Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 920/1999

3.11.1999

Flugvélar - Leiga - Undanþegin velta - Viðgerðir og viðhald - Innskattur

3. nóvember 1999
G-Ákv. 99-920

Vísað er til símbréfs yðar, dags. 14. október 1999, þar sem spurt er hvort viðgerðar- og viðhaldsvinna sem unnin er fyrir flugvélaleigu sé undanþegin velta á grundvelli 7. tl. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. 

Samkvæmt fyrirspurninni eru málavextir á þann veg að flugvélaleigan mun eingöngu leigja ákveðnum flugskóla vélarnar.  Flugvélaleigan mun sjá um allt viðhald, tryggingar o.þ.h. en kemur ekki nálægt flugvélarekstri að öðru leyti en því að sjá alfarið um rekstur á flugvélakosti flugskólans.  Í bréfinu kemur einnig fram að flugvélaleigan þurfi ekki flugrekstrarleyfi samkvæmt skilgreiningu Loftferðaeftirlitsins, en flugskólinn er með flugrekstrar- og kennsluleyfi.  Allar flugvélar leigunnar eru eingöngu kennsluvélar og eru þær skráðar sem atvinnuloftför.

Í 6. tl. 12. gr. laga um virðisaukaskatt er kveðið á um að útleiga loftfara teljist ekki til skattskyldrar veltu.  Undanþágan nær þó ekki til einkaloftfara.  Samkvæmt túlkun ríkisskattstjóra á ákvæðinu þarf kaupandi þjónustunnar, leigutaki að vera skráður með flugrekstrarleyfi.  Einnig þurfa flugvélarnar að vera skráðar atvinnuloftför og mega þær ekki vera notaðar í frístundum eða í íþróttastarfsemi.  Verður að telja að skilyrði þessa ákvæðis sé uppfyllt, starfsemi flugvélaleigunnar er því skráningarskyld á grunnskrá virðisaukaskatts en ekki ber að innheimta virðisaukaskatt af leigufjárhæðum. 

Viðgerðar- og viðhaldsvinna við loftför er undanþegin skattskyldri veltu skv. 7. tl.   12. gr. laga um virðisaukaskatt.  Undanþágan nær þó ekki til einkaloftfara.  Flugvélarnar þurfa að vera skráðar atvinnuloftför, sbr. skilyrði fyrir undanþágu 6. tl. 12. gr. sömu laga.  Ákvæðið hefur einnig verið skýrt þannig að það nái aðeins til þess tilviks þegar þjónustan er seld beint til flugrekstraraðila sem í þessu tilvik er flugskólinn. Undanþágan er bundin við það að flugförin séu notuð við atvinnuflug og ekki er heimilt að nota vélarnar í frístundum eða í íþróttastarfsemi. Þar sem réttur til afnota vélanna er hjá leigutaka en ekki leigusala, getur leigusali ekki byggt rétt sinn til þess að fá þjónustu án virðisaukaskatts á grundvelli nota leigutaka.  Það er því ekki heimilt að selja viðgerðarþjónustu án virðisaukaskatts til flugvélaleigunnar.  Flugvélaleigunni er hins vega heimilt að innskatta þann virðisaukaskatt sem lagður er á viðgerðarþjónustuna samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum