróun íslenskra ferðamála með lánum og styrkveitingum.

Um F gilda lög nr. 89/1966. Í lögunum kemur ekki skýrt fram hver sé eigandi sjóðsins en af  þeim má ráða að hann er í eigu ríkisins. Stjórn sjóðsins er skipuð af landbúnaðarráðherra og hlutverk hans er að veita styrki og lán til framleiðniaukningar og hagræðingar í landbúnaði og atvinnurekstrar á bújörðum.

Ljóst þykir af lögum um viðkomandi sjóði að þeir teljast opinberir aðilar í skilningi rglg. nr. 248/1990. Við túlkun á því hvaða lánastofnanir teljist bankar í skilningi 1. mgr. 1. gr. sömu reglugerðar hefur verið miðað við að með bönkum sé átt við lánastofnanir sem falla undir lög nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði. Þeir sjóðir sem hér eru til umfjöllunar teljast ekki til innlánsstofnana og falla því undir lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Þeir teljast því ekki bankar í  skilningi 1. mgr. 1. gr. rglg. nr. 248/1990 og eiga þess vegna rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum