Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 916/1999

26.7.1999

Virðisaukaskattur - flugvélaviðgerðir og flugvélavarahlutir - flugskóli.

26. júlí 1999
G-Ákv. 99-916

Vísað er til bréfs yðar dagsetts 31. maí 1999 þar sem spurt er um virðisaukaskatt af flugvélavarahlutum og vinnu við flugvélar, sem notaðar eru við flugkennslu og skráðar eru sem atvinnu­flugvélar. Óskað er staðfestingar á því að seljendum beri ekki að innheimta virðisaukaskatt af vinnu og varahlutum við sölu til flugskóla.  Einnig er óskað upplýsinga um það hvort flugskóli skuli greiða virðisaukaskatt við innflutning varahluta til ísetningar á eigin verkstæði og hvort sá virðisaukaskattur fáist endurgreiddur. 

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

1.  Almennt.

Flugkennsla er undanþegin virðisaukaskatti, skv. 3. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisauka­skatt.  Með undanþágunni er flugkennslu skipað utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts.  Í því felst að ekki ber að innheimta virðisaukaskatt af gjaldi sem innheimt er fyrir flugkennslu, en jafnframt að flugskóli skal bera allan virðisaukaskatt af aðföngum til þess rekstrar, sbr. 4. mgr. 2. gr. laganna.  Undanþágan felur  því hvorki í sér að viðsemjanda flugskóla sé heimilt að falla frá innheimtu virðisaukaskatts við skattskylda sölu til skólans, né myndar virðisaukaskattur af aðföngum innskatt hjá flugskóla.  Þannig ber flugskóla m.a. að greiða virðisaukaskatt af tollverði skattskyldrar vöru við innflutning, sbr. 1. mgr. 34. gr. laganna nr. 50/1988.

2.  Viðhald og viðgerðir á flugvélum.

Samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 telst ekki til virðisaukaskattskyldrar veltu viðgerðar- og viðhalds­vinna við loftför og fastan búnað þeirra, svo og efni og vörur sem það fyrirtæki sem annast viðgerðina notar og lætur af hendi við þá vinnu. Í ákvæðinu er tekið fram að undanþágan nái ekki til einkaloftfara.

Umrædd undanþága tekur fyrst og fremst til vinnu við viðgerð og viðhald loftfars og fastan búnað þess, en jafnframt til varahluta og annars efnis sem sá er vinnuna annast lætur af hendi í beinum tengslum við vinnu sína við loftfarið. Til fasts búnaðar loftfars teljast aðeins fastar innréttingar og tæki sem komið er fyrir í loftfari með varanlegum hætti, svo sem fjarskiptabúnaður, siglingatæki og öryggisbúnaður. Undanþágan tekur aðeins til vinnu við atvinnuloftför, þ.e. för sem skráð eru sem atvinnuloftför í loftfaraskrá Flugmálastjórnar, enda sé rekstraraðili þeirra handhafi tilskilinna leyfa til atvinnuflugs.

Því aðeins má seljandi viðgerðar- og viðhaldsvinnu við loftför falla frá innheimtu virðisaukaskatts að hann selji þjónustu sína beint til flugrekstraraðila. Seljandi skal geta þess á sölureikningi við hvaða loftfar var unnið. Jafnframt skal kaupandi rita á afrit reiknings yfirlýsingu um að þjónustan varði loftfar í rekstri hans.

Hafi einhver viðsemjenda flugskólans ranglega innheimt virðisaukaskatt miðað við framangreindar forsendur, ber honum að skila þeim skatti í ríkissjóð, sbr. 3. mgr. 22. gr. ­laganna nr. 50/1988.  Sú skilaskylda fellur niður verði leiðrétting gerð gagnvart flugskólanum sem kaupanda, þ.m.t. með viðeigandi leiðréttingu reiknings sbr. 3. mgr. 20. gr. laganna.

3.  Eigin viðgerðarþjónusta.

Þeir sem hafa með höndum starfsemi undanþegna virðisaukaskatti skv. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, skulu almennt greiða í ríkissjóð virðisaukaskatt af tiltekinni eigin þjónustu og úttekt til eigin nota, að svo miklu leyti sem sú starfsemi er í samkeppni við atvinnufyrirtæki, þ.m.t. smíði, viðhaldi og viðgerð véla og tækja og þjónustu sem krafist er iðnmenntunar við, skv. 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana, sbr. 3. gr. laganna nr. 50/1988.  Starfsemi telst vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki þegar viðkomandi vara eða þjónusta er almennt í boði hjá atvinnufyrirtækjum og skiptir ekki máli í því sambandi hvort eða hve mikið aðili selur af slíkum vörum eða þjónustu til annarra. Fari slík starfsemi fram í sérstakri þjónustudeild skal miða skattverð við almennt gangverð í sams konar viðskiptum, sbr. 1. tl. 3. gr. umræddrar reglugerðar.  Jafnframt heimilast þá að draga frá sem innskatt virðisaukaskatt af aðföngum til hinnar skattskyldu starfsemi skv. almennum reglum þar um.  Þjónustudeild skal uppfylla skilyrði 5. og 6. gr. reglugerðar nr. 562/1989 varðandi bókhald, þ.e. vera aðgreind í bókhaldi frá öðrum þáttum starfseminnar og haga skráningu á afhendingu vörum og þjónustu með fyrirfram skipulögðum hætti.  Fari umrædd starfsemi ekki fram í sérstakri þjónustudeild skal miða skattverð við kostnaðarverð þess hluta heildarkostnaðarins sem ekki hefur verið greiddur virðisaukaskattur af við kaup á aðföngum, sbr. 2. tl. sömu greinar reglugerðarinnar.  Með kostnaðarverði skal telja bein laun og annan kostnað auk álags vegna launatengdra gjalda og annars sameiginlegs kostnaðar samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra, sjá auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 17/1996.  Enginn innskattur heimilast við uppgjör virðisaukaskatts eftir hinni síðar nefndu aðferð.

Viðgerðar- og viðhaldsvinna við flugvélar fellur almennt undir skattskyldusvið virðisaukaskatts, þó falla megi frá innheimtu skattsins við tilteknar aðstæður, sbr. umfjöllun undir lið 2 hér að framan.  Af fyrirspurninni má ráða að slík þjónusta sé almennt í boði hjá atvinnufyrirtækjum.  Eigin viðgerðar- og viðhaldsvinna flugskóla telst því til virðisaukaskattskyldrar starfsemi, þó ekki komi til útsköttunar hennar sökum áður nefnds ákvæðis 7. tl. 1. mgr. 12. gr. laganna nr. 50/1988.  Innskattsréttur vegna aðfanga til eigin viðgerðar- og viðhaldsvinnunnar ræðst af þeim ákvæðum reglugerðar nr. 562/1989 sem að framan eru rakin, þ.m.t. af því hvort starfsemin fer fram í sérstakri þjónustudeild eða ekki.  Upphaf innskattsréttar í tíma miðast við skráningu á virðisaukaskattsskrá, skv. 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, sbr. 5. og 16. gr. laganna nr. 50/1988.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum